Færsluflokkur: Tónlist
6.1.2011 | 20:23
David Bowie 5. hluti
The Lower 3dr
Í mars 1965, þá nýlega orðin átján ára, hitti Bowie fyrir meðlimi næstu sveitar sem hann starfaði með; The Lower Third.
Fyrstu kynni hans af sveitinni fóru fram á Giocanda Coffee Bar í Danmark Street sem var vel þekktur staður meðal tónlistarmanna.
Fyrir inngöng David hafði sveitin reynt að auglýsa sig sem besta rythma og blúsband Suð-Austur Kent og komið fram sem danshljómsveit þar sem á efnisskránni voru ýmis tökulög í anda James Brown. Frægðin hafði hinsvegar látið á sér standa.
Í von um að forsöngvari myndi opna þeim nýjar leiðir í þá átt var ákveðið að leita að frambærilegum forsöngvara. Það sem mælti með David var annarsvegar útlitið sem þeim fannst minna á Keith Relf söngvara Yardbirds og svo hitt að Bowie hafði þegar sungið inn á tvær plötur. Nafnabreytingin var því auðsótt mál fyrir David og eftir inngöngu hans kom sveitin fram sem Davy Jones and the Lower Third og vildi David þannig undirstrika strax frá upphafi hver réði á þeim bænum.
Upprunalega skipan sveitarinnar var auk David, Dennis Tea-Cup Taylor á gítar, Graham Death Rivens á bassa og Les Mighall á trommur.
Með þessari liðsskipan taldi sveitin sig fljótlega reiðubúna til upptöku lagsins Born Of The Night og David þess fullviss að Sal Talmy myndi hljóðrita það. En hann var á þeirri stundu upptekin við að hljóðrita The Who auk þess sem honum líkaði lagið ekki og varð því ekkert af upptökunum á þeirri stundu.
Skömmu eftir að þessi áætlan sveitarinnar brást yfirgaf Les Mighall sveitina en í hans stað kom Phil Lancaster en sá hafði starfar sem session trommari og unnið meðal annars í hljóðveri með hljómsveitinni Dave Clark Five. En að því kom að upptökustjórinn átti tíma fyrir sveitina og fyrsta smáskífa þeirra var hljóðrituð.
Á a-hlið þessarar smáskífu sem út kom 20. ágúst 1965 er að finna lagið You Got A Habit Of Leaving sem óneitanlega er í anda þess sem The Who var að gera. En á hinni hlið skífunnar var lag sem þótti minna á Herman Hermits; Baby Loves That Way, en þessi lög voru þau síðustu sem Sal Talmy tók upp með David og þau eru einni þau síðustu sem David samdi og hljóðritaði undir sínu upprunalegu nafni.
Því tæpum mánuði síðar kastaði hann síðara nafni sínu fyrir róða og tók þess í stað upp nafnið Bowie eftir ævintýramanninum Jim Bowie frá Texas en sá mun hafa verið snillingur í meðferð hnífa.
Önnur og öllu langsóttari skýring hefur komið fram í nokkrum ritum um þessa nafnabreytingu. Það að Bowie hafi haft um það hugmyndir að hann yrði einskona tenging minni tveggja stærstu nafna breska poppsins, það er The Beatles og Rolling Stones. Nafnið yrði að byrja á bókstafnum B eins og Beatles og í viðtali við Mike Jagger skömmu fyrir nafnaskiptin hafi Jagger minnst á að nafn sitt þýddi hnífur á fornensku. Þessi langsótta skýring á sér þó litla stoð í raunveruleikanum og segir sagan að þegar þetta hafi verið borið undir Bowie sjálfan í viðtali 1974 hafi hann hreinlega misst sig af hlátri, og látið þau orð falla að ekkert væri fjær sanni.
Ástæðan fyrir nafnbreytingunni var hans sögn sú að Bowie vildi forðast rugling við söngvara The Monkees sem einnig hét David Jones sem og nafna þeirra sem var bandarískur soul söngvari en allir voru þeir tíðir tónleikagestir í Marquee klúbbnum á sama tímabili og nafnaruglingur því algengur.
Bowie nafnið birtist fyrst á seinni smáskífunni hen hann hljóðritaði með The Lower Third í árslok 1965. Platan kom svo á markað í janúar 1966. Á A-hlið hennar getur að heyra lagið Cant Help Thinking About Me sem er einfaldlega tíunda melodrama og í engu frábrugðin öðru sem var að gerast í meðalmennskupoppi beggja vegna Atlandshafsins á þessum tíma.
Engu að síður náði lagið inn á lista tímaritsins Melody Maker er það settist í 45. sæti hans 12. Febrúar 1966 og var það fyrsta með Bowie sem sást á vinsældalista. Á B-hlið plötunnar getur að finna lagið And I Say To Myself sem var að nokkru leyti sama marki brennt hvað gæði varðar.
Þó má heyra á báðum þessum lögum að melódían er til staðarUmboðsmaður Bowie á þessum tíma var Rap Horton. Til bókar hefur líftími svetiarinnar vrið skráður sex mánuðir eða frá júlí 1965 fram í janúar 1966
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2011 | 00:30
David Bowie 4. hluti
The Manish Boys
Eftir skyndilega upplausn The King Bees í ágúst 1964 var David boðið söngvarasæti í hljómsveitinni The Manish Boys. Þessi sjö manna sveit sem ættuð var frá Maidstone í Englandi hafði getið sér nokkurs orðstírs undir heitinu The Band Seven og þar áður sem The Jazz Band en á fjögra ára starfsferli sínum í Maidstone er talið að hún hafði gengið í gegnum einar fimm nafnabreytingar og álíka oft skipt um tónlistarstefnu. Ástæður þess að David var boðið sæti í sveitinni á sér tvær meginskýringar. Í fyrsta lagi hafði sveitin nýlega gert útgáfusamning við Parlopone hljómplötuútgáfuna og vantaði söngvara til liðs við sig. Í öðru lagi, og þá síðast en ekki síst vegna þess að meðlimum The Manish Boys þótti honum svipa mjög í útliti til Brian Jones, eins af forsprökkum Rolling Stones. Þeir töldu það geta orðið þeim til framdráttar, því rétt eins og Rolling Stones nefndi sveitin sig eftir gömlu Muddy Waters lagi og starfaði undir sterkum áhrifum bandarískrar blústónlistar og hafði reyndar vakið nokkra athygli fyrir óvenjulega hljóðfæraskipan, þar sem alt, baratón og tenórsaxófónar plús trompet áttu hlut að máli.
Sveitin varð þó við inngöngu David, að breyta tónlistarstefnu sinni einu sinni enn og eftir innlimun Davids var hún skipuð: David Jones (söngur, sax), John Watson (söngur, bassi og rythma gítar), Mick White (trommur), Bob Solly (organ), Paul Rodriguez (tenor sax, trompet og bassi) og Wolf Byrne (bariton sax og harmonikka).
Í lok nóvember 1964, þrem mánuðum eftir að David gekk til liðs við sveitina var The Manish Boys ráðin af umboðsmanninum Arthur Howes til að koma fram á einum sex tónleikum sem upphitunarnúmer á tónleikaferð Gen Pitney-Garry & The Pacemakers. Með í þeirri för voru hljómsveitin The Kings og söngkonan Marianne Faithful. Ferðin hófst 1. desember 1964. Howes var nokkuð þekktur umboðsaðili á þessum tíma og hafði meðal annars kynnt hljómsveitina The Kinks, er hún hafði í ágúst þetta sama ár náð toppi Breska listans með laginu You Really Got My sem hljóðritað var undir stjórn upptökustjórans Shel Talmy.
Meðal þeirra sem komu og sáu sveitina spila var fjórtán ára gömul stúlka Dana Gillespie. Skemmst er frá að segja að leiðir hennar og David lágu saman eftir tónleikana sem síðar þróaðist í vináttusamband. Átti David síðar eftir að leggja henni lið við gerð sólóplötu.
Skömmu eftir að verkefni The Manish Boys lauk hélt sveitin sem leið lá í Regent hljóðverið til upptöku laga á væntanlega dvergskífu fyrir Decca útgáfuna, samkvæmt áðurnefndum samningi sveitarinnar. Undir stjórn upptökustjórans Mike Smith hljóðritaði sveitin að minnsta kosti tvö lög. Það fyrra var lag Barböru Lewis, Hello Stranger og hitt var lagið Love Is A Strange, sem síðar varð heimsþekkt í flutningi Everly Bræðra sem komu laginu á topplistann í október árið 1965. Ekki varð neitt af útgáfu skífunnar og liggja því þessar upptökur The Manish Boys enn einhversstaðar í geymslum ókunnar almenningi. Eftir að hafa lokið þessum upptökum komst sveitin í hljóðver á ný nú fyrir tilstilli Arthur Howes sem fékk áðurnefndan Shel Talmy til að hljóðrita efni á einu smáskífuna David Jones gerði með The Manish Boys. Sú kom út þann 5. mars 1965. Á fyrri hliðinni er hið áheyrilega lag I Pity The Fool. Við upptökur þess lags var fenginn utanaðkomandi gítarleikari og var þar á ferð enginn annar en Jimmy Page, sá hinn sami og síðar öðlaðist varanlega frægð með hljómsveitinni Led Zeppelin.
Um svipað leyti og I Pity The Fool var útgefið á merki Parlophone útgáfunnar, gafst The Manish Boys tækifæri til að koma fram í sjónvarpsþætti í BBC en slíkt þótti mikil viðurkenning og gífurleg auglýsing fyrir viðkomandi sveit. Þegar stjórnandi þáttarins, Barry Langford, sá hljómsveitarmeðlimi kom hins vegar alvarlegt babb í bátinn. Einn meðlima bandsins, að sjálfsögðu David Robert Jones var með liðað hár niður á axlir og þó Bítlarnir hefðu brotið ísinn hvað hársídd varðaði tveimur árum áður með því að láta hárið vaxa niður fyrir eyru, þótti á þessum tíma yfirgengilegt og meira en lítið óforskammað fyrir karlmann að hafa ljósa lokka niður á herðar.
Samningaviðræður voru því settar í gang en David stóð fastur á sínu og gaf sterklega í skin að fyrr mundi hann láta lífið en skerða hár sitt. Málalyktir urðu þær að The Manish Boys með David Jones innanborðs fékk að spila í áðurnefndum þætti en með því skilyrði þó að ef einhver kvörtun kæmi frá áhorfenda vegna hárprýði Davids myndu laun hljómsveitarinnar fyrir þáttinn renna til líknarmála.
Í þættinum flutti sveitin lagið I Pity The Fool og lag er sett hafði verið á b-hlið áður nefndrar dvergskífu sem nefndist Take My Tip en það var fyrsta lagasmíðin eftir David Jones sem þrykkt var á plast. En David var ekki ætlaður ævilangur staður innan raða The Manish boys, eftir rifrildi vegna ráðríkis Davids ákvað hann að yfirgefa bandið.
FRAMHALD SÍÐAR....
Tónlist | Breytt 5.1.2011 kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2011 | 16:27
Saga David Bowie - 1. hluti
Fyrir löngu vann ég ritsmíð um sögu David Bowie út frá plötum hans. Þessi saga var að hluta byggist að hluta á útvarpsþáttum sem voru á Rás 2 fyrir meir en áratug. En um það verður fjallað í niðurlaginu. Hér förum við af stað í fyrsta hluta af ótrúlega mörgum.
David Robert Jones
Hann fæddist klukkan 9:00 á áttunda degi janúarmánaðar 1947, í húsi númer 40 við Stansfield Road í Brixtonhverfi Lundunaborgar. Fáeinum dögum síðar var piltur vatni ausinn að kristinna manna sið og nefndur David Robert Jones. Faðir hans Haywood Stenton Jones, sem að öllu jöfnu og reyndar af óskiljanlegum ástæðum gekk undir nafninu John Johns, var þá að skilja við fyrri konu sína Hildi Lois Sullevan, sem hann hafði gifst árið 1933. Hann gekk síðar að eiga móðir þess nýfædda, konu á besta aldri er Margaret Mary Burns hét, kölluð Peggy af fjölskyldu og vinum. David átti þrjú eldri hálfsystkini, systur Annettu Jones sem faðir hans hafði eignast í fyrra hjónabandi og bróður Terry Burns er móðir hans hafði átt í lausaleik 1937. Meðan á síðari styrjöldinni stóð eignaðist Peggy stúlku með giftum manni er skírð var Myra Ann. Henni var komið í fórstu aðeins þriggja mánaða gamalli, en hún giftist síðar ung til Egyptalands og hefur engum sögum af henni farið sem tengjast David á nokkurn hátt. Móðir Davids, Mary Burns á hinsvegar ljúfar minningar frá fyrstu uppvaxtarárum sonarins.
Margret Jones
Hann hefur verið um það bil þriggja ára gamall þegar hann málaði sig í fyrst sinn. Við vorum með leigjendur á efri hæðinni í húsinu og einn daginn vorum við eitthvað að sýsla heima við og urðum þess ekki vör að hann hvarf upp stigann, þar sem hann fann poka með augnmaska, varalit og andlitspúðri. Þar komst hann að þeirri merku niðurstöðu að góð hugmynd væri að mála á sér andlitið með þessu. Þegar ég svo loksins fann hann nokkru síðar, leit drengurinn út eins og trúður. Þegar ég sagði honum að hann mætti ekki að nota make-up svaraði hann um hæl En mamma þú gerir það. Ég gat ekki annað en samsinnt því en benti honum jafnframt á að þetta væri bara ekki fyrir litla drengi.
Þrátt fyrir ljúfar minningar Peggyar vistist þessi sundurleiti hópur sem kallast átti fjölskylda, eiga fremur fátt sameiginlegt annað en að búa undir sama þaki. David var í augljósu uppáhaldi foreldrana sem létu hálfsysskyni hans að mestu afskipt og reyndu raunar eftir megni að stía þeim bræðrum í sundur sem annars voru ágætir vinir. Þrúgandi andrúmsloft einkenndi heimilið sem oftar en ekki var vígvelli líkast þar sem fjölskyldumeðlimir tókust á í harðri rimmu. Áhrifa þessa bágborna heimilisástands gætti síðar í kveðskap David Jones þar sem hann með söknuði horfir aftur til æskuárana sem hann aldrei fékk notið.
Á miðjum sjötta áratugnum flutti fjölskyldan úr hinu alræmda Brixton hverfi og settist að í Bromley þar sem öllu skárra þótti að búa.
Í kjölfar þess settist David á skólabekk í Burnt Ach Primary School þar sem hann kynntist meðal annarra George Underwood, en sá piltur varð einn nánasti vinur Davids næstu árin.
George Underwood: Ég man vel hvernig við eyddum laugardögunum, hangandi í búðinni hjá Vic Furlongs og hlustuðum á plötur, við keyptum aldrei neitt og þó það var í þeirri búð sem David sá sinn fyrsta saxófón. Hann kunni ekkert að spila á þessum tíma en hann gaf frá sér frábæran hávaða. þegar hann sá saxófóninn, hann sagði síðan föður sínum frá saxófóninum sem bauðst til að borga helminginn á móti David hefði hann áhuga á að eignast gripinn.
Á þessum unglingsárum kom bersýnilega í ljós sjálfstæði David og áræði, það að þora að feta aðrar leiðir, sem dæmi um þetta voru áhugamál jafnaldra hans í músíkinni; Buddy Holly. Auk fótboltans átti krikket íþróttin nokkrum vinsældum að fagna. En þá eyddi David frítíma sínum í að hlusta á American Network og en fremur fylgdist hann grant með Ameríska fótboltanum. Hann gekk meira að segja svo langt að skrifa bréf til ameríska sendiráðsins, sem bauð þessum áhugasama pilti í heimsókn þar sem hann eyddi heilum degi í að skoða sendiráðið og fræðast um Amerískan fótbolta.
Að aflokinni skólaskyldu lá leið Davids í verkmenntaskóla þar sem hann meðal annarra sat í bekk með Peter Framton sem síðar varð frægur með hljómsveitinni Humple Pie, þess má og geta að faðir Frampton var kennari við skólann og sótti Bowie tíma hjá honum á sínu þriðja ári innan veggja skólans. En námið sóttist pilti seint og 16 ára að aldri flosnaði hann úr skóla, enda þegar orðinn meðlimur í sinni fyrstu hljómsveit.
FRAMHALD SÍÐAR
Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2009 | 10:00
Íslensku tónlistarverðlaunin
Já og ja hér, Íslensk tónlistarverðlaun framundan. Þessi hátíð sem ætti að geta vaxið og dafnað í árferði eins og nú þar sem listir vaxa yfirleitt þegar eitthvað er að gerast í samfélagi manna og verður listamönnum uppspretta, fer hina leiðina. Jahá! Verðlaunum fækkar líka svo ummunar, Og hátíðarhaldið skríður í fátækt inn til sjónvarpsins, Afhverju var ekki bara biðlað til Fjölskylduhjálparinnar eða Rauðakrossins. VÁ!!!! Væri ekki bara ráð að hafa tvenn verðlaun ein fyrir Popp og önnur fyrir Klassíkina já og kannski þriðju fyrir Jazzinn og senda verðlaunin með pósti heim til vinningshafana.
Ég hef sjálfur verið þess aðnjótandi að vera boðin í tvö, þrjú skipti á þessa hátíð og hafði bara nokkuð gaman af því. En svo var maður víst ekki inni lengur og eins og svo ótal margir sem komið hafa að tónlistargeiranum tímabundið og er alvani í þessum bransa, það er maður er gleymdur. Sat því heima og horfði á hálf-fyllt Borgarleikhús í eitt eða tvö skipti. Nú treysta menn sér sem sagt ekki til að halda þessa hátíð með nokkurri sæmd. Breyta henni í sjónvarpsþátt. - Í mínum huga - Sorry - RÆFILDÓMUR.
Nema hér eigi peningasíkin sinn þátt í dæminu - Menn greiða fyrir að skila inn efni og fá tilnefningu - Sjónvarpið greiðir fyrir útsendingarréttinn, - ÆJI - Sleppum þessu frekar en gera þetta hallærislegt.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2008 | 02:34
Lagið sem fór að heiman
Ekki má nú Bubbi vinur minn mikið til að spekingar sparki. Nú birtist hver á fætur öðrum og tjáir sig um tökulag Bubba og Björns Jr. á laginu Ég er kominn heim sem Óðinn Valdimarsson söng inn á plötu 1960.
Það skrítna er að lagið hefur aldrei verið talið ýkja merkilegt, né notið vinsælda fyrr en nú þegar Björn Jr. flutti það í Bandinu hans Bubba og þeir félagar sungu það síðan saman inn á band í kjölfarið. Ég fullyrði því hér og nú að Björn Jr. og Bubbi hafa gert meira fyrir þetta lag en nokkur annar. Af hverju segi ég það? Lagið er vissulega gott og vel flutt af Óðni Valdimarssyni. Enn og aftur leifi ég mér að efast um vinsældirnar. Í fyrsta lagi var það valið á B-hlið smáskífunnar þegar það kom út árið 1960. Verum minnug þess að A-hliðin geymdi á þeim árum ALLTAF það lag sem talið var líklegra til vinsælda. Lagið var ekki endurútgefið á neinni plötu fyrr en Jónatan Garðason valdi það á fyrstu plötuna í útgáfuseríunni Óskalögin 1997 eða í 37 ár hafði lagið legið óhreyft. Næst birtist lagið á plötu sem innihélt yfirlit yfir feril Óðins árið 2004 eða 7. árum síðar.
Þegar hlustað er á lagið í flutningi Óðins fer ekkert á milli mála að þarna er lag sem tekið var upp við fátækleg skilyrði 1960. Það sem bjargar laginu eru fantagóðir hljóðfæraleikarar og silkimjúkur söngur Óðins. Björn og Bubbi útsetja lagið á allt annan hátt, það er hljóðritað með nútímatækni og menn vakna skyndilega af værum dofa og rjúka til að hlusta á Óðinn syngja lagið í þeim tilgangi að pota nú svolítið í þá Bubba og Björn. Engin sagði orð þegar Björgvin Halldórsson söng það inn á plötu, enginn sagði orð þegar Andri Bachman söng það inn á plötu. En þegar Bubbi Morthens opnar munninn fær menningarelítan sjokk og telur að nánast sé um helgispjöll að ræða. Mér finnst að þeir sem ætla að gagnrýna þá félaga fyrir þessa töku lagsins sem er allt önnur nálgun en hjá Óðni ættu kannski að kynna sér hvaðan lagið kom til Óðins og hvort sá flutningur er ekki gagnrýnisverður. Fyrir áhugasama er hér smá fróðleik um þetta lag.
Upprunalegur titill þess er Heut' nacht hab' ich geträumt von dir og er úr óperunni Das veilchen vom Montmartre eftir Kálman. Óðin Valdimarsson varð fyrstur til að hljóðrita lagið á íslensku við texta Jóns Sigurssonar sem einnig yfirfærði lagið í hljómsveitarbúning ásamt KK-Sextett. Hljóðritun var svo gerð í Ríkisútvarpinu í júní 1960 og sá Knútur Skeggjason um upptökur.
KK-sextettinn sá um undirleik og var þá skipuð þeim: Ellly Vilhjálms: Röddun, Jón Páll Bjarnason: Gítar, röddun ; Jón Sigurðsson: Kontrabassi, röddun ; Þórarinn Ólafsson: Píanó, röddun ; Guðmundur Steingrímsson: Trommur ; Kristján Kristjánsson: Röddun. Með öðrum orðum fanta góðir spilarar þá sem nú.
Niðurstaða mín er þessi Óðin flutti lag sem hafði verið fært úr óperubúningi í bigband útsetningu sem dægurlag. Bubbi og Björn syngja það við undileik rokksveitar. Ég veit ekki hvort stökkið er stærra. Það sem ég er að reyna að sega líka er að mér finnst stór munur á hvor menn taki svona lög og geri að sínum með sinni útsetningu, sinni rödd eða hvort menn fari að reyna að syngja það í líkingu við upprunalegu útsetninguna. Menn ættu þá að skreppa til plötu Björgvins og Andra Backman með gagnrýnisraddirnar. Eitt er að flytja lag eftir Megas og hitt er að reyna að fara að syngja það eins og Megas og þar finnst mér stór munur á svo ég tali sterkara dæmi.
Þessu til viðbótar má minna á orð á plötuumslagi Óðins um lagið:
"Gamalt Kláman lag í nýrri útgáfu og er ekki vafi á að lagið mun vekja athygli".
Líkega vissi Tage Ammendrup útgefandi ekki að þessi athygli kæmi fram árið 2008 en ekki 1960.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 08:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)