Færsluflokkur: Tónlist

David Bowie 34. hluti

Earthling

87745Bowie fagnaði 50 ára afmæli sínu á áttunda degi janúarmánaðar 1997, með einstökum hljómleikum í Madison Square Garden í New York þar sem auk fjölda listamanna voru mættir um 17.000 gestir til að fagna þessum tímamótum með meistaranum. Sama mánuð fékk almenningur smjörþefinn af næstu plötu með smáskífunni Little Wonder, sem reyndist einn helsti smellur næstu breiðskífu. 

Earthling var heiti skífunnar og harðir aðdáendur gátu keypt hana strax á útgáfudegi 4. febrúar. Með Bowie  á þessari plötu er sami mannskapur og verið hafði honum til aðstoðar í Outside hljómleikatúrnum. Titillinn einn og sér segir mikið til um efnistökuna. Ziggy Stardust er endanlega horfinn til sinna heima og jarðarbúinn verður að annast sig sjálfur. Örlög mannsins er vel þekkt.

Bowie er á þessari plötu staddur í nútímanum því tónlistarlega sýnir  Earthling eletróniska takta sem unnir eru undir áhrifum af þeim Industrial kúltúrs sem var ráðandi upp úr 1990.  En Industrial er einskonar iðnaðardeild tilraunatónlistarinnar sem margar af fremstu sveitum þessara ára voru þekktar fyrir. Svo sem Prodigy og fleiri slíka höfðu verið að fást við, með kryddi frá Seattle rokksveitum eins og Nervana og Pearl Jam.

Dead Man WalkingSvo er vel hægt að einfalda þetta, segja hana unna undir áhrifum  drum & bass, en um leið að hluta samblanda þeirrar áleitnu tónlistar sem Bowie var að skapa á áttunda áratugnum og þeirrar sem átti upp á pallborð sem áreitin jungle-tónlist undir lok tíunda áratugsins. Það er nefnilega ekki alltaf auðvelt að setja plötur Bowie á einhvern einn bás. Hann hefur einstakt lag á að taka stefnur og strauma, steypa þeim í pott sinn og hræra í, svo útkoman verður gjarna hálfruglingsleg þegar að flokkun hennar kemur. Það er því stundum auðveldara að fjalla um efnistökin, þau eru oft auðveldari viðfangs.

Eins og áður segir eru örlög mannsins vel kunn, Earthling er þó bjartsýnisplata, bjartsýnisplata um dauðann. "Dómsdagurinn getur farið til helvítis, Ég er ekki syndari. Þetta er bara regnið á undan storminum því dauðleikinn er ómfríanlegur. Mannskepnan hugar hvorki að upphafi sínu né endalokum" er meining Bowie á Earthling.

Platan var af mörgum talin eðlilegt framhald plötunnar Outside Án þess að bein tengsl séu þar á milli endileg. Tónlistarlega heldur nýsköpunin áfram. En lögin hér eru ekki tengd eins nánum böndum hvert við annað og á fyrri plötunni. 

Textalega má þó finna samtengingu, því þar halda örlög mannskepnunnar áfram. Jarðarbúinn sem áður lifði aðeins fyrir líðandi stund leitar nú í örvæntingu sinni að öllu því sem fyllt getur líf hans hamingju, hversu skammvinn sem hún kann að vera. Eiturlyfin eru þar með aftur komin til sögunnar og sem fyrr eru þau leiðin til glötunar.

Í beinu framhaldi af útgáfu plötunnar var hljómleikaferð haldið úti og flækst víða um Evrópu þar sem bæði nýir eða gamlir aðdáendur tóku honum fagnandi. Til aðstoðar í túrnum voru Reeves Gabrels og síðar Carlos Alomar á gítar Mike Garson á píanó og Zachary Alford á trommur og önnur ásláttarhljóðfæri. Við höfum aðeins áður minnst á bassaleikarann sem nú var gengin til liðs við Bowie, þeldökku þokkagyðjuna  Gail Ann Dorsey, og fanta bassaplokkari sem að auki söng bakraddir. Hún var nú farin að fá verulega athygli fjölmiðla. Aðspurð hvernig þetta samstarf hafi komið til svarar hún

Gail AnnGail Ann Dorsey:  Bowie einfaldlega hringdi í mig, þetta er svolítið klikkuð saga. Hann hreinlega hringdi einn daginn. Ég hafði engan fyrirvara eða neitt. Hann spurði hvort ég væri til í að verða hluti af Outside bandinu á tónleikaferð til að fylgja plötunni eftir. Ásamt hljómsveitinni Nine Inch Nails sem hitaði upp.
Það tók mig langan tíma einfaldlega þora að spyrja hann hvers vegna hann hafi valið mig.
Svarið var allt annað en ég hafði haldið og kom mér á óvart. Hann hafði séð mig í breska sjónvarpinu fyrir mörgum árum. Þegar ég var að kynna fyrstu sólóplötuna mína. Líklega 1988. Þá kom ég í fram í einhverri þáttaröð hjá BBC. Bowie sagðist hafa séð þetta þegar hann var á hótelherbergi í London og var eitthvað að flakka á milli sjónvarpsstöðva. Honum fannst áhugavert að kvennmaður væri bassaleikari og að gefa út plötu og gæti sungið. Hann ákvað þá að einhvern daginn myndi hann vilja vinna með mér þegar rétt tækifæri kæmi upp og það fannst honum þarna.

Ferðin sem þótti takast með ágætum lauk fyrri hluta nóvember í Suður-Ameríku, eða nánar tiltekið í Buenos Aires þann 7. nóvember. Það hlýtur að hafa lyft brúnum margra þegar Bowie var svo tilnefndur þetta árið  til Grammy verðlauna sem besti jaðartónlistarmaðurinn („best altemative album") og þá var hann einnig tilnefndur sem besti rokk-karlsöngvari fyrir lagið Dead Man Walking. velheppnuð tónlistarmyndbönd sem tengdust plötunni spruttu fram. Listamaðurinn og leikstjórinn Floria Sigismond stjórnaðu upptökum á stuttmyndum við lögin Little Wonder og einnig Dead Man Walking, Meðan félagar að nafni Dom og Nic leikstýrðu myndbroti við I'm Afraid of Americans sem síðar var tilnefnt til MTV vídeó tónlistarverðlaunanna. Og loks var einnig unnið myndskeið við lagið Seven Years og Tibet sem var skotið af tónleikum.

Þó svo ekki kæmi ný sólóplata frá Bowie á árinu 1998 var langt frá því að karl sæti auðum höndum. Því á milli tónleikaferðalaga lék hann smáhlutverk í nokkrum kvikmyndum og má þar benda á ítalskan vestra Mio West II auk myndana Everybody Love Sunchine og Exhuming Mr. Rich. þá gaf hann eftir nokkur laga sinna til kvikmynda eins og The Wedding Singer, Grosse Pointe Blank og Great Expectations. Þessu öllu til viðbótar mætti hann prúðbúinn á nokkrum góðgerðartónleikum. Sama ár stóð Bowie, fyrstur tónlistarmanna, að opnun eigin netsmiðils. Bowie-Net. Þar sem hann eyddi reglulega dágóðum tíma í að spjalla við aðdáendur sína, þeim til mikillar gleði. Bowie var einn fyrstur listamanna á sínu sviði til að nýta sér þennan miðil til listsköpunar. Þar sem hann setti upp málverkasýningu og sölu listaverka sinna, veitti áskrifendum möguleika á að kaupa ýmsar óútgefnar lagaupptökur svo fátt eitt sé nefnt.


David Bowie 32. hluti

Buddha Of Suburbia

David_Bowie_-_The_Buddha_Of_Suburbia_(Front)Platan Buddha Of Suburbia er í upphafi skilgreind sem “soundtrack”, plata sem í þessu tilfelli var gerð fyrir leikið sjónvarpsefni. Menn hafa einnig talið hana sem 19. sólóplötu Bowie. Og henni stillt upp á milli platnanna Black Tie White Noies og 1 Outside.

Tilvist hennar má rekja til þess er BBC2 ákvað að gera 4. þátta seríu er hlaut heitið Buddha Of Suburbia og byggð var á kvikmyndahandriti Hanif Kureishi í leikstjórn Rodger Mitchell. BBC óskaði eftir því við Bowie að hann legði fram tónlist sem nothæf væri fyrir þættina. Bowie brást vel við og fékk Erdal Kizilcay í lið með sér við að semja efnið, sem síðan var hljóðritað með David Richards við upptökutakkana. David hóaði líka í gamla hjálparhellu, píanópikkarann Mike Garson sem þó mætti ekki í Mountain hljóðverið í Sviss heldur bætti hann píanóleik sínum ofan í verkið heima í Californiu. 

Buddha Of Suburbia - sólólpataÞað tók Bowie aðeins sex daga að semja og hljóðrita efni plötunnar. En aftur á móti heila fimmtán daga að mixa lögin, ástæður þess munu hafa verið  tæknileg vandræði við þá vinnslu. Að sögn kunnugra skilaði Bowie BBC verkinu en í samningum milli aðila var tekið fram að platan yrði í upphafi  gefið út sem “Soundtrack” tímabunið en rétturinn flyttist síðar alfarið til Bowie. Eftir að það gerðist var platan endurútgefin 2008 og þá undir hans eigin nafni eins og um sólóplötu væri að ræða. Er þar komin skýring á tvöfaldri skilgreiningu plötunnar.

Tvö laga Buddha Of Suburbia má flokka sem ambient instrumental verk sem minna nokkuð mikið á samvinnutímabil Bowie og Brian Eno á Berlínarárunum seint á áttunda áratugnum. Önnur lög plötunnar eru að mestu borin uppi af sterkri notkun saxófóna, rafmagns hljómborðs og píanóleiks. Aðeins titillagið var þó notað við gerð áðurnefndra þáttaröð BBC.

Upprunalega kom þessi plata út 8. nóvember 1993 og er í raun hið áheyrilegasta verk.
Í raun markar platan þáttaskil á ferli Bowie. Hann hefur nú sagt skilið við dansvæna takta Let’s Dance og Tonight, gamla rokkfrasa Tin Machine svo eitthvað sé nefnt. Þess í stað  leitar Bowie nú aftur til tilraunakenndrar listsköpunar og hljómar sáttari við sjálfan sig tónlistarlega en um nokkurn tíma. Sjálfur hefur Bowie nefnt þessa plötu sem eina að sínum uppáhaldsplötum á ferlinum og hefur látið í það skína í viðtölum að hún sé í raun stórlega vanmetin tónlistarlega. Ástæða þess sé kannski fyrst og fremst að hún hafi komið út sem tónlist við áðurnefnda sjónvarpsseríu en ekki hrein og klár sólóplata sem hún sé engu að síður.

Á þessari plötu getur líka að heyra hvað koma skyldi því lagið Stranger When We Meet, átt Bowie eftir að hljóðrita á nýjan leik fyrir næstu hljóðversplötu. Í lok plötunnar er titillagið leikið á ný og þar fær Bowie til liðs við sig Lenny Kravitz sem annast gítarleik af sinni alkunnu snilld. Því má svo bæta við að platan kom ekki út í Bandaríkjunum fyrr en eftir áramótin 1994.  

Santa Monica 72

Santa Monica 72Hér kemur smá hliðarstökk. Þar sem við höfum fram til þessa gert tónleikaplötum Bowie skil rétt eins og hljóðversplötunum skulum við stinga hér inn einni slíkri. Svo þessu sé öllu haldið til haga í tímaröð. Þann 25. september 1994 kom út plata sem lengi hafði verið til í ólöglegum útgáfum. Þetta voru einir rómuðustu hljómleikar á ferli Bowie. Hljómleikar Ziggy Stardust and the Spiders From Mars, frá 20. október 1972. Upptökurnar voru gerðar af FM Radio og útvarpað á sínum tíma. Upptökur af þessari útvörpun höfðu þá gengið manna á milli í misgóðum gæðum  meðal Bowie aðdáenda og því fannst mörgum þetta nokkur fengur. Þegar gripurinn svo loks barst almenningi í hendur gætti nokkurra vonbrigða með gripinn, því mörgum fannst að við hljóðvinnslu efnisins hafi átt sér stað of mikil hreinsun og sándið því ekki skila þeim hljóðum  sem menn höfðu upplifað á tónleikunum sjálfum.

Santa Monica 72 EMI 2008Því svo fór að gagnrýnendum, sumum hverjum að minnsta kosti, fannst nokkrar ólöglegu upptökurnar hafa upp á meiri gæði að bjóða og komast nær tónleikunum sjálfum en löglega platan. Einnig þóttu umbúðir plötunnar lítt unnar og allar upplýsingar og umfjallanir um efni plötunnar vanta. Þó svo ekki hafi verið nægilega vel gert hvað þessa útgáfu varðarði var efnið kærkomið í safnið.

Þess má svo geta svona til að halda söfnurunum við efnið að platan kom út með mismunandi mynd á framhlið eftir því hvar hún var gefin út og hvenær sem gerir það að verðugu verkefni fyrir aðdáendur að eignast allar útgáfurnar. Platan var fyrst gefin út í Evrópu, síðar Bandaríkjunum og síðar komust menn að gagnkvæmri niðurstöðu er varðaði umslagið þegar platan var endurútgefin af EMI árið 2008.


David Bowie 31. hluti

Black Tie White Noies

blacktieGifting Bowie og súperfyrirsætunnar Iman frá Sómalíu virðist hafa opnað flóðgáttir hugmynda og kveikt ljós sköpunar laga og texta svo úr varð fyrsta sólóplata Bowieí rúm fimm ár. Platan hlaut titilinn Black Tie White Noies og fékk hillupláss verslana í apríl 1993.

Fyrsta stuttskífan sem út kom, tengd henni var Jump They Say og færði hún Bowie hans fyrsta lag á vinsældarlista frá því að Absolute Beginners hafði setið þar. Texti lagsins á rætur að rekja til bróður Bowie, Terry, sem stytt hafði sér aldur um miðjan níunda áratuginn. Ekki voru allir jafn hressir með sönginn og fannst sem Bowie tæki niður með slíkri umfjöllun um dapurleg örlög bróður síns í þeim tilgangi einum að komast á vinsældarlista. Þó aðrir bentu á að full þörf væri á því að fá fólk til umhugsunar um örlög geðsjúkra því að megininnihald textans er ádeila á þá forræðishyggju sem viðhöfð er í málefnum þessara sjúklinga og bendir Bowie á hve oft þeir séu settir í þá aðstöðu að þeir fái engu ráðið um eign örlög þar sem öll rökrétt hugsun einstaklingsins til handa sjálfum sér sé fyrir borð borin.

Með heiti plötunnar Black Tie White Noies er þýða mætti sem svart bindi hvítur hávaði vill Bowie benda á að tónlist nútímans er sótt að svo til öllu leiti til svarta kynstofnsins og hann sjálfur sé engin undantekning og þeir hafi frá æsku hans haft meiri áhrif á hann en aðrir, menn eins og Little Richard hafi gefið honum löngunina til að verða tónlistarmaður. Grunnhugmyndin að titli plötunnar eru þó andstæðurnar sem í huga Bowie ættu að geta unað sér saman taki þær aðeins tillit til hvor annarrar og viðurkenni tilvist, þarfir og skoðanir hins. Enda fá andstæðurnar að njóta sín vel í lögum plötunnar. Sumir hafa bent á að heiti plötunnar sé framlag Bowie til eyðingu kynþáttafordóma.

Al B Sure and BowiePlatan Black Tie White Noies markar tímamót og er sögð upphaf þess að Bowie nálgast nútímarokktónlist á ný eftir að hafa leikið sér að dansvænni tónlist og slöku poppi sem plöturnar á undan hafi að geyma.  Á Black Tie White Noies gætir sterkra djassáhrifa þar sem spunanum er leyft að lifa í bland við poppað rokk.
Titillagið er án efa eitt af sterkari lögum plötunnar. Tilurð þess eru átökin sem brutust út í Los Angeles í kjölfar hrottalegrar aðferðar tveggja lögreglumanna við handtöku Rodney Glen King í byrjun marsmánaðar 1991 og var mikið fjallað um í heimspressunni, en Bowie og kona hans voru einmitt stödd í borginni þegar þau ósköpin áttu sér stað.

David Bowie: …Mér finnst dægurtónlistin ekki skapa nein ný gildi heldur endurspeglar hún ríkjandi gildi hverju sinni. Í mannréttindabaráttunni á sjöunda áratugnum hélt fólk fyrst að árangur mundi nást en því varð ljóst smá saman að hvíta millistéttin mundi aðeins samþykkja jafnrétti svertingja ef þeir yrðu hvítir. Það fór illa í baráttufólkið og nú er svo komið að svart fólk og Suður-Amerískt er ekki lengur kúgað, það er látið eins og það sé ekki til.
Við getum og eigum að vera jákvæð, þá þokumst við í átt til jafnréttis, en ég held að það taki langan tíma, vegna þess að það eru svo mörg öfl sem vinna gegn því. Eina leiðin til að sigrast á þeim er að vita af þeim og við verðum að vera heiðarleg við okkur sjálf.
Vestræn þjóðfélög kæra sig ekki um samruna kynþáttana, við verðum að viðurkenna það og muninn sem er á fólki og megum ekki ætlast til að allir séu hvítir og eins. Þá eigum við betri möguleika á því að skapa góða heil....

MickRonson1Með Bowie á þessari plötu getur að heyra eitt af stærri nöfnum nútíma djazztónlistar, en þar er á ferð Lester Bowie sem sér um saxófónblástur. Þá kallaði Bowie líka til fyrrum vin og spilafélaga Mick Ronson, sem ekki hafði spilað með honum frá því Pin Ups var sett í glugga verslana árið 1973. Ronson hafði þá þegar hann mætti í hljóðverið greinst með lifrakrabbamein er að lokum lagði líf hans til hinstu hvílu 29. apríl 1993, aðeins 14 dögum eftir útkomu plötunnar.

Einn er sá maður ónefndur sem kom að plötunni Black Tie White Noies. Það er Al B Sure, kunnur soul söngvari sem gefur titillaginu slíkan lit að melódía lagsins stendur uppi sem ein sú sterkasta á plötunni. Bowie notar skemmtilega aðferð við útsetningar á þessari plötu. Undirleikarar fengu sendar nótur laganna og grunna þeirra. Þeir léku síðan hver með sínum stíl inn á plötuna án samæfingar og útkoman er ruglingslegur bræðingur þar sem hver spilari fyrir sig leikur sína útgáfu lagsins og Bowie syngur síðan ofan í allt saman.

Eins og áður segir lést Mick Ronson skömmu eftir að hafa leikið inn á plötuna Black Tie White Noies en áður náði Bowie að þakka honum fyrir sig með því að syngja hinn kunna smell Like A Rolling Stone inn á væntanlega plötu Ronsons er síðar hlaut titilinn Heaven And Hull auk þess sem hann gaf samþykki fyrir að þar yrði sett inn hljómleikaútgáfa lagsins All The Young Dudes.

Á árinu 1993 birti breska sjónvarpsstöðin BBC frétt þess efnis að sala á plötum Bowieá CD formati hefði náð 72. milljóna eintaka marki á heimsvísu. En þó EMI hafi 1983 og 1984 gefið plötur hans út var það í litlum mæli og þær teknar af markaði vegna samningsmála eins og áður hefur verið minnst á þí þessum pistlum. Það var því ekki fyrr en um 1990 sem eldri plötur hans fóru að koma´markvisst út á CD formaati fyrir dreifingu á heimsvísu. Ekki var vitað með vissu hvað mörg eintök hann hafi selt að plötum sínum á ferlinum en ætla menn þá tölu að sú tala væri á bilinu 111 til 113 milljónir eintaka. Samkvæmt fréttatilkynningu var vitað að hann seldi fleiri plötur á níunda áratugnum en þeim áttunda og á tíunda áratugnum fleiri eintök en á þeim níunda. Mestu skiptir þar að eldri plötur hans voru endurútgefnar á geislaplötum á tíunda áratugnum eins og áður segir.


David Bowie 30. hluti

Tin Machine II /  Live – Oy Vey Baby

Tin-machine2Eftir að Bowie hafði eytt nokkrum dögum með Iman kom að því að halda aftur til vinnu. Hann hafði undirritað að talið er þriggja plötu samning við EMI og Tin Machine hafði þegar skilað einni plötu fyrir þann samning og í ferðum sínum við tónleikahald hafði hún hljóðritað ein fimm lög í hljóðveri í Ástralíu.

EMI var hinsvegar ekki tilbúið að veðja á aðra Tin Machine plötu og lagði að Bowie að vinna frekar aðra plötu í anda Let’s Dance, en sú hafði gefið þeim vel í báðar hendur.
Bowie taldi það hinsvegar af og frá og fóru svo leikar að EMI losaði samning sinn við Bowie og félaga í Tinvélinni.
Sveitina hafði ákveðið að stefna á aðra plötu og hélt því í hljóðver í Los Angeles  og tók upp ein þrjú lög undir stjórn Hugh Padgham sem unnið hafði Tonight plötuna með Bowie nokkrum árum áður.
Bowie og félagar náðu samningum við Victor Music um útgáfu plötunnar sem einfaldlega fékk heitið Tin Machine II. Platan sem út kom 27. dag ágústmánaðar 1991 var fundinn staður í hillum verslana þó ekki allra eins og síðar kemur fram.

Á Þessari plötu virðist bandið þéttara og samspil þeirra fjórmenninga öruggara en á fyrri plötu sveitarinnar. En heildarútkoman þótti þó ekki eins heilsteypt og fyrri platan. Það sem helst greinir þessa plötu frá fyrri plötu sveitarinnar er að aðrir meðlimir Tin Machine, en Bowie kom meira við sögu hvað röddun varðar. Útkoman er sú að þetta telst plötunni til tekna og gefur henni aukin lit.

Meðal efnis má finna á Tin Machine II lagið If There Is Something, eftir Brian Ferry sem út kom á fyrstu plötu Roxy Music, en það var eina lagið á Tin Machine II sem ekki var eftir þá félaga í tinvélinni.

tinmachine2USAHvað tónlistarlegan stíl varðar er róið á sömu mið og á fyrri plötunni og því fátt nýtt undir sólinni hvað það varðar. Engu að síður vakti útgáfan talsverða athygli vestur í Bandaríkjunum. Ekki var það þó vegna tónlistarinnar heldur voru það umbúðirnar eða öllu heldur framhlið umslagsins sem olli nokkru írafári þegar ljóst varð að um það bil 60% plötuverslana í landi frjálsræðisins neituðu að stilla plötunni upp í gluggum verslana sinna. Ástæðan var að umslagið prýða fjórar forngrískar styttur af nöktum karlmönnum. Stytturnar hafa verið kenndar við Kouros í Grikklandi og þykja sýna fyrstu burði forngrískra listamanna til að greina á milli guða og manna í verkum sínum.
Með þessu neyddu verslanirnar útgefanda plötunnar til að breyta umslaginu og var að lokum var farin elsta leið mannsins við að hylja nekt sína, þá sömu og Adam og Eva notuð í aldingarðinum forðum, það er að nota laufblöð, en í þessu tilfelli, til að hylja nektina grísku listarinnar.

tinmachineDavid Bowie: Eftir því sem ég best veit er þetta í fyrsta skipti sem bandarískum almenningi er meinaður aðgangur að klassísku listaverki. Sú ákvörðun að hafna umslaginu minnir einna helst á verk rannsóknarréttarins til forna.

Til gamans má nefna að sama dag og Bowie fékk fréttirnar um að hið menningarlega umslag kæmi svo við blygðunarkennd bandarísks almennings að það yrði hugsanlega bannað birtist stór litmynd af Kouros styttunum framan á aukablaði New York Times. Það er víst ekki sama þar frekar en annarsstaðar hvort þú ert bara Jón eða séra Jón, hvort það er rokkplata eða virt dagblað.

Platan náði ekki þeirri sölu sem aðstandendur höfðu vænst en einstök lög hennar gerðu það þó þokkalegt að einstökum vinsældalistum. Velgengni Bowie í hringum Sound and Vision hafði vakið Bowie á ný og að klára þessa plötu með Tinvélinni var frekar skylduverefni af hálfu Bowie. En um líkt leiti og ljóst var að dagar sveitarinnar væru taldir var gefin út með litlum tilkostnaði plata með nokkrum tónleikaupptökum sveitarinnar

Tin-Machine-Live---Oy-Vey-Bab-228118Live – Oy Vey Baby var heiti hennar og kom hún út þann 22. júlí 1992. Platan hefur að geyma hljómleikaupptökur þekktra laga sveitarinnar sem hljóðrituð höfðu verið að mestu í Bandaríkjunum og Tokíó á tímabilinu 1991 til 1992. Þá var einnig  gefið út myndbandi. með sama nafni sem hafði að geyma svipað efni. Þrátt fyrir slaka dóma fagtímarita náði platan að setjast í 23. sæti breska listans er sást aðeins á þeim lista í þrjár vikur. Hún gerði það betur í Bandaríkjunum þar sem hún náði þriðja sæti. Segja má að með þessari plötu og myndbandinu hafi hljómsveitin Tin Machine sungið sinn svanasöng og við tók sólóferill Bowie á nýjan leik, ferskari en um langan tíma. Enda mál manna að Bowie hafi verið nokkuð langt frá því að vera ánægður með þá staðreynd að lúta vilja annara þegar að tónlistarsköpun kom.

PS: Þess skal geta að þeir sem eiga í fórum sínum plötuna Tin Machine III eru með svonefnda “Bootleg” plötu í höndunum sem er ólögleg útgáfa.
Þá má einnig taka það fram fyrir áhugasama að platan var gefin út í Indónesíju og á þeirri útgáfu syngur Bowie lagið Amlapura á Indónesísku.


David Bowie 29. hluti

Tin Machine 

Tin Machine 1Hljómsveitin Tin Machine var vettvangur tónlistarsköpunar David Bowie á hans 24. starfsári, en hann hafði ekki starfað með hljómsveit síðan á 7. áratugnum. Tin Machine var kvartett. Auk Bowie var gítarleikarinn Reeves Gabrels einn af tin vélinni og á trommur og bassa léku þeir bræður Hunt og Tony Sales en þeir höfðu áður starfað með Bowie 1977, þá við upptökum á plötu Iggy Popp í Berlín.

Fyrir sína fyrstu afurð hljóðritaði Tin Machine ein 35 lög í Montreux hljóðverinu í Sviss seinni hluta árs 1988 með hléum þó, því Bowie sinnti einnig leiklistagyðjunni meðan á upptökum plötunnar stóð. Er hann brá sér fram fyrir kvikmyndavélarnar í hlutverki Pontiusar Piladusar í myndinni um síðustu daga Krists.
Myndin sem nefndist á frummálinu The Last Temptation of Christ, fékk almennt ekki góðar viðtökur enda efnið kannski þess eðlis að eðlilegt væri að hún færi að mestu fyrir ofan garð og neðan hjá kvikmyndahúsagestum.

Plata Tin Machine var þrykkt í plast og ekið til verslana í maímánuði 1989 og bar einfaldlega nafn sveitarinnar. Áhrif hennar voru sótt aftur til árana 1966 til 1979 eða þess tíma sem frægðarsól Bowie hafði skinið hvað skærast. Þrátt fyrir það var tónlistin í flestu ólík öllu því sem frá Bowie hafði komið áður.
Aðall plötunnar er kröftugur gítarleikur sem stundum vegur salt á milli bárujárnsrokks og pönks. Áhrif frá Hendix voru augljós og jafnvel má finna tilvitnanir í spámenn á borð við Keith Richards í nokkrum lagana. Það gladdi eyru margra að Bowie var hér aftur farinn að  fást við gítarleik eftir þó nokkurt hlé.

Tin+MachineTextar plötunnar voru margir hverjir hinir ágætustu, Bowie spyr þar áleitinna spurninga og lýsir skuggahliðum mannlegrar tilveru auk tilhlýðilegra ástarhugleiðinga. Lög og textar sem  Flest eru lögin skrifuð á meðlimi sveitarinnar að einu undanskyldu sem telja verður með betri lögum hennar en það er verkamannaóður Johns Lennons A Working Class Hero. 
Fyrir aðdáendur má taka fram að Bowie tók síðar eitt laga plötunnar; I can't Read og hljóðritaði það á ný fyrir myndina Storm og var lagið gefið út á smáskífu sem alfarið var skráð á Bowie.

Segja má að maður kannist við þennan Bowie, krafturinn og ferskleikinn virðist kominn heim á ný að einhverju leiti. Með tilkomu Tin Machine gátu gamlir Bowie aðdáendur komið úr felum og tekið gleði sína á ný. Allavega gladdist margur plötukaupandinn því fyrsta breiðskífa sveitarinnar náði 3. sæti breska breiðskífulistans. Það var ekki aðeins tónlistarlegur útgangspunktur að snúa aftur til upphafsins heldur var farið alla leið því í kringum útgáfu plötunnar héldu meðlimir Tin Machine í stutta hljómleikaferð seinni hluta júní mánaðar og gáfu út þá yfirlýsingu að aðeins væri ætlunin að spila á minni stöðum, þá helst börum og veitingarhúsum, líkt og ungar sveitir höfðu gert á árum áður, og gera sumar enn.  

David-Bowie-Sound--Vision-104724Bowie gerði það líka gott hvað varðaði eldra efni sitt, RCA sem gefið hafði flestar plötur hans út hafi að vísu endurútgefið stóran hluta sólóplatna hans 1983-84 á CD, en varð að hætta útgáfu þeirra vegna galla í samningum, þar sem oftar en ekki var talað um í hvaða formi útgáfurétturinn næði til. Talsverð eftirspurn hafði því myndast á markaði eftir efni hans á CD plötum. Þegar menn svo settust niður til að greiða úr málum varð það ofan á að Bowie ætti rétt sjálfur á talsverðum fjölda platna á CD plötum og ákvað Bowie í ljósi þess að nánast bjóða verkin út. Það var Bandarískt sjálfstætt smáfyrirtæki Rykodisc sem hneppti hnossið. Þetta fyrirtæki hafði sérhæft sig vönduðum endurútgáfum, meðal annara listamanna sem fyrirtækið hafði séð um að endurútgefa má nefna Frank Zappa og var mál manna að þær endurútgáfur hefðu heppnast ákaflega vel.

Rykodisc tók sér því að annast útgáfu 18 eldri platna Bowie fyrir Bandaríkjamarkað og komu velflestar plöturnar út með aukaefni. EMI fékk hinsvegar samninginn hvað Bretland og evrópu varðaði. Kóróna þessarar útgáfu var þriggja platna safnkassi með lögum af eldri plötum í bland við fágætt efni og annað áður óútgefið. Safninu var ekki aðeins vel tekið af aðdáendum því útlit og frágangur á gripnum þótti til mikillar fyrirmyndar og vann reyndar til Grammy verðlauna þetta ár sem besta endurútgáfa ársins. Þess má einnig geta að nokkrum árum síðar var safnið uppfært og endurútgefið í örlítið breyttri mynd. Meðreiðarsveinn þessa safns var safnplatan ChangesBowie. Í kjölfar velgengni endurútgáfunnar ákvað Bowie að hvíla sveitina Tin Machine og koma það fáum á óvart. Því menn höfðu fundið vel fyrir þeim listrænu efasemdum sem hreiðrað höfðu um sig í hverri taug tónlistarmannsins David Bowie eftir útkomu annarra plötu þeirrar sveitar og höfðu margir spurt sig hvort listrænum metnaði hefði nú enn og aftur verið fleygt fyrir borð, en svo var ekki. Það var tilkynnt þann 23. janúar 1990 að framundan væri sex mánaðar hljómleikaferðarlag, sem innihéldi 110 hljómleika í 15 löndum. Yfirskriftin ferðarinnar kom ekki á óvart, Sound And Vision Tour. Fjárhagsáætlanir ferðarinnar gerðu ráð fyrir að hagnaður Bowie, að kostnaði greiddum, yrði ekki undir 20 milljónum punda. Ferðin hófst í Kanada 4. mars 1990 og stóð fram í septemberlok sama ár með hljómleikum í Chile.

ImanSkömmu eftir að ferðinni lauk fann Bowie ástina á ný. Sú hét Iman og hafði starfað sem súpermótel, ættuð frá Sómalíu en hafði starfað um skeið í Bandaríkjunum. En Bowie gerði meira á árinu 1990 en gera stóra samninga um endurútgáfur, skreppa í sex mánaðar tónleikaferð og finna sér nýja konu. Hann kláraði árið á að leika í myndinni The Linguini Incident ásamt Rosanna Arquette en saman fóru þau með aðalhlutverk myndarinnar, sem ekki fór hátt þrátt fyrir ágætis tilþrif. En hvíldardaginn tók kappinn því næst heilagan sem voru næstu sex mánuði sem Bowie eyddi í Sviss og sagan segir að þar hafi hann leikið á alsoddi ástfanginn upp fyrir haus.

PS:Fyrir áhugasama og safnara má taka það fram að mismunandi uppröðun var á hljómsveitarmeðlimum framan á umslögum LP plötunnar, CD plötunnar og kassettunnar.


David Bowie 28. hluti

Never Let Me Down

Never Let Me DownTil að hljóðrita næstu plötu í Mountain hljóðverinu í Sviss fékk Bowie til liðs við sig meðal annarra Carlos Alomar auk hljómborðs, trommu og bassaleikarann Erdal Kizilcay, þá mætti til leiks gamall skólabróðir sem var enginn annar en gítargúrúinn Peter Framton.

Megin innihald plötunnar Never Let Me Down sem út kom 27. apríl 1987 er enn ein stórborgarsýn höfundar. Sögusviðin eru skuggahverfi New York borgar þar sem Bowie dregur sem fyrr upp dökkar myndir af harðneskjulegu lífi stórborgarinnar, nú eru það fátækrahverfanna sem eru honum hugleikin og þeim frumskógarlögmálum sem þar ríkja.
Lífi undirmálsmanneskjunnar sem á sér ekki viðreisnarvon er lýst á afar myndrænan hátt í upphaflaginu Day-In Day-Out, reyndar svo myndrænu að stjórnvöld í Bandaríkjunum sá ástæðu til að banna myndræmu sem gerð var við lagið til sýningar í sjónvarpi, nema það væri klippt verulega.
Á endanum verða þó slík skilyrði sjaldnast til annars en að vera góð auglýsing fyrir viðkomandi myndbrot.
Á öðrum stað plötunnar telur Bowie að þessa hnignun megi að stórum hluta rekja til sinnuleysis stjórnvalda og muni aðeins geta endað á einn veg á nýrri öld og síðasti byggilegi staðurinn verði fjarri þeirri jörð sem mannskepnan nú búi á.

CocoEn Bowie gerir fleira á Never Let Me Down en draga upp eymd fátæktarhverfana, því titillag Never Let Me Down er þakklætisóður hans til handa einni dyggustu aðstoðarmanneskju sinn gegnum árin Corrine "Coco" Schwab en sú hafði starfað fyrir Bowie allt frá dögum Main Man útgáfunnar í upphafi áttunda áratugsins, og segir sagan að þau hafi verið elskendur af og til allan þann tíma. Platan Never Let Me Down er vart hægt að skilgreina tónlistarlega öðruvísi en sem rokkplötu í léttari kantinum, einhverja undarlegt blöndu rokk / popp með dansvænu ívafi. Þar sem trommutaktur og synthesizer liggja framarlega í hljóðblöndunin.

Almennt fékk Never Let Me Down ekki góða dóma gagnrýnenda né harðra Bowie aðdáenda.
Sjálfur varð Bowie eftir á hundfúll út í sjálfan sig fyrir þessa plötu, sagði að hann hefði ekki einu sinni átt að íhuga að fara inn í hljóðver til að taka plötuna upp, hvað meira. Sú harða samfélagsgagnrýni sem er að finna á plötunni hefur enga þýðingu fyrir mig, hvorki nú né þá. Ég var mjög ósáttur við allt það sem ég var að gera á þessum tíma og það kristallast vel í tónlistinni, sagði Bowie síðar í viðtali og heldur áfram.  - Let’s Dance var frábær plata sem átti vel við á þeim tímapunkti sem hún var gerð, en næstu tvær plötur voru afleitar og þá sérstaklega Never Let me Down sagði Bowie um plötuna síðar.

DavidBowie-w500Hinn almenni plötukaupandi tók gripnum þó mun betur sem gerði það að verkum að platan komst í 6. sæti sölulistans í Bretlandi skömmu eftir útgáfudag. Í kjölfarið var efnt til hljómleikaferðar er bar yfirskriftina Glass Spider. Enn og aftur sannaði Bowie hæfni sína í sjónrænum uppákomum. Því tæknilega séð var þetta lang viðamesta hljómleikaferð hans til þessa sem í árslok var talin í öðru sæti yfir íburðarmestu og flottustu hljómleika ársins, á eftir Pink Floyd og túr þeirra The Wall. Sem dæmi var notuð 600.000 watta ljósastöð við að keyra það rafmagn sem þurfti, meðal annars ljósumprýdda risakónguló sem var einskona himinn yfir sviðinu. Samtals störfuðu um 150 manns að því einu að halda ferðinni úti og til að flytja búnað milli staða óku 43 risatrukkar um þjóðvegi Bandaríkjanna með búnað sem notaður var við hljómleikahaldið.

84260998Aðeins er vitað um eitt leiðindaatvik sem varpaði skugga á annars frábæra hljómleikaferð en það var ákæra hinnar 30 ára gömlu Wanda Nicholls á hendur Bowie fyrir meinta nauðgun sem hún sagði að átt hefði sér stað á hótelsvítu söngvarans. Þegar svo að því kom að rétta ætti í málinu var ákæran dregin til baka og sú skýring opinberuð að ákærandi hafi gert þetta til þess eins að vekja athygli á sjálfri sér. Að þessum atviki undanskyldum gat Bowie lítið annað en verið ánægður með útkomu þessara tónleika sem um 3 milljónir manna sáu og sló þar út miðasölu á Let’s Dance tónleikunum en talið var að rúm tvær og hálf milljón manna hafi keypt miða á þá tónleika.

Það fór ekki mikið fyrir Bowie fyrri hluta árs 1988. Þó mætti hann á hljómleika í London þar sem hann lék nokkur lög ásamt gítarleikaranum Reeves Gabrels og tilkynnti í kjölfarið stofnun nýrrar rokksveitar. Þá var sólóferillinn lagður á hilluna í billi að minnstakosti.


David Bowie 27. hluti

Tonight 

TonightEftir miklar annir við eftirfylgni plötunnar Let’s Dance og hvern leiksigurinn eftir annan hefði vel mátt ætla að okkar manni gæfist kostur á hvíld. En svo var nú aldeilis ekki. Haustið 1984 skundaði hann ásamt fríðu föruneyti inn í hljóðver í Kanada þar sem hans 19 breiðskífa Tonight var tekin upp á þremur vikum. Sjálfur hefur Bowie viðurkennt að um svokallaða samnings plötu hafi verið að ræða, það er að hún hafi ekki verið gerð af listrænum metnaði höfundar. Mikið fremur fyrir tilverknað samnings sem Bowie þurfti að standa við, enda fór svo að platan var dæmd sem hans slakasta á ferlinum. Þrátt fyrir að platan næði fyrsta sæti breiðskífulistans í Bretlandi og sæti á þeim lista í heilar 19 vikur. Platan gerði það líka gott sölulega í Bandaríkjunum þar sem hún kleif í 11 sæti og sat jafnmargar vikur á lista.

Það vekur athygli að aðeins tvö af níu lögum plötunnar eru fullkomin eign Bowie sjálfs. Önnur eru annað hvort samin af Bowie og Iggy Popp eða þá fengin að léni frá öðrum listamönnum. Á Tonight rær Bowie á önnur mið í tónlistinni en aðdáendur hans áttu að venjast. Áhrif frá Vestur-Indíum og Suður Ameríku eru áberandi eins og lögin Don’t Look Down, Tumble And Twirl og titillagið Tonight bera glöggt vitni. Í síðast nefnda laginu naut Bowie fulltingis Tinu Turner við raddsetning og er útkoman dágóður dúett og varð smellur þessarar plötu hvað almenna útvarpsspilun varðarði.

Eitt áheyrilegasta lag plötunnar þótti bein og auðsæ skírskotun í Scary Monsters plötuna frá 1980. Í titillagi þeirrar plötu lýsir Bowie skrímslinu ógurlega sem heldur honum í helgreipum óttans. Skrímslinu sem við nánari athugun reynist vera persónugervingur eiturlyfja. Í laginu Loving The Alien heldur predikunin áfram og engu áhrifaminni en fyrr. Hér lýsir Bowie af eigin reynslu þeirri sjálfsblekkingu sem einkennir allt líf þeirra sem nota eiturlyf. Hann líkir neytandanum við ofsatrúarmann sem blótar guð sinn í blindni, afneitar staðreyndum og felur líf sitt í hendur heilögum anda, líkt og krossfarinn fer eiturlyfjaneytandinn eins langt og hann kemst, jafnvel lengra í trúnni á guð sinn almáttugan; eiturlyfjunum.

Blue Jane videoSamhliða útgáfu plötunnar gerði Bowie myndskreytingu við fyrrnefnda lagasmíð auk þess sem ráðist var í gerð 22  mínútna langrar myndar við lagið Blue Jean. Leikstjórn var í höndum hins kunna Julian Temple en sjálfur fór Bowie með tvö helstu hlutverk myndbandsins. Í myndinni sem kallast Jazzin For Blue Jean gerir Bowie sér mat úr persónudýrkun almennings, nokkuð sem hann þekkti vel af eigin raun enda var útkoman stórskemmtilegt ádeilumyndband sem ætti í raun að vera skylduáhorf fyrir hvern þann sem óvænt slær í gegn. Reynar verða flestir Bowieaðdáendur að viðurkenna að platan hefur elst vel og mörg laga hennar eru vel útvarpsvæn enda hafa þau lifað þar ágætu lífi.

Í byrjun ársins 1985 ljáði Bowie bandaríska kvikmyndafyrirtækinu Universal krafta sína er hann fór með hlutverk kaldrifjaðs morðingja í annars flokks sakamálareifara sem bar titilinn In To The Night.

Að frumsýningu myndarinnar undanskilinni hafði Bowie sig lítið í frammi fyrri hluta árs 1985. Á því gerði hann þó bragabót 13. dag júlí mánaðar þegar hann tróð upp ásamt hljómsveit á einhverjum frægustu tónleikum sögunar – Live Aid sem efnt var til á Wembley. Bowie mætti eins og sönnum séntilmanni sæmir í jakkafötum með bindi og á tæpum hálftíma töfraði hann hálft mannkyn með stórkostlegum leik. Á efnisskrá kappans voru fjögur lög TVC15, Rebel Rebel, Modern Love en hápunkturinn var magnaður flutningur Bowie á hinu frábæra lagi Heroes.

bowie and jaggerSamhliða tónleikunum var útgefið á smáskífu topplagið Dancing In The Street sem Bowie söng í félagi við annan rokkjöfur – Mick Jagger. Almennt glöddust menn yfir að þessir vinir og samstarfsfélagar tæku sama lag en voru þó hálfgramir yfir því að þar væri ekki um frumsamið efni að ræða.
 
Á því eina og hálfa ári sem næst leið lék Bowie í tveimur kvikmyndum. Absolute Beginners sem Julian Temple stýrði og síðan Ævintýramyndinni Labyrinth sem brúðupabbarnir Jim Hanson og Terry Jones gerðu í sameiningu. Bowie á lög í báðum þessum myndum og reyndar einni að auki, The Falcon And The Snowman. Þar sem hann kyrjar lagið This Is Not America við undirleik djassistans Pat Metheny sem sá um aðra tónlist myndarinnar. Og þykir lagi en í dag ein af perlum Bowie.
Bowie þótti skyla hlutverkum sínum með miklum sóma og fram kom í viðtölum við þá sem störfuðu að þessum myndum að Bowie væri vel fær sem leikari og hefði án efa slegið í gegn á því sviði hefði hann valið sér þann starfsvettvang.

Árið 1986 hitti Bowie fornvin sinn Iggy Popp í hljóðverinu á ný þar sem þeir í sameiningu sköpuðu nýja og stórgóða sólóskífu þess síðarnefnda er ber heitið Bla bla bla. Saman semja vinirnir obbann af lagasmíðum plötunnar, auk þess sem útsetningar eru alfarið í höndum Bowie en sá góði maður á útgáfuréttinn á plötunni.


David Bowie 26. hluti

Let's Dance 

Let's Dance 1983Bowie hafði nú uppfyllt þær kröfur í samningi sínum við RCA er hljóðaði upp á tólf breiðskífur og 27. janúar 1983 undirritaði hann fimm ára samning við EMI sem færði honum litlar 17 milljónir dollara í aðra hönd við undirritun, auk hagnaðar sem síðar kæmi, yrði hann einhver. Nokkrum dögum síðar hófst Bowie svo handa við gerð næstu plötu og sinnar fyrstu fyrir EMI. Til leiks mætti hann með diskóboltann Nile Rodgers í hlutverki upptökustjóra og hinn frækna gítargarp Stevie Ray Vaughn. Platan Let’s Dance sem út kom í apríl 1983 var langléttasta plata Bowie til þessa og augljóst var á öllu að honum var ekki mikið niðri fyrir, hvorki í tónlist né textum. Af átta lögum plötunnar voru þar aðeins fimm alný lög. Tónlistin var fágað en áheyrilegt popp og textarnir flestir einfaldur ástarkveðskapur.

Bowie 1983David Bowie:Í upphafi áttunda áratugarins einkenndist diskóstemmingin í Bandaríkjunum af frumleika og eldmóði og var töluverðan sköpunarkraft að finna í þessum nýja sprota tónlistarinnar, en í seinni tíð hefur þetta þróast í hálf óhugnalega þráhyggju fólks að þurfa að tolla sem best í tískunni. Þetta skrýtna andrúmsloft reyndi ég að túlka í Fashion.

Hinir nýju útgefendur máttu vel við una því Let’s Dance seldist hraðar en nokkur plata á vegum EMI allt frá útkomu Bítlaperlunar St. Peppers árið 1967. Toppsætið á breska breiðskífulistanum var auðfengið og titillagið var fyrsta og eina lag Bowie sem náði toppsætinu beggja vegna Atlansála á sama tíma. Skömmu eftir útgáfuna tilkynnti EMI að rúmri viku eftir útgáfuna hefði fyrirtækið náð til baka sinni sautján milljóna dollara greiðslu til Bowie í formi hagnaðar af plötunni.
Þrjú laga Let’s Dance eru gömul lög í nýjum búningi og eitt þeirra er China Girl, lag sem Bowie og Iggy Popp höfðu samið fyrir plötu þess síðarnefnda The Idiot, árið 1977. Bowie færði þetta lag í aðgengilegri búning og flestum bar saman um að það væri einna eftirminnilegast af öllum lögum Let’s Dance. Lagið náði öðru sæti breska listans í júní 1983.

Lets Dance tónleikarBowie tilkynnti nú um sína fyrstu hljómleikaferð í fimm ár og bar þeysireiðin hina skáldlegu yfirskrift The Serious Moonlight Tour. Á meðal þeirra sem lögðu hönd á plóg við undirbúning herlegheitanna var listamaðurinn Mark Ravitz en í hans höndum var gerð risavaxinnar sviðsmyndar en Ravitz þessi var einmitt maðurinn á bak við sextán stórfenglegar sviðsmyndir á Diamond Dogs för Bowie rúmum átta árum áður.

Aðeins viku áður en fyrstu tónleikar ferðarinnar áttu að hefjast í Brussel vorið 1983 rak Bowie aðal gítarleikara sinn Stevie Ray Vaughn þar sem honum þóttu kaupkröfur karls vera í hærra lagi. Nú voru góð ráð dýr! Hvar átti að hafa upp á færum gítarleikara sem gæti á einni viku æft upp tuttugu laga prógramm. Umboðsmaður Bowie vissi hvar leita skyldi hófana, lagði hönd á skífu og hringdi í Earl Slick en hann hafði verið náinn samstarfsmaður Bowie á áttunda áratugnum. Frá árinu 1976, eða í sjö ár höfðu þeir þó ekki talast við eftir rifrildi og opinbert skítkast í fjölmiðlum. Það var því með semingi að Slick samþykkti að vera með og eftir fyrsta fund þeirra Bowie í Brussel var stríðsöxin grafin og ástæða sjö ára ósættis sögð vera misskilningur einn, sem magnast hefði vegna barnaskapar hlutaðeigandi. Og viti menn, í fimm daga, frá morgni til kvölds sat Slick boginn yfir gítargarmi sínum og sveittur í lófunum fór hann yfir lagaprógramm tónleikana. Ekki brást Slick þegar á hólminn var komið og þótti reyndar standa sig einna best af aðstoðarmönnum Bowie í öllum túrnum sem varð hin mesta sigurför. Uppselt á yfir sjötíu tónleika og gagnrýnendur sammála um að þvílík hágæða sýning hefði sjaldan sést.

Að ferðinni lokinni var litið yfir ósköpin og komu þá ýmsar tölur í ljós, aðeins skal hér stiklað á nokkrum þeirra: Að baki voru 96 tónleikar í 59 borgum Evrópu, Norður Ameríku og Asíu, áður en yfir lauk. Þetta reyndust vera 12.270 mínútur af tónlist í 2.208 lögum sem leikin höfðu verið fyrir 2.601.196 áhorfenda í 15 löndum. Stærsta sýningin hafði verið í Aukland, í Nýja Sjálandi þar sem mætt höfðu 80.000 manns en sú minnsta var í heimalandi kappans á Hammersmith Odeon í London þar sem aðeins mættu 2.120 manns. Hluti ferðarinnar var festur á filmu sem síðar sem síðar átti einnig eftir að skila dágóðum hagnaði til viðbótar.

Með þessari plötu hafði Bowie endurnýjað aðdáendahóp sinn og náð til yngri aldurshópa. Eldri áðdáendur kappans glöddust innst inni en töldu af og frá að taka of mikinn þátt í fagnaðarlátunum vegna plötunnar Let's Dance. Dróu þess í stað fram gömul verk eins og Diamond Dogs og Ziggy Stardust og tilkynntu hinum nýja og unga aðdáendahópi að þarna væri hinn raunverulegi meistari. Poppið á Let's Dance hefði ekkert með snilli Bowie að gera. Margir líta enn svo á að með þessari plötu hafi Bowie glatað ákveðnum ljóma sem framsækinn og leitandi tónlistarmaður en um leið gengið markaðsöflunum á hendur með smíði vinsældapopps að ódýrari gerðinni. Svo voru aðrir sem betu réttilega á að Bowie hefði áður daðrað við diskótónlistina t.d. með laginu Fame. Munurinn á Bowie og öðrum sem tekið hefðu þátt í þessum dansi væri sá að Bowie gerði það betur en flestir aðrir.

The hungerÁrið 1983 voru frumsýndar þrjár kvikmyndir þar sem Bowie átti hlut að máli. Fyrsta skal nefna vampírumyndina The Hunger en söguþráður þeirrar myndar þótti með eindæmum kjánalegur. Gekk út á það eitt að sýna vampírupar eitt, leikið af David Bowie og frönsku fegurðardísinni Catherine Deneuve súpa á blóði fórnarlamba sinna og varðveita þannig eigin fegurð og ungdóm. Myndin sem sýnir Bowie eldast um 170 ár þykir einkar falleg fyrir augað og ekki skemmdi öflug tónlist fyrir en hún var flutt af hljómsveitinni Bauhouse.

mr_lawrenceÖnnur kvikmyndin sem sýndi Bowie í höfuðhlutverki árið 1983 var Merry Christmas Mr. Lawrence, sem unnin var í samvinnu Breta og Japana. Í myndinni fer Bowie með hlutverk dáta frá Nýja Sjálandi sem lendir í höndum Japana í heimsstyrjöldinni síðari og segir myndin frá pínlegri dvöl hans í fangabúðum þeirra gulu og kvalarfyllum aðskilnaði hans við ættingja og vini. Aðskilnaður söguhetjunnar í Merry Christmas Mr. Lawrence þykir minna á fortíð David Bowie en í hans tilfelli var það ekki styrjöld sem sleit hann úr tengslum við fjölskylduna heldur tónlistin. Gagnrýnendur voru sammála um að sjaldan hefði Bowie tekist jafnvel upp fyrir framan myndavélarnar og var viðkvæði sumra þeirra að hann hefði einfaldlega verið að leika sjálfan sig með þetta góðum árangri.
Meðal annarra leikara myndarinnar voru Tom Conti og japanski tónlistarmaðurinn Riuichi Sakamoto en auk þess að leika stórt hlutverk átti hann allan heiðurinn af tónlist myndarinnar.

Þriðja myndin þar sem Bowie kom við sögu var misheppnuð sjóræningja grínmynd sem Monthy Pylton gengið átti vafasaman heiður að. En Wello Bird eða Gulskeggur kallaðist hún. Sjálfur var Bowie í fríi á svipuðum slóðum og myndin var tekin er hann var gripinn, glóðarsteiktur í sólbaði og það var ekki af sökum að spyrja; hann var dreginn nauðugur, viljugur í tökur. Reyndar var hlutverk Bowie með léttvægasta móti. Hann lék hákarl og sást aðeins í um það bil 20 sekúndur á tjaldinu.

Tónleikaplatan ZiggyÍ október 1983 kom svo loks á markað tvöföld hljómleikaplata frá tónleikum Bowie er haldnir höfðu verið Hammersmith Odeon í London 3. júlí 1973 sem áður hefur verið minnst á. Gripurinn var gömlum Bowie aðdáendum kærkominn í safnið enda getur þar að heyra hina frægu yfirlýsingu Bowie er markaði andlát félaga Ziggy Stardust og endalok sveitarinnar Spiders From Mars. Platan hafði og að geyma magnaðan flutning Bowie á verki Jacques Brel, My Death ásamt lögum eins og The Wild Eyed Boy From Freecloud, All The Young Dudes, Oh You Pretty Thing að ógleymdum svanasöng Ziggy Stardust, Rock ‘n’ Roll Suicide. Þessi gripur er enn í miklum metum meðal aðdáenda og er að mörgum þeirra tail ein besta tónleikaplata sem út hefur komið frá ferli kappans.


David Bowie 25. hluti

Scary Monsters (And The Super Chrips)

Scery MonstersÞað liðu alls fimmtán mánuðir frá útgáfu Lodger þar til aðdáendur Bowie fengu nýtt efni í hendur. Í febrúar 1980 kom hins vegar út smáskífa Bowie með hinu þekkta verki Alabama Song, þýska tónskáldsins Brecht Weill en á bakhliðinni var að finna nýja kassagítarútgáfu á Space Oddity Þeim ódauðlega brag um geimfarann Major Tom sem komið hafði Bowie á framfæri ellefu árum áður. Þessi tímasetning hafði ákveðna þýðingu því þann 1. ágúst 1980 skaut Major Tom aftur upp kolli í aðallagi nýrrar smáskífu sem verður að telja einn af hápunktum á ferli David Bowie. Ashes To Ashes sem upphaflega bar titilinn „Laser” má túlka sem almenn mat Bowie á eigin fortíð. Enda má finna í textanum tilvitnanir í ýmis tímabil á ferli hans. Í þrengri merkingu fjallar textinn um dapurleg örlög Major Tom sem á tímum mikilla tækniframfara var sendur út í geiminn, þar sem hann síðan missti allt jarðsamband. Frá upphafi skipaði þessi persóna heiðurssess í hugum Bowie aðdáenda og þá dýrkun vildi Bowie brjóta niður með Ashes To Ashes.


Ashes og Ashers - SmáskífaDavid Bowie:Ég er ekki hlynntur því að menn beiti beinum áróðri en ég hef orðið vitni að þeim hörmulegu afleiðingum sem eiturlyfjaneysla hefur á fólk. Þess vegna fannst mér ósigur Major Tom fyrir eiturlyfjunum sterk vísbending þess að hin tíu ára gamli draumur um hetjuna miklu hefði snúist upp í martröð. Það kemur á daginn að tilgangur ferðarinnar var sá einn að fullnægja tæknidýrkun mannsins en það eina sem hefst upp úr krafsinu er niðurbrotinn einstaklingur sem finnur sína einu huggun í eiturlyfjunum og þráir það heitast að komast til síns heima.

Bowie kveður lagið öðrum þræði vera einhvers konar barnagælu níunda áratugsins þar sem umfjöllunarefnin eru hálf andstyggileg svo ekki sé meira sagt. Ashes To Ashes fór alla leið í fyrsta sæti breska listans og var það í annað sinn sem Bowie náði þeim áfanga.

Vinsældir lagsins juku einnig væntingu manna eftir næstu breiðskífu og þegar Scary Monsters (And The Super Chrips) kom út þann 12 september stökk sú rakleiðis í efsta sæti breska breiðskífulistans, en það var ný reynsla fyrir Bowie. Scary Monsters er geysilega sterk rokkplata. Tónlistin kröftug með nýbylgju áhrifum en engu að síður aðgengileg sem sást á þeim miklu vinsældum sem platan naut. Bowie er einnig beittur í textagerðinni og hafa menn sagt að Scary Monsters sé verk hins raunsæa Bowie.

Ekki ólíkt laginu Ashes to Ashes má finna á plötunni annað lag sem hefur beina skírskotun til fyrri verka Bowie, það er lagið  Teenage Wildlife, sem er lengsta lag plötunnar og sagt nokkuð persónulegt,  einskonar uppgjör höfundar við þeim viðbrögðum sem lagið Heroes hafi fengið á sínum tíma. En þar höfðu menn talað um að þetta væri tímamótaverk og gjarnan talað um hve þroskaður textasmiður Bowie væri.

          ,,A broken-nosed mogul are you
          One of the new wave boys
          Same old thing in brand new drag
          Comes sweeping into view
          As ugly as a teenage millionaire
          Pretending it’s a whiz-kid world"

Á plötum eins og The Man Who Sold The World og Diamond Dogs boðaði hann tortímingu mannkyns en hér var boðskapurinn sá að þrátt fyrir andstreymið verði maðurinn að horfast í augu við mannlífið eins og það er en jafnframt að snúa ástandinu til betri vegar.

Áberandi þema plötunnar er tilvera unglingana í nútímanum en poppið hefur gjarnan verið kallað miðill unga fólksins eins og menn vita. En Bowie syngur ekki um sakleysi æskunnar eða rómantíst tilhugalíf eins og skallapoppararnir, heldur dregur upp öllu sannari mynd, þar sem sýndarmennska, eiturlyfjaneysla, eirðarleysi og sálarkreppa spilar stórt hlutverk líkt og annarsstaðar í þjóðfélaginu. Eitt þeirra laga sem taka á málefnum unglingana er Because Your Young, sterkt lag sem þó hefur ekki fengið mikla spilun útvarpsstöðvana.

Bowie til aðstoðar við gerð Scary Monsters voru ýmsir fengnir. Gamlar kempur eins og Carlos Alomar og Dennis Davis voru með ásamt Roy Bittan en eins og oft áður var upptökustjórinn enginn annar en Tony Visconti. Þá aðstoðaði gamla The Who kempan Pete Townshend við gítarspil.

Hvorki færri né fleiri en fjögur lög af Scary Monsters komust á vinsældalistann í Bretlandi og bar þar vitanlega hæst Ashes To Ashes. Titillagið fór í tuttugasta sætið og Up The Hill Backward í þrítugasta og annað sætið en utan Ashes To Ashes vakti lagið Fashion einna mesta eftirtekt og hafnaði í fimmta sæti. Það má minnast á að upphaflegur titill þess lags var “Jamaica” en líkt og hent hefur bæði plötur og lög á ferli Bowie breytti það um nafn meðan á vinnslu þess stóð.

Fílamaðurinn á BrodwayÁrið 1980 er annars merkilegt í sögu Bowie fyrir þær sakir að hann kom í fyrsta skipti fram á leiksviði og það á ekki minni stað en á Broodway í New York. Bowie lék þar aðalhlutverkið í verkinu um Fílamanninn John Merrick og hlaut einróma lof virtra leikhúsgagnrýnenda.

Leiksigrar Bowie urðu fleiri; annan mars 1982 var sýnt í Breska sjónvarpinu BBC fyrsta leikverk Bertold Brecht um Baal; flökkuskáld nokkurt sem er ekki sérlega vant að virðingu sinni, svívirðir kvenfólk og myrðir mann á knæpu áður en hann lætur sjálfur lífið á flótta. Um svipað leiti og verkið var sýnt kom út fimm laga plata með flutningi Bowie á lögum Brecht úr verkinu og var þar um að ræða sérstæðan en óneitanlega skemmtilegan flöt á ferli Bowie sem tónlistarmanns.

Í nóvember 1981 kom út smáskífa með hljómsveitinni Queen sem hefur að geyma samsöng Bowie og Freddy Mercury á lagi Bowie; Under Pressure. Lagið náði fyrsta sæti breska smáskífulistans og sat á lista í heilar ellefu vikur, enn er lagið leikið í útvarpstöðvum um viða veröld og hefur verið talið meðal betri laga beggja aðila. Sögur götunnar hafa reyndar haldið því á lofti að til hafi staðið að Bowie myndi hljóðrita meira með sveitinni en af því varð þó aldrei meðan söngvari þeirrar sveitar lifði. Helstu ástæður hafi verið að Bowie og sveitin voru samningsbundin sitt hvorri útgáfunni og þegar risinn upp ágreiningur er varðaði útgáfu þessa eina lags. Þá hafi hávær mótmæli aðdáenda Bowie lagt sitt að mörkum við að kollvarpa þessum áætlunum, en mörgum þótti hann taka niður með slýku samstarfi. Þær raddir hafa þó þagnað með tímanum.

Um vorið 1982 var gefið út titillag kvikmyndarinnar Cat People sem Bowie samdi í félagi við Georgio Moroder og náði það miklum vinsældum í mið-Evrópu og víðar þó ekki tætti það beinlínis upp vinsældalistana í Bretlandi eða Bandaríkjunum. Fyrir jólin var svo loks útgefin hljóðritun þeirra Bowie og Bing Crosby á jólalaginu Little Drummer Boy sem gerð hafði verið árið 1977.
Lagið eða réttara sagt þessi ólíklegi dúett vakti mikla eftirtekt og settist í þriðja sætið í Bretlandi. Allar götur síðan hefur laginu verið haldið á lofti og komið út á ótal jólasafnplötum.
Í árslok 1982 var Bowie þegar tilbúinn með grunna næstu plötu sinnar. RCA var ekki sérlega hrifið af innihaldi efnisins og var ekki tilbúið í mikil fjárútlát til handa Bowie og endurnýjunar samnings við hann.


David Bowie 21. hluti

LOW 

Low_album1Eftir að Bowie hafði unnið með Iggy Popp að plötu hans The Idiot snéri Bowie aftur til Frakklands ásamt sínum mönnum og þar hófust upptökur fyrstu plötunnar af þrem sem hann átti eftir að vinna með Brian Eno sem upptökustjóra.

Fyrsta plata í þessari mögnuðu þrenningu var sköpuð með herkjum á útmánuðum 1976 en útgáfudagur hennar er skráður þann 14. janúar 1977. Platan ber heitið Low sem að einhverju leiti var tilvísun í sálarkreppu Bowie á þessum tíma en hún stafaði annarsvegar af hjónabandserfiðleikum en hinsvegar lýjandi málaferlum við fyrrverandi umboðsmann Bowie.
Low er gerólík fyrri verkum Bowie. Tónlistin sem samin var undir vægum áhrifum frá þýsku hljómsveitunum Kraftverk og Tangeren Dream Tónlistin var nýungagjörn rafeindartónlist, þrungin dulúð og seiðmögnuðum krafti en að sama skapi óaðgengileg þeim sem vanir voru léttum laglínum frá Bowie. Low var einnig bylting að því leiti að textarnir nú voru einhverjir þeir persónulegustu sem Bowie hafði samið. Þar sem hann áður hafði boðað fall nútíma siðmenningar í verkum sínum sýndi hann fram á hrörnun eigin persónuleika vegna of náinna kynna af ávanabindandi eiturlyfjum og bandarísku samfélagi.

sound and visionBowie sagði sjálfur um Low að fyrri hlið plötunnar fjallaði eingöngu um eigið sálarástand, en seinni hliðin sem var að mestu ósungin væri nokkurs konar túlkun á áhrifum sem austurblokkin hefði haft á hann, áhrif sem Bowie gat ekki tjáð með orðum. Megin þema plötunnar var hinsvegar einmannaleiki og einangrun sem meðal annars má sjá á texta lagsins Sound And Vision. Í textanum kemur sterklega fram nagandi ótti Bowie við að glata sköpunargáfunni en léttleikandi laglínan hefur líklega dulið fyrir mörgum raunverulegt innihald textans, enda fór svo að Sound And Vision fór í þriðja sæti breska vinsældalistans.

Þó Sound And Vision nyti vinsælda voru viðtökur gagnrýnenda gagnvart Low ekki par vinsamlegar. Þegar litið er á þessa dóma kemur þó í ljós hvað margir eru litaðir af andstöðu við Bowie vegna ummæla hans nokkru áður um Adolf Hitler en þau voru ranglega túlkuð sem stuðningur við fasisma.

tonyViscontiTony Visconti:Þegar við byrjuðum að vinna Low vorum við viðbúnir því að eyða í það heilum mánuði enda var hún að mestu sköpuð í hljóðverinu í Frakklandi. – Við áætluðum að við yrðum líklega með helling af drasli. Sem við að öllum líkindum myndum henda en kannski yrði síðar helmingur af því sem eftir stæði sem nýttist á plötuna. En skyndilega varð okkur ljóst að við vorum komnir með eitthvað í hendurnar sem var alveg ótrúlega spennandi. Við gátum varla beðið eftir að gefa plötuna út. Viðbrögð gagnrýnenda og aðdáenda voru kannski undarleg í upphafi En Það sem hefti þessa plötu mest á sínum tíma, jafn ótrúlega og það hljómar, var útgáfufyrirtækið. Þeir hötuðu hana. Þeir vildu aðra Young Americans plötu. Svo var allavega á þeim að heyra.

Low symphonyLow hefur þrátt fyrir misjafna gagnrýni öðlast virðingu og kannski má segja að hún hafi einfaldlega verið á undan sinni samtíð. Tónsmiðir og tónlistarmenn sem til að mynda hafa verið að fást við ambient og eletróníska tónlist hafa litið til þessarar plötu. Það hafa klassískir tónlistarmenn og útsetjarar einnig gert eins og Phil Glass sem tók Low traustataki og með aðstoð og velvilja Bowie útsetti plötuna nánast í heild sem synfóníuverk árið 1996.

Í mars 1977 hóf Iggy Popp nokkra vikna hljómleikaferð um England og Bandaríkin og vakti heljar athygli að hljómborðsleikarinn hans sem hélt sig aftarlega á sviðinu, fjarri sviðsljósinu var enginn annar en David Bowie. Hann lét lítið á sér bera og veitti aðeins viðtöl ef blaðamenn féllust á að tala eingöngu um Iggy Popp og tónlist hans. Þessi hlédræga afstaða fylgdi Bowie öll Berlínar árin. Að lokinni þessari tónleikaferð héldu svo þeir félagar inn í hljóðver á ný og tóku upp plötu Iggy Popp er hlaut titilinn Lust For Life. En Berlínartímabil Bowie var rétt að hefjast. Með Low hafði hann afgreitt ákveðna hluti í sínu persónulega lífi. Það var komið að öðrum kafla í þessum þríleik.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband