Færsluflokkur: Tónlist

David Bowie 16. hluti

David Live 

david_bowie_LiveDiamond Dogs fékk hvarvetna feyki góða dóma og var reyndar líkt við meistaraverkin Hunky Dory og Ziggy Stardust. Almenningur lét heldur ekki sitt eftir liggja og þeytti skífunni hátt á lista víða um heim. Bowie veðraðist allur upp við þessar jákvæðu undirtektir og lét sem hljómleikayfirlýsingin hefði aldrei frá honum farið og áður en menn og málleysingar gátu áttað sig var hann rokinn af stað með fríðan flokk spilara og aðstoðarmanna í geysiviðamikla og kostnaðarsama hljómleikaferð um Bandaríkin og Evrópu.

Í þeirri ferð rættist að vissu marki draumurinn um sviðsetningu söngleiksins, svo íburðarmiklir voru tónleikar kappans. Í túrnum tók Bowie upp á því að koma fram í víðum jakkafötum og hvítmálaður í framan. Þannig var fæddur arftaki Ziggy Stardust sem Bowie reyndi svo þrálátlega að losna við á sínum tíma. Þessi nýi persónugervingur fékk fljótlega viðurnefnið The Thin White Duke sem reyndar var og tilvitnun í ritverk sem Bowie hafði unnið að skömmu áður.

KnockonwoodÁ einum af fyrstu hljómleikum ferðarinnar, nánar tiltekið í Philadelphiu í Bandaríkjunum var hljóðritað tvöfalt albúm sem út kom í október 1974 og kallaðist David Live. Innihald plötunnar er að stórum hluta tileinkað Diamond Dogs auk laga af Aladdine Sane, Ziggy Stardust, Hunky Dory og Man Who Sold The World. en af öðru efni má nefna lögin Knock on Wood eftir Eddy Floyd og All the Young Dudes sem Bowie samdi fyrir Moot the Hoople, en fyrrnefnda lagið var valið til útgáfu á smáskífu í tengslum við útgáfu plötunnar og kom út í nokkrum löndum með mismunandi umslagi (sjá mynd).

Með í þessari tónleikaferð voru kvikmyndatökumenn breska ríkissjónvarpsins en í þeirra höndum var gerð heimildarmyndar um herlegheitin og var hún sýnd í BBC seinna um veturinn undir heitinu Cracked Actor. Ræman fékk jákvæðar undirtektir bæði gagnrýnenda sem og almennings.

bowie74Þrátt fyrir rómaða tónleika David Bowie fékk platan sjálf heldur slaka dóma enda sjónarspilið líkast til of stór þáttur sýningarinnar til að hægt væri að slíta það úr samhengi við tónlistina. Sem dæmi má nefna að samtals sextán sinnum á hverjum tónleikum var skipt um sviðsmynd og sjálfur kom Bowie fram í alls 12 gerfum áður en yfir lauk og notaði 8 mismunandi míkrafóna við að skila söng sínum til áheyrenda. Allt átti þetta sína stóru þætti í að magna upp hughrif og stemmingu meðal áhorfenda, nokkuð sem ekki fékkst notið er skífunni var þeytt, nema síður væri. Sjálfur var Bowie hundóánægður með gripinn, segist aldrei hafa spilað plötuna eftir að hún kom út og á myndinni er prýðir umslagið segir hann sjálfan sig líkastan afturgöngu sem nýrisin sé upp úr votri gröf. Og enn síðar sagði hann í viðtali að með útgáfu plötunnar David Live hefði jarðaför Ziggy Stardust farið fram. En margir aðdáendurnir hafa þó telið ástfóstri við einstök lög plötunnar og telja hana ómissandi í safni sínu. 

Hljómleikaferðalagið og ekki síður umrædd mynd markaði fæðingu næstu sögupersónu Bowie; The Thin White Duke. En það viðurnefni átti efir að loða við persónu David Bowie næstu árin.
Síðla árs 1974 fluttist Bowie búferlum til Bandaríkjanna en þar hafði bóndi byggt sér snoturt heimili skammt undan Hollywood hæðum í Los Angeles borg. Kot karls innihélt auk venjulegra nauðþurfta risavaxið bókasafn þar sem Bowie fékk fullnægt lestrarfíkn er hann hafði á háu stigi, vinnustofu þar sem húsbóndinn gat mundað pensli að vild eða dundað sér við aðra listsköpun og í kjallaranum hafði hann komið sér upp þægilegu hljóðveri en í því samdi Bowie obba þeirra lagasmíða sem prýða áttu næstu plötu – Framundan var enn ein kúvendingin og verkið Young Americans.


David Bowie 15. hluti

Diamond Dogs

imagesCAUDFG1YÁ meðan á upptökum Pinups plötunnar stóð í París sumarið 1973 var Bowie farinn að leggja drög að tónverki sem hann ætlaði að nota við eigin leikhúsuppfærslu á verki George Orwell, 1984. Hugmyndina hafði Bowie fengið í Sovétríkjunum, en þangað hafði hann farið í frí fyrr um vorið. Framkvæmd verskins stöðvaðist hins vegar áður en það komst almennilega á skrið þar sem ekkja Orwell neitaði Bowie um tilskilin leyfi.

midnight_specialBowie sem þá hafði lokið samningi tónlistar varð auðvitað kvektur við en ákvað að láta ekki deigan síga heldur tileinka næstu plötu þema sem byggði að nokkru leiti á meistaraverkinu 1984.
Platan sem opinberar þessar Orwell pælingar Bowie er Diamond Dogs sem gefin var út í apríl 1974. Í millitíðinni hafði Bowie haft umsjón með rokkþættinum 1980 Floorshow fyrir bandaríska sjónvarpsstöð, en auk hans komu fram í þættinum Marianne Faithfull og hljómsveitin Troogs. Þátturinn sem tekinn var upp í Marquee klúbbnum í London þótti einstaklega vel heppnaður og enn ein rósin í hnappagat David Bowie.

Undanfari Diamond Dogs var smáskífan með hinu öfluga Rebel Rebel, en í texta þess lagsins skýtur Bowie hæðnisglósum að klæðaskiptingum og þótti mörgum sem hann hefði lítt efni á slíku. Sumir litu á textann sem uppgjör Bowie við liðna tíma og enn aðrir túlkuðu hann sem hreint og beint spaug. Allir voru þó sammála um ágæti lagsins en sérstaka athygli vakti að allur gítarleikur var nú í fyrsta skipti alfarið í höndum Bowie sjálfs en farsælu samstarfi hans og Mick Ronson hafði lokið eftir að Pinups komst í hljómplötuverslanir. 

Dd_2_150Sem fyrr sagði var öll tónlist á Diamond Dogs samin sem undirspil við leikhúsuppfærslu á 1984 og má vel rekja tengsl hinna ýmsu laga plötunnar til þess verks þrátt fyrir gagngerar breytingar sem Bowie gerði er ljóst varð að af söngleiknum yrði ekki.
Sweet Thing og Candidate á fyrri hliðinni segja til að mynda frá því er Winston Smith og Julia hittast fyrst. Rock ‘n’ Roll With Me þegar þau uppgötva og njóta ástar hvors annars og lagið We are The Dead lýsir þeirri örvæntingu sem grípur hjúin er þau uppgötva að fylgst hefur verið með því glæpsamlega athæfi þeirra að elskast og tjáir á myndrænan máta þeim kvalafullu augnablikum sem þau máttu þola er þau uppgötva að The Big Brother hefur ekki látið samband þeirra fram hjá sér fara frekar en annað í Oceaniu.

Diamond Dogs sýnir hnignun og síðan tortímingu stórborga en henni lýsir Bowie sem beinni afleiðingu tækniframfara. Borgir breytast í vígvelli þar sem sá sterki sigrar, siðmenningin er á hröðu undanhaldi og lýtur á endanum í lægra haldi fyrir lögmáli frumskógarins. Þáttur George Orwell og sögu hans 1984 í því myndríka tónverki sem Diamond Dogs er óneitanlega, er mikill eins og lesendum ætti að vera orðið ljóst. Til að undirstrika hver áhrifavaldur að þema Diamond Dogs er tileinkar Bowie, Orwell einn af betri söngvum skífunnar 1984 en ljóðið við lagið er bein skírskotun í söguna góðu.

DG_allVið ljúkum frásögu okkar hér af þessu meistaraverki Bowie með örfáum orðum um umslag plötunnar sem enn í dag er með á listum fyrir bestheppnuðu rokkalbúm sögunnar. Og þess má geta að frumprentun umslagsins var gerð í fáum eintökum og eru meðal þeirra dýrustu sem slík. Höfundur þess verks er Belgíski myndlistamaðurinn Guy Peellaert (f. 6 4.1934 - d. 17.11.2008). En hann gerði talsvert af myndum þar sem þekktir popp og rokktónlistarmenn koma við sögu.


David Bowie 14, hluti

Pinups 

PinupscoverEkki voru liðnar nema átta vikur frá því að Aladdine Sane settist á topp breska breiðskífulistans þar til Bowie var mættur í hljóðver á nýjan leik. Tilbúinn með um 15 lög til upptöku. Ekkert þeirra var þó eftir kappann sjálfan, heldur var ætlunin að gefa út skífu með nokkrum af uppáhalds lögum hans frá tímabilinu 1964 til 1967.

Elton John hafði mælt með Chateau d'Herouville hljóðverinu í Frakklandi við Bowie og sagt það hljómgott stúdíó. Þar afréð bowie að taka upp næstu plötu og þó svo The Spiders From Mars væru að nafninu til horfnir af tónleikasviðinu voru þeir kappar með Bowie í för. Reyndar með breytingum þó því trommarinn Mick Woodmansey sat eftir heima en í hans stað var það Aynsley Dunbar sem barði húðirnar.
En platan var sú síðasta sem Bowie hljóðritaði með þessari sveit manna og þá einnig sú síðasta sem  Ken Scott upptökustjóri vann að með Bowie. Þá má og nefna að í einu laga plötunnar Growin' Up má heyra í gítarleikaranum Ron Wood.

pinups33Á plötunni sem út kom í október 1973 og kallaðist Pinups má finna 12 lög. Meðal annars lög eftir Kinks, Who og Pink Floyd auk annarra lítt þekktra flytjanda. Flest eru lögin komin í nýja og ferska búninga á skífunni, sem Bowie útsetur upp á eigin spýtur. Þekktast er vafalaust lagið Sorrow sem hljómsveitin Merseys sendi frá sér á miðjum sjöunda áratugnum við fálátar undirtektir. En í meðförum Bowie fór lagið hinsvegar í 3. sætið á Englandi eftir að það kom út á smáskífu.
Þá má á skífunni heyra óð vinnuþrælsins, Friday On My Mind sem ástralska hljómsveitin Easybeats á heiðurinn af.
Meðal laga sem hljóðrituð voru en fengu ekki inn á plötuna má nefna lag Lou Reed, White Light White Heat. En Mick Ronson gítarleikari átti löngu síðar eftir að fá grunna þessa lags að láni, fullvinna þá fyrir sólóplötu sína Play Don't Worry.

Fyrirframpantanir uppá 150.000 eintökum plötunnar Pinups runnu vel út og var pöltunni vel tekið af áhangendum Bowie sem lengi á eftir ræddu sín á milli um að út kæmi önnur plata byggð á sömu forskrift. Vissulega var slík hugmynd einnig uppi á borðum hjá Bowie sjálfum sem síðar viðurkenndi að í augnablikinu hefði hann hreinlega ekki nægilegt efni úr að moða til að fylla upp aðra plötu og af þeim orsökum yrðu aðdáendur að bíða Pinups 2. um langan tíma og varir sú bið enn.

solobowie1Umslag plötunnar verður að telja nokkuð sögulegt. En myndina á umslaginu prýða súpermótelið Twiggy og Bowie. Upphaf þess að þau voru mynduð saman kemur frá Bea Miller ritstjóra Vogue í London, sem hafði fengið þá hugmynd að forsíðuna prýddi karlmaður og kona saman en slíkt hafði ekki gerst áður í sögu tímaritsins. Bea Miller fól ljósmyndaranum Juston De Villeneure, sem reyndar hét réttu nafni Nigel Davies, að annast myndatökurnar.  Hann  var kærasti Twiggy á þessum tíma og hennar helsti ljósmyndari. De Villeneure stakk upp á að hafa þau Twiggy og Bowie saman á myndinni. Hann hélt ásamt Twiggy til Parísar þar sem myndatökur fóru fram. Hefði allt gengið eftir hefði með þeim gjörningi David Bowie orðið fyrsti karlmaðurinn með konu sér við hlið til að prýða forsíðu  þessa sögufræga tískurits. Er Bowie sá afrakstur myndatökunnar fór hann þess á leit að fá að nota eina myndina framan á umslag plötunnar og var það að sjálfsögðu auðsótt mál. Voge notaði hinsvegar aldrei þessar myndir framan á blaðið en nokkru síðar byrtist mynd af þeim Ryan O’Neal og Marisa Berenson á forsíðu tímaritsins.


David Bowie 13. hluti

Aladdine Sane

david-bowie-aladdin-saneForveri næstu sólóplötu Bowie var smáskífan The Jean Genie sem út kom 24. nóvember 1972. Það skaut sér inn á breska vinsældalistann 9. desember og náði þar 2. sæti listans en á þeim lista sat lagið samtals í heilar 13 vikur. Enda er þarna á ferð hinn besti popprokk  smellur sem unnin er í anda þeirra Rolling Stones félaga Mick Jagger og Keith Ricgards. Lagið The Jean Genie hefur það alla tíð síðan verið talinn einn af eðalmolum breiðskífunnar.

Upprunalegur titill plötunnar Aladdine Sane var Love Aladdin Vein og síðar A Lad Insane sem á ástkæra ylhýra gæti útlagst sem klikkaður kauði. Bowie sjálfur hefur þó gefið út að fyrir sér sé heiti þessara plötu eiginlega  "Ziggy goes to America". Þessi túlkun hans er skiljanleg því nær allar lagasmíðar Aladdine Sane voru samdar á áðurnefndum Bandaríkjatúr Ziggy Stardust og opinberar platan þær tilfinningar sem börðust í brjósti Bowie er hann leit Vesturheim augum í fyrsta sinn. Tilfinningarnar voru blendnar svo ekki sé fastar að orði kveðið.

aladdin2David Bowie: Mín upplifun á Ameríku er að hvergi í veröldinni finnst fólk sem er í raun jafn einmanna og þar. Ég hef þá hræðilegu tilfinningu að meðal almennings ríki öryggisleysi og þörf fyrir mannlega hlýju því mikil, í sannleika sagt er þetta sorglegt, mjög sorglegt. Raunar er ástandið þar svo alvarlegt að margt fólk er hreinlega ómeðvitað um að það býr í Bandaríkjunum. Það heyrir aðeins um Bandaríkin. Það eru fáir Bandaríkjamenn sem gera sér það fyllilega ljós að þeir búi þar.

Á plötunni ber Bowie Bandaríkjamönnum ekki alltaf fallega söguna eins og lögin Cracked Actor og Watch That Man, bera með sér. Panic In Detroit sem telja verður í hópi betri laga plötunnar er samúðarsöngur Bowie. Tileinkaður John nokkrum Sincler, en sá afplánaði 10 ára fangelsi fyrir fíkniefnamisferli á árunum í kringum 1970. Hver þessi Sincler er verða menn að finna út sjálfir. Þess skal þó getið til glöggvunar að sá dularfulli náungi varð John Lennon líka hugleikinn á Some Time In New York City.

Heiti titillags plötunnar Aladdine Sane (1913-1938-197?) var sumum nokkur ráðgáta þó sér í lagi ártölin í nafni lagsins. En menn áttuðu sig þó fljótlega að hér er vísað til upphafsára tveggja heimsstyrjalda. og með þriðja ártalinu er sett spurning við hvenær sú þriðja muni svo hefjast. 

Aladdine Sane var fyrsta platan sem Bowie gerði sem stórstjarna og sem dæmi um það lágu fyrir forpantanir í 100.000 eintök þegar platan kom út í 13. apríl 1973 en slíkt hafði ekki gerst í breskri útgáfusögu síðan The Beatles voru og hétu.
Segja má að nú hafi Bowie heldur betur fengið að kenna á álaginu sem stórstjörnutitlinum fylgdi. Gagnrýnendur, hljómplötufyrirtæki kappans og aðdáendahópurinn sem nú fór ört stækkandi, kröfðust hágæða skífu sem ætti helst að taka Hunky Dory og Ziggy Stardust fram í gæðum.

David Bowie: Aladdine Sane er ein af fáum plötum mínum þar sem ég reyndi markvisst að semja sölulega tónlist sem voru auðvitað mikil mistök og nokkuð sem ég vil alls ekki gera.

Frágangur Aladdin Sane þótti heldur hroðvirknislegur, lögin mörg hver hálfmixuð og textarnir yfir höfðuð slappari en á tveimur undangengnum skífum. Því verður þó ekki neitað að platan inniheldur nokkur snilldarverk og miðað við almennan hljómplötumarkað eru gæði skífunnar hátt yfir meðallagi. Í það minnsta kunni breskur almenningur vel við gripinn og sat hann í efsta sæti breska breiðskífulistans svo vikum skipti.

ClaudiaLinnerÁ þessari plötu er til að mynda að finna lagið Lady Grinning Soul, er telja verður eitt fallegasta lag sem komið hefur úr smiðju David Bowie. Lagið ku vera samið sem lofsöngur um bandarísku blökkukonuna Claudia Lennear (sjá mynd), Sú hafði meðal annars unnið með Ike og Tinu Turner á sínum tíma, Þá hafði hún líka orðið Mick Jagger að yrkisefni í laginu Brown Sugar tveimur árum áður.

Tvö laga plötunnar voru gefin út á smáskífum, annarsvegar Drive In Saturday, sem fór í þriðja sæti breska vinsældalistans og hinsvegar Jean Gine, er hreppti annað sæti listans eins og áður segir en það var það besta sem nokkurt Bowie lag hafði gert á lista til þessa. Heiti lagsins Jean Genie, mun vera skrumskæling á nafni franska rithöfundarins Jean Genet, en fyrirmynd textans er að sögn Bowie, frumpönkarinn Iggy Popp, sem er einn fárra trúnaðarvina Bowie í hópi kollega.

Þann 3. júlí árið 1973 lauk hljómleikaferð Ziggy Stardust og The Spiders from Mars um hinn vestræna heim á hljómleikum í Hammersmith Odeon sem bæði voru hljóðritaðir og kvikmyndaðir.
Í lok hljómleikanna tilkynnti Bowie, áhorfendum til sárra vonbrigða að frá og með þessu kvöldi væri hann hættur öllu hljómleikahaldi og vildi þannig jarða félaga Ziggy Stardust í eitt skipti fyrir öll, enda sá góði gæi orðin skapara sínum óþægur ljár í þúfu.
Lagið sem fylgdi í kjölfar þessarar yfirlýsingar var Rock ‘n’ Roll Suicide, lag sem boðaði fall hetjunnar Ziggy Stardust og í kjölfarið endalok árangursríks samstarfs hans og hljómsveitarinnar The Spiders From Mars.

aladdin3David Bowie: Hvort sem þú trúir því eða ekki var það aldrei eiginleg ætlun mín að verða rokkstjarna. Ég hef haft hræðilega gaman af þessu og ástæðan að ég ákvað að fara í hljómleikaferð var sú að ég vildi flytja lögin í því andrúmslofti sem ég hafði samið þau í, sem mér fannst raunhæft fyrir þessi lög. Þetta var allt í lagi en svo kom að því að stoppa. Mér fannst ég ekki geta stígið á svið undir sömu formerkjum aftur, því ég er ekki hrifinn af því að endurtaka sjálfan mig.
Sjáum til, ég er búinn að fara til Ameríku tvisvar og ég hef ferðast um allt Bretland og Japan og ég kom að þeim tímapunkti að spyrja mig: Hver er tilgangurinn með að gera þetta allt aftur.?, Peningar?
Ég hef engar fjárhagsáhyggjur og ef ég er þreyttur á því sem ég er að gera yrði þess ekki langt að bíða að áhorfendur og heyrendur gerðu sér það ljóst einnig.

Næsta hluti verður byrtur 25. janúar


David Bowie 12. hluti

Rise and fall of Ziggy Stardust And the Spiders from Mars

ziggystardustalbumÞann 6 júní 1972 kom út sú plata sem skaut nafni David Bowie hæst á alþjóðlegan stjörnuhiminn rokktónlistarinnar. Sá gripur heitir fullu nafni Rise And Fall Of Ziggy Stardust And The Spiders From Mars sem í daglegu tali er kölluð Ziggy Stardust.
Guðinn var fæddur og Guðinn var Ziggy og Ziggy var Bowie var fyrirsögn blaðagreinar sem birti frétt um útgáfuna um þetta leiti. Þessi fyrirsögn var kannski ekki svo fjarri lagi, því platan Ziggy Stardust var hálfgildings rokkópera. Þar sem lög hennar tengjast í eina heildarsögu sem var nútímaleg hliðstæða dæmisögunar um Krist.
Ziggy Stardust er vera frá annarri plánetu sem kemur til jarðar í þeim tilgangi að frelsa mannkynið á örlagastundu. En í stað þess að flytja fjall-ræður og fremja kraftaverk velur Ziggy sér áhrifaríkasta miðil nútímans: rokkið, við að koma boðskap sínum til skila.
Saga Ziggy er rakin, leið hans til heimsfrægðar með hljómsveit sinni; Kóngulærnar Frá Mars, og hnignun hans er endar með mynd af söguhetjunni þar sem hún situr, niðurbrotin, svipt ljómanum í félagsskap síðasta aðdáendans.

En platan hafði annan boðskap til að bera. Því hún var einnig mögnuð lýsing Bowie á því listformi sem hann hafði valið sér, kostum en ekki síður þeirri spillingu sem þrífst innan rokkheimsins.
Ziggy Stardust er persónugervingur alls þess sem Bowie heillaðist af í rokktónlist og þó ekki sé hægt að benda á einhlíta fyrirmynd er ljóst að menn eins og Marc Bolan og Jim Hendrix eiga sinn hlut í persónunni.
Hitt er svo annað mál að Bowie varð Ziggy Stardust í hugum margra, ekki síst þeirra sem neituðu að viðurkenna fall hetjunnar.

Platan seldist í um 8000 eintökum strax fyrstu vikuna eftir að hún kom út og þá þegar ljóst að dæmið gengi. Þrátt fyrir að platan næði ekki nema fimmta sæti breska listans greip um sig hálfgert Ziggy Stardust æði eftir útkomu hennar og tónleikar þar sem verkið var flutt voru einhverjir þeir rómuðustu í sögu rokksins. Bowie kom þar fram í glitrandi gervi íklæddur hinum skrautlegustu búningum með skrautlegan andlitsfarða og æpandi oranslitað hár. Æskulýður Englands gerði sér far um að líkjast honum sem mest í útliti og tvífarar Ziggy Stardust urðu æ tíðari á götum Lundúnaborgar. En hvernig tilfinning ætli það hafi verið að hrinda af stað slíkri tískubylgju?

db72totpyouDavid Bowie: Í fyrstu var þetta nú bara til að auka sjálfstraustið, en svo fór gamanið að kárna og það varð hálf skelfilegt að lifa við þennan sæg af litlum eftirmyndum af sjálfum sér. Því þetta var orðið svo nálægt manni. Þetta fólk gróf upp heimilisfangið mitt og settist bara að í garðinum hjá mér. Þannig að garðurinn var orðinn hálffullur af fólki sem leit út eins og ég og þá varð mér nóg um. En ég hugsaði með mér að ég ætti nú nokkra sök á þessu sjálfur. Ég bjó jú til þessa bölvuðu ímynd og mátti því búast við þessum afleiðingum.

Aðeins verður að minnast á umslag þessarar sögufrægu plötu. Myndirnar sem prýða umslagið voru teknar í janúar 1972 á kaldri, rakri nóttu af ljósmyndaranum Brian Ward. Sem hafði stúdíó í Heddon Street  í London, en myndirnar voru teknar í þeirri götu. Við tökurnar var notuð Royal-X-Pan svart-hvít filma. Hönnun umslagsins og litsetning var síðar unnin af Terry Pastor sem þá starfaði fyrir fyrirtækið Main Artery, en það fyrirtækin var í eigu æskufélaga  Bowie; George Underwod, sem áður hefur verið minnst á .  Teknar voru samtals sautján myndir. Sjö þeirra þar sem Bowie var fyrir framan hús númer 23 á Heddon stræti (frá mismunandi sjónarhornum).  Fjórar myndir voru teknar af Bowie ýmsir inn í eða við símaklefa sem stóð við sömu götu (og var ein þeirra notuð á bakhlið umslagsins og sex myndir teknar annarstaðar í götunnni.

En aftur að gripnum sjálfum. Platan er talin til meistaraverk tónlistarsögunnar og sem dæmi um áhrif þessarar plötu hafa sérfróðir gjarnan bent á að söguþráður verðlaunamyndarinnar Close en Conting Of the Third Kind sé grunsamlega líkur texta lagsins Starman.

louandmottÞrátt fyrir að allt gengi nú á hinn besta veg og annir væru miklar við upptökur á Ziggy Stardust og tónleikaferðir í kjölfar þess gaf Bowie sér tíma til að rétta kollegum sínum gullislegna hjálparhönd. Hann tók að sér að stjórna upptökum á annarri sólóplötu átrúnaðargoðsins Lou Reed – Transformer sem varð langvinsælasta verk hans og inniheldur meðal annarra lögin Walkin On The Wild Side og Perfect Day. En bæði þessi lög teljast í dag til sígildra verka rokksögunnar.
Um sumarið (1973) reisti hann hljómsveitina Mott The Hoople upp frá dauðum og samdi fyrir hana lagið All The Young Dude sem varð ódauðlegt í flutningi sveitarinnar og er ennþá leikið í útvarpsstöðvum víða um heim.

Margir hafa í gegnum tíðina litið á fæðingu Ziggy Stardust sem upphaf þess að Bowie teldist fullskapaður tónlistarmaður. Þó verður það strax ljóst ef árin á undan eru skoðuð í kjölinn að það gerðist fyrr, jafnvel áður en Space Oddity kom út. Ekki þarf nema að skoða texta laganna á fyrstu LP plötunni til að skynja hve leitandi Bowie var og tilbúinn að fetja óhefðbundnar leiðir í þeim efnum. 
Texta og hugmyndafræðilega var Bowie fullmótaður, svo vel að tilurð Ziggy Stardust smellpassaði við hans fyrri verk.

tonydefraceSú dæmalausa velgengni sem Bowie átti að fagna á árinu 1972 gaf honum og samstarfsfólki hans tilefni til aukinnar bjartsýni, en aðeins eitt skyggði á. Það var samstarfsbrestur á milli Bowie og umboðsmannsins hans Tony Defrees er verið hafði umboðsmaður Bowie frá 1969. Tony þessi makaði krókinn hvað hann gat á kostnað Bowie sem varð að sjá á eftir háum fjárfúlgum í vasa þessa ótrygglynda félaga. Að aflokinni þeysireið Bowie og sveitar hans um stórborgir Bandaríkjanna var Defrees sparkað en síðasta kveðja til handa skunkinum gat kannski að líta í nafni næstu LP plötu: Aladdine Sane. En samningar þeirra á milli voru Bowie áhyggjuefni og fjárhagsleg byrði allt fram til ársins 1983.


David Bowie 11. hluti

Hunky Dory 

HunkyDory1971Næsta verk Bowie kom á markað 17. desember 1971 og kallaðist Hunky Dory er íslenska má sem Í góðu lagi.  Þetta var fjórða sólóbreiðskífa hans en jafnframt sú fyrsta sem hann vann undir merkjum RCA útgáfunnar. Reyndar hafði Bowie hafið upptökur plötunnar í Trident hljóðverinu í London í apríl 1971. Eftir að fulltrúar RCA höfðu heyrt prufuupptökur af plötunni var undirritaður samningu í september eins og áður hefur komið fram.

Meðreiðarsveinar Bowie voru áfram þeir Mick Ronson og Woody Woodmansey en höfðu nú fengið til liðs við sig Trevor Bolder í stað Tony Visconti sem tók sér tímabundið leyfi. Ásamt Ken Scott hljóðmanni sem var upptökustjóri í stað Visconti. Honky Dory er öðrum þræði óður Bowie til New York borgar og er með einum eða öðrum hætti vísað til fjögurra fulltrúa nútíma listsköpunar: Frank Sinatra, Lou Reed, Andy Warhol og Bob Dylan en tveir þeir síðarnefndu eru bein viðfangsefni í textum plötunnar.

En Bowie gerir meira á þessari plötu en að líta um öxl á hetjur gærdagsins. Lagið Oh you Pretty Thinks er enn ein framtíðarsýn Bowie þar sem boðað er fall nútímamannsins. Enginn bölsýnistónn er þó í laginu, því það sem morgundagurinn ber í skauti sér er þvert á móti, nýr og betri heimur þar sem æska nútímans tekur höndum saman við framandi verur utan úr geimnum. Homo Sapiens víkur úr vegi fyrir Homo Superior – eða Ofurmenninu.

Hunky Dory er stórum léttari en The Man Who Sold The World og kemur það til að laglínur eru auðgrípanlegri auk þess sem yfirbragð útsetninga er fágaðra. Þá fer ekki á milli mála að ferskleikinn er meiri en áður var. Enda var Bowie löngu kominn yfir það stig að vera endurómur áhrifavalda sinna og til dæmis er stæling hans í söngnum á Anthony Newley ekki lengur sú sem verið hafði. En Bowie hafði í upphafi ferilsins tekið stíl þess söngvara svo föstum tökum að vart mátti á milli manna heyra hvor þeirra væri að syngja.

Lagið Life On Mars, er einkennandi fyrir þessar breyttu áherslur á tónlist Bowie þar sem gítarleikur og strengjaútsetningar Mick Ronsons ásamt smekklegum píanóleik Rick Wakeman skapa hárrétta umgjörð frábærrar laglínu. Sögusviðið er glundroði stórborgarlífsins og örvænting söguhetjunnar er alger þegar hún reynir árangurslaust að flýja firrta tilveru sína, hún er jafnvel til í að ganga svo langt að setjast að á annarri plánetu ef því er að skipta.

0uqvxl.jpgSá stíll sem notaður var við hönnun myndaalbúmsins á Hunky Dory er sóttir í myndabók um Marlene Dietrich. En sagan segir að Bowie hafi mætt með bókina í myndatökur fyrir plötualbúmið.

Platan Hunky Dory seldist fremur hægt í byrjun en hálfu ári eftir útkomu tók hún á rás upp breska vinsældalistann og hafnaði loks í þriðja sæti. Vinsæl lög eins og Changes og Life On Mars hafa haldið nafni skífunnar á lofti í gegnum árin Þá má finna á skífunni lag sem lítt hefur verið spilað á útvarpsstöðvum en engu að síður er þar eitt magnaðasta verk plötunnar, þetta er lagið The Bewlay Brother. Lagið olli sagnfræðingum miklum vangaveltum lengi vel því textinn þótti einn sá tornæmasti sem Bowie hafði samið. Sumir sögðu hann fjalla einfaldlega um samband Bowie og bróður hans Terry, aðrir töldu hann lýsa eiturlyfjaneyslu og enn aðrir þóttust sjá tilvísun í forn goð er einnig komu við sögu á The Man Who Sold The World. Sjálfur hafði Bowie lítið vilja upplýsa um merkingu textans og leyndardómur Bewlay bræðra er því enn í dag að mestu óupplýstur, þó svo söguskýrendur hafi verið að opinbera meiningar textans í riti og ræðum eru þær skýringar gerðar út frá eigin skynjun.

imagesCAEYDSZUBowie var nú að mestu búin að skapa sér heilsteypta ímynd öfgakennds afsprengris tölvualdar sem leit framtíð mannkyns heimspekilegum efasemdar augum. Órjúfanlegur hluti þessarar ímyndar var auk þess tvíræð afstaða Bowie til kynferðismála en í upphafi árs 1972 var kynhneigð Bowie mjög til umræðu í bresku popppressunni. Þessi umræða kom reyndar í kjölfar viðtals við Bowie við tímaritið Melody Maker 22. janúar 1972., þar sem hann henti þeirri fullyrðingu fram að hann væri tvíkynhneigður og hefði ávalt verið það. Síðar þótti sýnt og sannað að þessi framsetning hans hafði fyrst og fremst verið gerð í auglýsingarskyni, þó hún ætti sér nokkra stoð í raunveruleikanum. Í fullu samræmi við allt þetta allt voru sögupersónur í lögum Bowie jafnan ansi óvenjulegar, gjarnan ójarðnesk fyrirbæri, gestir í okkar skrýtnu veröld. Bowie var síðar spurður hvort hann væri niðursokkinn í fríkað fólk og furðuleg fyrirbæri.

tumblr_ld709fd6CA1qc7qvfo1_500David Bowie: Ég veit nú ekki hvort það er svo djúpstætt, en ég hef vissulega áhuga á fólki sem leggur eitthvað undir og sker sig úr fjöldanum. Ég held að þetta sé arfleið frá þeim tíma sem ég var að fást við myndlist. Ég málaði oftast fólk sem var ýmist á einhvern hátt spillt eða brenglað. Ég hef engan áhuga á að mála eða semja lög um venjulegt fólk, undir hversdagslegum kringumstæðum, það er til nóg af liði sem fæst við slíkt.

Platan Hunky Dory hefur alla tíð verið hampað sem einu af meistaraverkum Bowie, og reyndar talin meðal áhrifavalda í tónlistarsögunni sem slíkrar.
Til marks um það  má nefna að tónlistatímaritið Q valdi Hunky Dory í 43. sæti yfir bestu plötur allra tíma árið 1988. Og árið 2000 gerði sama tímarit enn betur og valdi hana í 16 sæti yfir 100 bestu plötur Bretlands. Hunky Dory hefur hlotið ámóta kosningar fleirri tímarita og fagaðila í gegnum tíðina. Tónlistasérfræðingar hvort heldur er lærðir eða leikmenn hafa talið plötuna hafa haft áhrif á tónlistarsöguna.

Efnalegur hagur Bowie fór nú að vænkast og hann tók nú að narta í ávexti frægðarinnar. Gisti á lúxushótelum, svolgraði kampavín og ók um á glæsikerrum. En gljálífið var ekki markmiðið í sjálfu sér heldur hugmyndalegur grunnur að fæðingu næstu sögupersónu Bowie og jafnframt þeirrar frægustu – Ziggy Stardust.


David Bowie 10. hluti

The Man Who Sold The World

tmwstwBowie hafði nú fengið til liðs við sig hóp vaskra sveina og héldu þeir í febrúar mánuði 1970 tónleika undir nafninu The Hype. Þessir piltar voru Tony Visconti bassaplokkari, Mick Ronson gítarleikari  og trymbillinn Woody Woddmansey, allt menn sem komu mikið við sögu Bowie upp frá þessu. The Hype gufaði fljótlega upp sem slík en meðlimir sveitarinnar voru Bowie innan handar við gerð næstu plötu, The Man Who Sold The World. Þessi plata þótti stórum betri en Space Oddity. Tónlistin mun frumlegri og rokkaðri og útsetningar Viscontis hrárri en jafnframt árangursríkari. Þar sem áður höfðu verið áhrif frá, meðal annars Bob Dylan og þjóðlagatónlist mátti nú heyra óm frá Jim Hendrix, John Lennon og T-Rex. Það sem gerði þó gæfumuninn var að Bowie var óðum að skapa sér eigin stíl sem gerði allan samanburð léttvægan. Lagið All The Madman tileinkaði Bowie bróður sínum Terry sem var lokaður inn á Cabe Hill geðveikrahælinu um þessar mundir. Bowie bregður þar upp kaldranalegri mynd af þjóðfélagi þar sem skynsemin hefur endanlega lotið í lægra haldi. Boðskapurinn dylst engum, jafnvel þótt Bowie komist að þeirri róttæku niðurstöðu að síðustu mennirnir með viti séu einmitt þeir sem gista geðveikrahælin.

thwstw_2albumThe Man Who Sold The World sem lífdaga leit í nóvember 1970 (í Bandanríkjunum) og apríl 1971 í Bretlandi opinberar sýn Bowie á raunveruleikann sem er mjög dökk og jafnvel vonleysisleg. Sögupersónurnar eru launmorðingjar, vitfirringar, undarlegir dulspekingar og skeytingarlaus ofurmenni. Sögusviðið er til dæmis mannfjandsamleg tölvuveröld eða kuldalegar kringumstæður uppgjafahermanna. Titillagið hefur þótt eitt það besta á plötunni, laglína þess sterk og grípandi og textinn saminn undir áhrifum H.B. Lovecraft, höfundi vísindaskáldsagna er flestar ganga út á að jörðin hafi eitt sinn verið byggð annars konar mannverum sem beittu svartagaldri og voru því flæmdar burt af jörðu, af æðri máttarvöldum. Þessar verur lifa hinsvegar góðu lífi út í geimnum, reiðubúnar að endurheimta jörðina hvenær sem færi gefst.

Fleirri en Bowie hafa gert þessu lagi skil. með fínum árangri. Bowie lánaði vinkonu sinni Lulu lagið á smáskífu árið 1974, og lagði þar hönd á plóg við útsetningu og upptökustjórnun, Lulu kom söngnum í þriðja sæti Breska listans og þá má segja að lagið hafi gengið í endurnýjun lífdaga þegar Neervana gaf það út á Unplugged plötu sinni löngu síðar.

Ekki er hægt annað en skoða umslög þessarar plötu aðeins. Platan sem kom fyrst út í Bandaríkjunum, enda Bowie með samning við þarlent útgáfufyrirtæki, skartaði teikningu og var það vinur Bowie; Michael John Weller, Breskur teiknari sem þá starfaði vestanhafs sem á heiðurinn af umslaginu. Þegar platan var gefin út í Bretlandi nokkru síðar var önnur hönnun á umslaginu og þar vakti fatnaður kappans talsverða athygli og var þar talað um að Bowie væri íklæddur kjól. Aðspurður um þetta sagði Bowie að kona sín hafði gefið sér þetta dress og hún svarað því til að ef menn vildu kalla þetta kjól væri þetta karlmannskjóll, Þessi útgáfa plötunnar hefur síðan verið kallað “man's dress útgáfan” Þessu til viðbótar vildi Angelia, kona Bowie meina að nú væru breyttir tímar og menn ættu ekki að viðhalda þeim kynjamun sem viðgengist hafði áður. Hvort heldur væri í fatnaði eða öðru, Það væri ekkert að því að menn gengju í karlmanns-kjól eða man's dress.

Þann 9. september 1971 undirritaði Bowie útgáfusamning við RCA útgáfuna í New York og samkvæmt því fengi Bowie 37,500 dollara fyrir næstu þrjár plötur. Nokkrum mánuðum síðar keypti RCA svo útgáfurétt platna sem komið höfðu út á merkjum Mercury / Philips útgáfunnar. Það er frá og með plötunni Space Oddity. Snemma árs 1972 var platan The Man Who Sold The World svo endurútgefin og með nýrri og samræmdri umslagahönnun

(Athugaemd: Til gamans má geta að Bowie hitti Mick Ronson fyrst 3. febrúar og fékk hann til að spila með sér í upptökum fyrir BBC nokkrum dögum síðar).


David Bowie 9. hluti

 Man Of Word Man Of Music - Space Oddity

David-Bowie-Man-Of-Wordsman-O-145747Þremur mánuðum eftir útkomu Space Oddity gaf Bowie út breiðskífu sem upphaflega kom út í Bandaríkjunum undir heitinu Man Of Words Man Of Music en í Bretlandi bar hún einfaldlega nafn flytjandans, en var síðar skírð eftir smellnum Space Oddity er hún var endurútgefin árið 1972.

Platan var nokkuð sundurlaus, einskonar bræðingur gamals og nýs tíma og jafnframt vitnisburður um leit Bowie að persónulegum stíl. Til marks um þetta er til að mynda annarsvegar lagið God Knows I’m Good, sem minnir talsvert á fyrri verk hans og hinsvegar lag sem áður hafði komið út á bakhlið smáskífunnar Space Oddity, The Wild Eyed Boy From Freecloud, þar sem Bowie lætur þá skoðun sína í ljós að trygglyndi fái maður borgað. Texti lagsins segir í stuttu máli frá pilti nokkrum sem gerist sekur um það eitt að elska fjöllin fyrir ofan þorpið sitt. Íbúar þorpsins telja pilt svo bilaðan á geði að hann verði að aflífa með hengingu til að kom í veg fyrir útbreiðslu slíkra tilfinninga. En fjöllin vernda piltinn og eyða þorpinu.

UK útgáfurUnwashed And Somewhat Slightly Dezed, sem þýða mætti á íslensku sem „Gróf og svolítil smávægileg röskun”, en Bowie segir innihald textans lýsingu á því hvernig sér hafi liðið í kjölfar þess að faðir hans, John Jones lést.

Þjóðalagakeimurinn er enn áberandi í nokkrum laga plötunnar og yfirbragðið er mjög hófstillt, ekki síst vegna silkimjúkra en lítt frumlegra útsetninga. Tvö lög standa þó upp úr auk Space Oddity. Annað þeirra er Cygnet Committee; saga um ofurmenni á niðurleið en þeim þema fylgdi Bowie næstu árin. Þriðja lagið var svo Memory Of Free Festival sem er hreinræktuð afurð hippatímans.
Woodstock hátíðin var nýlega yfirstaðin og margir töldu hana uppsprettu texta Bowie, en svo var þó ekki. Því lagið vísaði til tónlistarhátíðar er Bowie skipulagði í tengslum við Beckenham Arts Labs, fyrrnefnt listagallerí í Suður London sem Bowie hafði sett á stofn.

Bowie kom fram á tónleikum með hljómsveitunum Humple Pie, Hermann Hermits og Troogs í tengslum við útgáfu breiðskífunnar en þrátt fyrir það og vinsældir lagsins Space Oddity fékk platan slæmar viðtökur gagnrýnenda sem og hins almenna borgara. Bowie varð fyrir miklum vonbrigðum og hugðist um tíma snúa sér alfarið að starfsemi fyrrnefnds gallerís þar sem hann vann að samruna leiklistar og tónlistar. Eftir miklar fortölur tókst umboðsmönnum hans þó að telja í hann kjark til frekari fórna fyrir tónlistargyðjuna.

AngeliaAndZowieÞann 20. mars 1970 giftist Bowie bandarískri fyrirsætu, Mary Angelia Barnett sem hann hafði kynnst á fréttamannafundi árinu áður þar sem verið var að kynna hljómsveitina King Crimson. Hú hafði Rúmlega ári síðar fæddist þeim hjónum sonur og var hann af makalausri hugmyndaauðgi skýrður Duncan Zowie Haywood Jones.
En Angela átti eftir að eiga sinn þátt í mótun Bowie næstu árin, Þó ekki hvað sjálfa tónlistina sjálfa, heldur fyrst og fremst útlitslega séð. Þó má greina í nokkrum laga hans síðar að stormasamt hjónaband þeirra hafi á stundum reynt á þorlimæðina, enda öllum gildur hjónabandsins kastað fyrir borð í endalausum augnablikum við að upplifa það frelsi sem þessi tími bar með sér og ekki síst innan rokkheimsins. Þar var ekkert heilagt og tími tilrauna í eiturlyfjum og kynlífi á hraðferð augnabliksins þar sem ekkert var heilagt og öllum gildum fyrri kynslóða var kastað á eld fortíðarinnar. Enn og aftur sannaðist þar kenningin hvað best "að byltingin étur oftast börnin sín"

FRAMHALD SÍÐAR...


David Bowie 8. hluti

Space Oddity

SpaceOddityDavid Bowie hafði nú starfað í ein sex ár sem tónlistarmaður með hliðarsporum í kvikmynda og látbragðsleik, hann hafði starfað með einum sjö sveitum, og að baki lágu í bunkum 10 fáseldir smáskífutitlar auk einnar breiðskífu og útrunnir eða riftir útgáfusamningar við ein fjögur plötufyrirtæki. Með sinn annan umboðsmann á ferlinum gilti það einu hversu víða hann reyndi fyrir sér innan raða mannlegrar listsköpunar, viðtökurnar voru alltaf jafn fálátar.

Það sá þó fyrir endann á þessum mögru árum því þann 20. júní 1969 náði Bowie samningi við Mercury – Philips útgáfuna og þann 11. júlí sama ár kom á markað smáskífa með því lagi sem kom David Bowie loks á framfæri - Space Oddity.
Saga þessa lags er um margt merkileg. Bowie sem var að undirbúa og velja efni á breiðskífu ætlaði laginu að fara inn en upptökustjórinn Tony Visconti líkaði ekki lagið.

viscontiTony Visconti: Space Oddity hafði verið hljóðritað fyrir myndina Lover You Till Tuesday en ekki gefið út á þessum tíma. Ég man þegar ég heyrði lagið fyrst. Við vorum að setja saman plötu, blandaða af léttu rokki og trúbador. Þar á meðal lög eins og Janine, Unwashed And Slightly Dazed ásamt fleiri lögum. Nú, ég þekki David, hann er mjög sannfærandi, allar breytingar hans eru mjög ekta, eins melódíurnar. Space Oddity, lag um mann sem lendir á tunglinu. Sem ég, að ég held, hefði kvatt hann til að semja um, engin spurning um það. ‘Here am I sitting in a tin can’ hljómar næstum eins og Simon And Garfunkel plata en rest lagsins eins og frá allt öðru. Í dag væri viðhorf mitt sennilega opnara og ég segði: ‘Vel gert David’. En í þá daga var mér sama, ég gerði einungis það sem mér fannst rétt. Gus Dudgeon sem unnið hafði með mér áður í nokkrum Deram upptökum hafði sagt að hann vildi vinna með David. Svo hér var tækifærið og ég kom þeim saman.

Gus DudgeonGus Dudgeon: „Ég sat á skrifstofunni minn þegar innanhússíminn hringdi. Það var Tony Visconti sem hafði skrifstofu ofar í húsinu: - Ég er hér með gamlan vin þinn hérna hjá mér, David Bowie,’ sagði hann, ‘Við erum að tala um að gera albúm saman en hann er með lag sem mér líkar ekki, en þér gæti líkað það. Viltu heyra það.’
- Auðvitað, svaraði ég. Bowie kom síðan niður og setti demóupptökuna í tækið mitt og lagið hreinlega feykti sokkunum af mér. Ég hringdi í Tony til baka og sagði: - Þér getur ekki verið alvara með að vilja ekki hljóðrita þetta lag. - Mér líkar það bara ekki, svaraði hann.

Því varð úr að Gus Dudgeon stjórnaði upptökum fyrsta lagsins sem gerði David Bowie ódauðlegan í Breskri rokksögu. Tony Visconti er hinsvegar enn sömu skoðunar varðandi þennan fyrsta smell David Bowie.

Lagið Space Oddity var samið undir sterkum áhrifum frá kvikmynd Stanley Kubrick, 2001 A Space Oddessey En innblástur handritsins hafði höfundur myndarinnar fengið eftir lestur bókar Arthur C. Clarke, The Sentinel. Lagið Space Oddity var reyndar síðar notað sem kynningarlag breska sjónvarpsins um þann sögulega atburð er maðurinn steig fyrst fæti á tunglið. En Space Oddity er fjarri því að vera óður til ævintýramennsku eða tækniþróunar mannskepnunnar.
Megininntak textans er firring í sinni tærustu mynd. Geimfarinn Major Tom lendir á tunglinu, en uppgötvar mitt í auðninni að hann hefur enga löngun til að snúa aftur til jarðar. Lagið vakti mikla athygli í Bretlandi og náði fimmta sæti vinsældalistans. Lagið er enn í dag eitt af merkustu verkum Bowie og langlífi þess má merkja af því að heilum sex árum eftir útkomu rauk það skyndilega upp breska listann og færði Bowie hans fyrsta topplag þar í landi.

David Bowie: Ég leit á Major Tom sem mann er hélt að hann væri ósköp venjulegur náungi en lenti í vægast sagt óvenjulegum kringumstæðum sem hann réði ekki fram úr og ollu því að hann ákvað að segja endanlega skilið við eigin plánetu. Þetta er innihald textans og frá mínum bæjardyrum séð var það hans eigin ákvörðun að snúa ekki aftur til jarðar, ekki einhver bilun í tækjabúnaði.


David Bowie 7. hluti

David Bowie (1967)

Bowie-davidbowieÍ apríl 1967 var útgefin annar undanfari fyrstu breiðskífu David Bowie og var þar á ferðinni hin undarlega lagasmíð Laughing Gnome. Lagið sem frekar er í ætt við Harald og Skríplana en David Bowie fékk hræðilega útreið í dómum poppskríbenta. Þó virtist almenningi  falla það betur í geð þar sem söngurinn seldist það í 250.000 eintökum er skífan var endurútgefinn árið 1973 og komst þá í fjórða sæti breska vinsældalistans.
Lagið á B-hlið skífunnar var The Gospel According To Tony Day. Hvorugt þessara laga var þó að finna á breiðskífunni sjálfri er hún kom út 2. júní 1967. Og má þess geta í framhjáhlaupi að þann sama dag sendu Bítlarnir frá sér plötuna Sgt. Pepper’s Lonely Hearts Club Band.

Eitt af því sem telja verður sérstakt við þessa fyrstu sólóbreiðskífu Bowie er að með útgáfu hennar varð hann fyrstur breskra poppara til að fá útgefna breiðskífu án þess að hafa átt lag á topp 10 vinsældalistanum breska áður.
En slíkt var í þá daga talið frumskilyrði þess að fá útgefna LP plötu. Platan sem einfaldlega hét David Bowie innihélt tólf misjafnar lagasmíðar, allar eftir hann sjálfan og vekur athygli hve margar þeirra vísa beint til æskuára kappans.
Lög eins og When I Live My Dream, There Is A Happy Land og Come And Buy My Toys opinbera öll vissan söknuð eftir hamingjusamri barnsæsku sem hann aldrei fékk notið.

Á þessum árum urðu til nokkrar upptökur með Bowie sem ekki höfðu fengið inni á plötum, eins og oft vill verða. Ein fjögur slík lög voru síðar valin á safnplötuna The World of David Bowie sem kom út árið 1970. Tvö þessara laga þykja standa upp út; Let Me Sleep Beside You og Karma Man.  Fyrrnefnda lagið er um konu á miðjum aldri sem leitar í angist sinni ástar og tilbúin að þiggja hana hvaðan sem er. Síðara lagið opinberaði áhuga Bowie á Búddatrú. Skömmu eftir útkomu sóló breiðskífunnar var eins og Bowie yrði afhuga tónlistinni því næsta eina og hálfa árinu eyddi hann í ýmis áhugamál sem lítt tengdust tónlist.
Hann eyddi til að mynda nokkrum vikum í búddaklaustri í Skotlandi, hann málaði mikið og setti reyndar upp eigið listagallerí í Kent, þar sem hann hugðist blanda saman hinum ýmsu ólíku listformum, hann lék í ódýrum íspinnaauglýsingum og síðast en ekki síst lærði hann látbragðsleik og dans hjá hinum þekkta Lindsey Kemp.
Reyndar náði Bowie nokkurri færni í látbragðsleik og hélt hann sýningar í nokkrum stórborgum Englands.

FeathersFljótlega eftir að Bowie hóf að stunda látbragðsleik kynntist hann stúlku að nafni Hermione Farthingale og saman í félagi við John Hutchinson mynduðu þau fjöllistahópinn Feathers. Reyndar kallaði hópurinn sig í upphafi Turquoise og tók það nafn af verkinu Pierrot in Turquoise sem samið hafði verið af læriföðurnum Lindsey Kemp. Hópurinn skipti þó nafninu fljótlega út og nefndi sig Feathers eins og áður segir.

Síðla árs lék Bowie ásamt Feathers í kvikmynd Kenneth Pitt; Love You Till Tuesday, en fyrir þá mynd samdi hann einmitt meistaraverkið Space Oddity og var demo hljóðritun gerð fyrir myndina þann 2. febrúar 1969. Í þeirri útgáfu lagsins syngur John Hutchinson aðalrödd. Myndin var ætlað að sýna hæfileika Bowie á hinum ýmsu ólíku sviðum lista en ráðamenn BBC, sem annars leist vel á ræmuna, töldu af og frá að taka hana til sýningar þar sem aðalleikarinn væri svo til óþekktur. Þessi undarlega afstaða var þess valdandi að myndin lá ósýnd í rúm þrettán ár uns hún fékk uppreisn æru og var gefin út á myndbandi fyrir almennan markað.

Bowie sem gert hafði ákveðnar væntingar og áætlanir varðandi samstarf sitt við John Hutchinson varð fyrir miklum vonbrigðum þegar Hutchinson ákvað að yfirgefa hópinn aðeins fáum dögum eftir að tökum á myndinni lauk, enda lítil innkoma fyrir óþekktan fjöllistahóp sem varð að vinna alla forvinnu og berjast fyrir svo til hverri uppákomu sem þeir nældu í. Ekki verður hjá því komist að taka undir Bowie-miniþær kenningar sem virðast liggja ljósar fyrir að samband Bowie við Lindsey Kemp hafi átt stóran þátt í mótun stíls og hugmyndafræði sem síðar átti eftir að gera nafn Bowie ódauðlegt í sögu breskrar rokktónlistar.

Í febrúar 1969 hóf söngvarinn Mark Bolan og hljómsveit hans T-Rex hljómleikaferð um Bretland þar sem Bowie kom fram sem upphitunarnúmer. Ekki var hann þó mættur til að þenja raddböndin, framlag hans fólst í eins manns látbragðsleik, við dræmar undirtektir áhorfenda, er sagði torskylda sögu Budda munks nokkurs frá Tíbet.

FRAMHALD SÍÐAR....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband