Færsluflokkur: Spaugilegt

Áramótin 2020 Hvar er Sigga

Ég hef tekið eftir því að heilinn á mér er stundum ofvirkur í einrúmi. En innan um fólk virðist tunga mín hins vegar taka öll völd og heilinn hættir þá jafnvel allri eðlilegri starfsemi. Sem þykir víst ekki gott. Eða svo segja þeir sem segjast hafa vit á því, sem mér finnst þegar ég athuga það betur furðumargir svona miðað við hve fámenn þessi þjóð er.

 

En aftur að ofvirkni heilans sem býr til allskonar hugdettur þegar honum sýnist svo, jafnvel án þess að spyrja mig þó ekki væri nema bara hvort mér líki hugmyndin eða ekki.

Nei hann veður bara áfram í ofvirkni sinni með allskonar birtingarmyndir, hugdettur og orðaleiki eins og hann eigi sitt eigið líf óháð öllum kröfum um vönduð vinnubrögð.
Þetta getur verið frekar vont hjá manni sem er að reyna að þjálfa sig í að gera sem minnst frá einni stund til þeirrar næstu. Og ég biði ekki í væri ég svo haldin einhverri fullkomnunaráráttu sem ég er auðvitað ekki eins og þeir vita fullkomlega sem til mín þekkja.

 

Þegar Áramót nálgast eins og öll ókomin áramót gera, þá vekja þau upp allskonar hugsanir þrátt fyrir að áramót eru í raun lítið annað en sú staðreynd að einum sólarhring lýkur og annar tekur við.

Þó sjáum þau oftast eins og einhvern stórviðburð. Kannski er það lærð hegðun eða að því dagatalið okkar segir að þetta sé merkilegri dagaskipting en aðrar, Við verðum víst að skipta um dagatal á þessum degi.  Ég reyni hvað ég get að taka þessum áramótum af stórískri ró en þá heimtar heili minn að taka annan dans á þessu og vill óður og uppvægur líta yfir farin veg. Kanna stöðu mála hér og nú og taka einhverjar óskýrar ákvarðanir um hvert eigi að stefna í lífinu. Eins og það sé nú ekki þegar vitað hvar sú leið endar. og maður sem er að reyna að gera sem minnst vill fara stystu leiðina NEI

hér gerast undrin. Ég sem er alin upp við það í nútíma þjóðfélagi að fara ávalt stystu leiðina frá A til B í lífinu og spara bæði tíma og peninga með því vil nú skyndilega fara þá lengstu sem til er. Því nú er áfangastaðurinn ekki markmiðið heldur leiðin sem valin er þangað í þeirri von að maður nái bara helst aldrei á leiðarenda. Ósjálfrátt hugsa ég

„Ætli leiðin í lífinu sé eina leiðin sem við reynum að lengja hvað við getum?“

 

Svo er það hitt sem sækir á ofvirka huga minn á tímamótum eins og nú eru. Það er fólk. Stundum jafnvel hugsanir um fólk úr fortíðinni. Hvað hafi orðið um fólk sem komið hefur inn í líf mitt dvalið þar jafnvel langdvölum en svo fréttir maður ekkert meira af örlögum þess. Jú gott dæmi:

Hvar er til dæmis Sigga á borði 22 í Ísbirninum sem hætti í gær. Hvað fór hún að gera þegar hún hætti þar. Hvernig vegnaði henni og hennar fjölskyldu, eða var hún kannski ógift? Og maður fattar að þrátt fyrir að minnast á hana oft á ári og rifja upp þá staðreynd að hún hætti að vinna í Ísbirninum Mér þykir af einhverri ástæðu alltaf vænt um Siggu á borði 22. 

 

Nú svo getur maður spurt sig Hvernig reiddi fjölskyldu bankastjórans af.  Dóttirin sem var við nám í Frakklandi. Lauk hún námi og hvað svo? Sonurinn í New York er hann þar enn, kókaði hann kannski yfir sig og kom heim í meðferð?  Var fríið gott hjá frúnni þarna suðurfrá við klofháu sandhólana?. Ætli bankastjórinn sé kominn á eftirlaun? Og kannski mest um vert væri að vita; hvernig reiddi gleðikonunni af er hún enn við störf, eða var henni bjargað af Stigamótum þegar hún var búinn með aura bankastjórans? Já það eru ótal spurningar sem fortíðin svaraði aldrei og leita á hugann á áramótum. Er nema von að maður sé hálf ístöðulaus þegar maður lifir í svo mikilli óvissu um örlög fólks sem er manni næsta kærkomið.

En nú er heili minn að fara eitthvert annað og ég segi því bara Gleðilegt ár vinir.  

 


Bókhneigði glæpamaðurinn ég

bloggmynd1Stundum leitar hugurinn í æskuminningarnar og maður rifjar upp hetjurnar sem heilluðu mann fyrst Kannski var pabbi fyrsta hetjan í lífi mín. Allavega sagði mamma mér að hann hefði orðið að skríða framhjá vöggunni því ef ég sá hann orgaði ég og heimtaði að fara til hans. En eins og ungra barna er háttur óx það af mér og frekar fljótt.  Við tóku æskuhetjurnar sem ég held enn uppá rétt eins og Pabba sé út í það farið. Dýrlingurinn í sjónvarpinu sem horft var á heima hjá Siggu Sól eins og hún var kölluð meðal okkar krakkana. Með bíóferðunum kom Zorro og var líklega fyrstur á þeim vettvangi. Um sama leiti kom Tarzan líka til sögunnar. Við erum þá ekki að tala um einhvern Zorro eða einhvern Tarzan.  við erum að tala um ákveðna Zorro mynd og ákveðinn Tarzan.  Þessar hetjur voru á hvíta tjaldinu, Myndirnar sýnir í Austurbæjarbíói á sjöunda áratugnum.

  
Upp úr 10 ára aldri tóku svo bækurnar að tikka inn og þá byrjaði söfnunareðlið að koma í ljós og gott betur. Frank og Jói, Ævintýrabækurnar, Dulafullubækurnar, Fimmbækurnar, svo eitthvað sé nefnt. Minnir 11 ára þegar fyrsta Bob Moran bókin var opnuð og var eins og kjaftshögg Ég varð að eignast þær allar. Ég var einn vetur hafður á Skólaheimilinu á Tjarnargötunni. Valli hét strákur sem var þar líka og var snillingur af Guð náð við að stela. Hann var svo flinkur að enn í dag dáist ég af hugkvæmni hans við þessa vondu iðju. Ég borgaði honum fyrir að stela Bob Moran bókum eða öllu heldur keypti ég þær af honum,  líklega ódýrt en þó miklir peningar í okkar augum í þá daga.  Til að fjármagna þessar þjófaferðir Valla í Mál og Menningu og Eimundson stálum við vinirnir vindlum og sígarettum úr ráðherrabústaðnum við Tjarnargötuna. Þar voru haldnar veislur annan hvorn fimmtudag að mig minnir. Við völsuðum þá inn og það kjaftaði á mér hver tuska og hálf fullir þingmenn og ráðherrar höfðu gaman að þessum frakka strák sem hafði skoðanir á allt og öllu en á meðan laumuðu Hjörtur og fleiri félagar mínir sígarettum og vindlum úr boxum sem voru þar á öllum borðum í vasa sína og innan á skyrturnar. Svo var þetta selt í spilabúllu sem hét Rósin og var við Aðalstrætið. Það var ekki nóg með að Valli næði í þessa bókaröð fyrir mig heldur einnig fyrir Hjört sem þarna var með okkur á skólaheimilinu. Valli vinur minn safnaði líka lyklum. Veit ekki til hvers en það bar vel í veiði þegar ég ásamt Hirti brutum okkur leið inn í brunarústirnar í Glaumbæ og ég fann stóran kassa með lyklum og drasli Ég fékk átta Bob Moran bækur fyrir gossið Já bækurnar urðu 28 og Valli náði 27 bókum fyrir mig. Ég vældi síðustu bókina í jólagjöf frá Mömmu. Síðar bættust við safnið Tarzanbækur, Gustur, Lazzy, Síðar kom svo Alester McClane , Hammond Inners, Desmond Bagley og óteljandi aðrir höfundar. Þá var ég farinn að fá þær á öllu heiðarlegri hátt og var fastagestur í fornbókabúðum á Skólavörðustígnum, Hverfisgötunni, Laufásveginum og fleiri stöðum.

Ég var kominn vel yfir tvítugt þegar ég var að flytja og búið að taka allt úr bílnum nema 30 bókakassa með barna og unglingabókum ásamt spennubókunum. Ég horfði á staflann leit á bílstjórann og sagði „Nenni þessu ekki Þú mátt eiga þetta“. Hann þáði það með þökkum og gaf mér ríflegan afslátt af bílferðinni. Líklega fengið einhvern smáaura fyrir þetta hjá einhverjum fornbókasalanum.

Löngu síðar hefði ég gjarnan viljað eiga þetta. þó sumt af því hafi verið illa fengið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband