Færsluflokkur: Bloggar
15.1.2011 | 23:50
David Bowie 23. hluti
Peter And Wolf / Stage
Áhugi Bowie var nú í ríkara mæli farinn að beinast aftur út fyrir mörk rokktónlistar og átti það sinn þátt í því að engin ný hljóðversplata kom út á árinu 1978. Hinsvegar tók Bowie að sér hlutverk sögumanns í hljóðritun Sinfóníuhljómsveitar Philadelphiu á verkinu um Pétur og Úlfinn sem út kom í maí það ár. Ástæða þess að Bowie tók sér þetta verk fyrir hendur mun hafa verið vegna fádæma dálætis sonar hans á sögunni góðu. Þessi upplestur þykir fantagóður og vel gerður af hans hálfu. Breskur hreimur hans og skýr rödd skilar verkinu vel. Enda hefur þessi plata verið endurútgefin nokkuð reglulega þó ekki farin hún hátt hefur engu að síður verið nokkuð jöfn og stöðug sala á plötunni í gegnum árin.
Sama ár lék Bowie í annarri kvikmynd sinni Just A Gigalo þar sem hann reyndi ásamt Mareline Detric að bjarga fyrirfram vonlausu framtaki. Þau þykja þó bæði skila verkum sínum nokkuð vel og halda myndinni uppi að mestu.
Í apríl hélt Bowie enn og aftur í hljómleikaferð sem sló hinar fyrri út í umfangi undir yfirskriftinni Isolar II. Meðal þeirra sem voru með í þeirri för voru gítarleikararnir Carlos Alomar og Adrian Belewe, trommarinn Dennis Davies. afrakstur þessarar ferðar gat svo að heyra á tvöföldu albúmi er nefndist Stage og kom út í október 1978. Lögin voru flest af plötum síðustu ára, en hljómleikaupptökurnar þóttu lítt frábrugðnar þeim upprunalegu og því eðlilegt að platan fengi nokkuð jákvæða dóma og gagnrýni yfirleitt, sem slík og er enn í dag talin meðal bestu tónleikaplatna Bowie á ferlinum. En ferðalaginu lauk þann 12. desember 1978 með tónleikum í Tokíó í Japan. En hann hafði þá þegar hafið vinnu við gerð næstu plötu og þeirrar síðustu sem hann vann með Brian Eno að sinn. En Það sem vakti einnig athygli þeirra sem fylgst höfðu með okkar manni var að dvölin í Berlín hafði haft góð áhrif á Bowie og hann virtist mund styrkari og í mun betra andlegu jafnvægi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2011 | 20:37
David Bowie 22. hluti
Heroes
Hansa hljóðverið í Berlín var fasta samastaður Bowie sumarið 1977 því eftir að hafa lokið upptökum á plötu Iggy Popp hófst Bowie handa við gerð sinnar þrettándu breiðskífu. Brian Eno mætti á svæðið með sín töfratæki og tól, gömlu félagarnir Tony Visconti og Carlos Alomar voru með í för ásamt fleiri fastagestum á plötum Bowie. Enn einn góður gestur kom við sögu, gítarleikarinn Robert Fripp,sem margir kannast við úr sveitinni King Crimson, en eins og áður hefur verið minnst á höfðu þeir Flipp og Eno unnið saman plötu 1972.
Nú bar svo við að Bowie var í hörku formi enda voru nær öll lög plötunnar hljóðrituð strax í fyrstu töku sem er mjög óvenjulegt. Eno sem vanur var að bardúsa við sínar plötur svo mánuðum skipti, gapti yfir krafti Bowie og stundi upp: Fjandinn sjálfur, þetta getur ekki verið svona auðvelt.
Afrakstur þessara hljóðritana var breiðskífan Heroes, útgefin 14. október 1977. Uppbygging plötunnar var hliðstæð Low, nærfellt önnur hliðin instrumental verk Bowie og Eno en árangurinn var allur markvissari, lagasmíðarnar mun kröftugari og textarnir ekki eins þrungnir vonleysi og raunin varð með Low.
Skuggahliðar lífsins voru að vísu enn áberandi, en umfjöllunin var raunsærri að flestra mati. Black Out var og er reyndar enn eitt af sterkari lögum plötunnar með ógnvænlegu yfirbragði glundroða og skelfingar. Tvær túlkanir eru á uppsprettu textans; Sumir telja hann vísa til rafmagnsleysis í New York í júlí 1977 en aðrir benda á atburð er átti sér stað í Berlín nokkru áður er Bowie og kona hans Angela lentu í rifrildi er leiddi til skilnaðar þeirra og minniháttar taugaáfalls Bowie.
Á plötum sínum frá þessum árum notar Bowie nokkuð sérstaka aðferð í textagerðinni sem kennd er við rithöfundinn Williams Burros. Þessi aðferð er nefnd cut-up á enskri tungu. Aðspurður um textagerðina svara Bowie
David Bowie:Williams Burros á allan heiður að þessari aðferð en líklega var þó Louis Carrol upphafsmaðurinn. Svo ég sýni hvernig þetta virkar þá getum við tekið til dæmis Berlínarmúrinn sem dæmi. Hugsum okkur að einhver sé að reyna að komast yfir múrinn. Þá skrifa ég nokkrar málsgreinar út frá sjónarhóli hans, síðan túlka ég sjónarmið áhorfenda sem er öðru megin við múrinn og því næst áhorfenda hinu megin múrsins. Þá er ég með í höndunum þrjú ólík sjónarhorn af sama atburði sem ég síðan meðhöndla og annaðhvort set saman eins og þau koma fyrir eða jafnvel bý til fjórða sjónarhornið úr þeim sem fyrir eru. Þetta er hins vegar bara viðmiðun, aðferð til að gera texta en alls ekki föst regla.
- En hvað með hraðann við að semja verkin?
David Bowie: Já, ég sem yfirleitt mjög hratt, venjulega fullvinn ég lag á 20 mínútum þegar ég er á annað borð kominn af stað. Hinsvegar get ég verið í tvo, þrjá daga að velta fyrir mér hvernig ég eigi að taka á viðfangsefninu. Forvinnan tekur mun lengri tíma en verkið sjálft.
Titillagið á Heroes er eitt af meistaraverkum David Bowie. Hér er sögusviðið einmitt umræddur Berlínarmúrinn, þetta táknræna fyrirbæri sem aðskilur tvo heima sem báðir voru þó byggðir hugsandi verum. Bowie dregur upp magnaða andstæðu í textanum, annarsvegar þetta kalda tákn sundrungar en hins vegar eldheita ástríðu tveggja ungmenna sem hittast daglega við múrinn og sameinast í fullvissunni um að sameinuð fái þau fullnægt dýpstu löngunum. Lagið var táknrænt fyrir hina nýju áherslur Bowie og er enn í dag talið í hópi meistaraverka hans. Þessi listamaður sem öðlast hafði frægð fyrir sköpun hálf fjarstæðukenndra hetjupersóna komst hér að þeirri niðurstöðu að hin raunverulega hetja væri maður hversdagsins sem öðlast þrótt í gegnum trúna á sjálfan sig.
Í þetta sinn urðu gagnrýnendur að viðurkenna að Bowie hafði skapað meistaraverk og blaðamenn Meoldy Maker voru ekki í vafa: Heroes var besta plata ársins 1977. Því má svo bæta við að titillagið; Heroes var flutt á þrem tungumálum; ensku, frönsku og þýsku. Þá var þessum útgáfum og blandað saman, sér í lagi þeirri ensku og þýsku á smáskífuútgáfum sem fylgdu í kjölfar plötunnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2011 | 18:38
David Bowie 20. hluti
Berlínartímablið hefst - Frá Iggy til Eno
Iggy Popp, gamli vinur Bowie hafði lent í erfiðleikum og munaði minnstu að hann væri lagður inn á geðveikrahæli þegar Bowie ákvað að koma honum til hjálpar eftir að tónleikaferðalagi hans um Evrópu lauk um mitt ár 1976.
Hann ákvað að koma Iggy út á tónlistarbrautina á ný og tók hann með sér inn í hljóðver í Frakklandi. Bowie var þar sjálfur upptökustjóri og samdi vel flest lögin í félagi við Iggy. Upptökur gengu hinsvegar stirðlega og Bowie sem taldi að rétt væri að skipta um umhverfi selflutti allt heila liðið yfir í Hansa stúdíóið í Berlín þar sem platan The Idiot var fullgerð.
Bowie sem fengið hafði sig fullsaddan á verunni í Bandaríkjunum hreyfst svo af Berlín að hann ákvað að setjast þar að. Dró sig að mestu út úr skarkala poppheimsins en vann að tónlistarsköpun í Berlín út áratuginn. Í kjölfar þessara búferlaflutninga fylgdu aðrar breytingar, Bowie sagði skilið við Soul tónlistina og persónuna The Thin White Duke en tók þess í stað upp samstarf við hinn fjölhæfa listamann Brian Peter George St. John le Baptiste de la Salle Eno, Líklega þekkist hann betur undir styttingu nafnsins Brian Eno.
Það er ekki úr vegi að fjalla örlítið um Eno hér enda á hann stóran hlut í næstu verkum okkar manns. Eno fæddist 15. Maí 1948. Eftir hefðbundna skólagöngu fór hann í listnám þar sem hann lagði stund á málun og áhugasviðið var einhverskonar minimalismi. Hann hafði þó sama og enga tónlistarlega reynslu eða þekkingu þegar hann gekk til liðs við hljómsveitina Roxy Music snemma árs 1970.
Hljómborðsleikurinn heillaði og þau tæki og tól sem hægt var að vinna með hljóð eignuðust fljótlega hug hans allan. Roxy Music skaust upp til metorða í vinsældum Glam-Rokksins upp úr 1970 og óhætt að segja að sú sveit eigi okkar manni David Bowie þar talsvert að þakka. Erfiðleikar Eno í samstarfi við söngvara sveitarinnar Brian Ferry og hin stöðugu tónleikaferðalög urðu til þess að Eno ákvað að yfirgefa sveitina skömmu eftir útgáfu plötunnar For Your Pleasure árið 1973.
Eno hóf þá sólóferil með Art-Rokk plötum sínum Here Come the Warm Jets og Taking Tiger Mountain (By Strategy) en báðar plöturnar komu út árið 1974. Eno hafði skapað sér nafn á sviði tilraunakendrar tónlistar og 1972 vann hann m.a. plötu með Robert Flipp sem verið hafði í King Crimson.
Árið 1973 hafði Eno byrjað að taka að sér að stjórna upptökum og útsetja með sín galdratæki og tól og hafði unnið fyrir þó nokkra aðila eins og t.d. Genesis áður en hann tók upp samstarfið við Bowie. Fyrsti hluti þessa samstarfs entist út næstu þrjár plötur sem í dag ganga undir nafninu Berlínatrílógían þrátt fyrir að hluti platnanna væri hljóðritaður í Frakklandi.
Bloggar | Breytt 29.1.2016 kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2011 | 14:36
David Bowie 19. hluti
Station to Station
Bowie sem dvalið hafi í Mexico um stíma eftir að tökum á myndinni The Man Who Fell To Earth lauk hélt í október 1975 til Los Angeles. Þangað kom hann þeirra erinda að taka upp plötu að áeggjan RCA útgáfunnar. Upptökur fóru fram í Cherokee hljóðverinu í Hollywood. Sér til aðstoðar hafði Bowie þá Carlos Alomar, Earl Slick og Dennis Davis. Nýir í hópnum voru bassaleikarinn George Murry og hljómborðsleikarinn kunni Roy Bittan.
Meðan á upptökum stóð notaði Bowie kókaín og amfetamín sem óður væri og kom sú neysla einna verst við session liðið. Suma daga keyrði hann viðstöðulaust í þetta átján til tuttugu og tveggja klukkustunda lotum en þess á milli lét hann bíða eftir sér hálfu og heilu dagana, ef hann hafði þá fyrir því að mæta. Á endanum tókst þó að koma saman sex laga plötu og þvílíkur gripur! Gagnrýnendur voru orðlausir og vissu hreinlega ekki hvað á sig stóð veðrið. Fyrst hafði það verið Dylanismi þá kjarnmikið rokk, því næst plastic soul og svo Station to Station. Það verk hefur síðar verið túlkað sem myndhverf lýsing á því þegar Bowie uppgötvar sjálfan sig.
Platan Station To Station þykir marka merk tímamót á ferli David Bowie. Hann segir endanlega skilið við fortíðina, Ziggy er horfinn á vit feðranna, The Thin White Duge er kviksettur, plastic soul og kjarnorkurokkið heyra sögunni til. Í staðinn er kominn ruglingslegur en um leið heillandi bræðingur alls þess er Bowie hafði áður tekist á hendur. Yfirborðið er kalt, allt að því fráhrindandi en undir niðri er viðmótið hlýlegt og Bowie gefur hlustandanum meira af sjálfum sér en áður.
Gagnrýnendum reyndist erfitt að skilgreina tónlist plötunnar og voru fyrstu viðbrögðin því oft klóraður hvirfill og spurul augu. Eftir nánari kynni efuðust fæstir þeirra um gæði skífunnar, margir töldu hana bestu plötu ársins 1976. Aðrir bestu plötu Bowie til þessa og skríbent N.N. Week tók svo djúpt í árinni að segja Station To Station bestu plötu síðustu fimm ára. Lögin sem prýða þessa plötu eru auk titillagsins Golden Years, Word On A Wing, TVC15, Stay og Wild Is The Wind sem er titillag bíómyndar frá árinu 1957 og eina lag plötunnar sem ekki er eftir Bowie sjálfan, fimmta lag Station To Station er fallegur ástaróður sem kallast Stay en í laginu örlar á örlítilli bjartsýni en hún var sjaldséð fyrirbrigði í ruglingslegum textum plötunnar. Til marks um gæðin komu öll lög hennar út á smáskífum víðsvegar um heim
Í febrúarbyrjun 1976 var svo blásið í mikið tónleikaferðarlag undir heitinu ISOLAR sem hófst með tónleikum í Kanada, Nánar tiltekið í Vancover 2. febrúar og í kjölfarið yfirferð yfir Norður-Ameríku sem stóð allan febrúar og mars. Þá var Evrópa tekin með trompi en tónleikaferðinni lauk eftir 64 tónleika þann 18. maí í París. Meginuppistaða laga komu frá Station to Station og Diamond Dogs plötunum auk annara vinsælla laga. Bowie sem áður hafði gefið út yfirlýsingar þess efnis að hann ætlaði að hætta öllu tónleikabrölti svaraði blaðamanni NME því til að hann væri alls ekki að endurtaka sig í þessari ferð, hún væri ekkert framhald fyrri ferða hans. Það hefur átt sér stað ákveðinn þroski sagði Bowie og hann mun koma vel fram á þessu ferðalagi. Þetta er gert á allt öðrum forsemdum en áður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2011 | 22:00
David Bowie 18. hluti
The Man Who Fell To Earth
Í júní 1975 hófust tökur kvikmyndar Nicholas Roeg, The Man Who Fell To Earth eða Maðurinn sem féll til jarðar, en þar fór Bowie með aðalhlutverkið. Myndin sem byggð er á samnefndri skáldsögu frá 1936 eftir Walter Tevis þykir í meira lagi sýruleg.
Í stuttu máli, fjallar myndin um veru frá annarri plánetu, sem send er til jarðarinnar þeirra erinda að komast yfir aðferðir til að framleiða vatn. Á jarðarbrölti sínu kemst veran, sem leikinn er af David Bowie, í hendur illkvittinna manna, kynnist Bakkusi og er í framhaldi af því dæmd til jarðvistar um aldur og ævi.
Sagan segir að upphaflega hafi Bowie vænst þess að fá að semja tónlist við verkið The Man Who Fell To Earth en af því var þó ekki. Engu að síður hefur Bowie verið búinn að semja talsvert af lögum er tengdist efni myndarinnar sem hann síðar nýtti á sína næstu plötu Station to Station og jafnvel einni á Low. Þessum fullyrðingum til stuðnings skal bent á að báðar plöturnar bera mynd af Bowie á umslaginu þar sem hann er í hlutverki Jerome Newton en sá var sögupersóna myndarinnar um manninn sem féll til jarðar. Lagið Station To Station byrjar til dæmis á því að járnbrautarlest nálgast, en í byrjunaratriði myndarinnar gengur Bowie einmitt framhjá gamalli járnbrautarlest, sem síðar bregður oft fyrir seinna í myndinni. Lagið TVC15 hefur augljós sambönd við öll sjónvörpin sem Bowie hafði í hringum sig í myndinni og í laginu Wild Is The Wind syngur Bowie um Stranger in a strange land eða aðkomumaður í ókunnu landi. Fleiri tengsl má finna í lögum þessara platna Bowie við áðurnefnda mynd sem undirstrikar að efni myndarinnar hefur orðið honum brunnur til laga og textagerðar, en þessi upptalning látin duga að sinni.
Því má svo bæta við að síðar hefur komið fram í viðtölum við tengda aðila að Bowie hafi talið umboðsskrifstofu sína Main Man hafa klúðrað því að hann fékk ekki samning um tónlistarflutning myndarinnar.
Hluti myndarinnar um manninn sem féll til jarðar var tekin upp í Mexico. Eftir að tökum lauk dvaldi Bowie þar um tíma. þar sem hann reyndi að ná sönsum en sálarástand félagans var ekki burðugt þessa haustmánuði ársins 1976 og ekki bætti sívaxandi eiturlyfjaneysla úr skák, langvarandi ósamkomulag við Main Man útgáfufyrirtækið tók á taugarnar, ástarmálin voru í lausu lofti en þyngst vó sjúkleg hræðsla Bowie við fortíð bróður síns sem var orðinn alvarlega geðveikur á þessum tíma en Bowie hræddist sömu örlög.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2011 | 11:09
David Bowie 17. hluti
Young Americans var að megninu til hljóðrituð í Sigma Sound hljóðverinu í Philadelphia undir stjórn Tony Visconti á öndverðu árinu 1975 en hann hafði ekki starfað með Bowie sem upptökustjóri í hljóðveri frá því tökum plötunnar Man who sold the world, lauk. Meðal annara meðhjálpara Bowie voru gítarleikararnir Carlos Alomar, Earl Slick og John Lennon, bassaplokkararnir Emir Kassan og Willie Weeks auk trommaranna Dennis Davis og Andy Newmark, en allt voru þetta menn sem ekki höfðu starfað með David Bowie áður.
Þrátt fyrir að Lennon væri við upptökur á Young Americans er ekki þar með sagt að allir þeir er að plötunni komu hafi hitt hann í hljóðverinu. Earl Slick sem sem reyndar var skírður Frank Madeloni þegar hann fæddist á Steaten Island í New York, var gamall aðdáandi Lennons og átti síðar eftir að spila inn á sólóplötu Lennons Double Fantasy. Þegar hann var spurður hvort hann hefði ekki hitt Lennon fyrst við upptökur á þessari plötu Bowie svaraði hann.
Earl Slick: Nei hann kom á öðrum dögum inn í hljóðverið. Við lékum samt í sömu lögunum. Það fyndna við þetta er að þegar ég svo vann með Lennon að plötu hans Double Fantasy sór hann blint að hann þekkti mig frá Young American sessioninni. Sé minnið ekki að svíkja mig því meira vorum við aldrei í hljóðverinu á sama tíma við upptökur á Young Americans, ég held ég hefði ekki gleymt slíku.
Undirtónn plötunnar sem gefin var út hinn 7. mars 1975, er væg predikun Maóisma þar sem Bowie hvetur til róttækrar þjóðernisvakningar ungs fólks í Bandaríkjunum. Aðeins stöðugt byltingarástand heldur vörð gegn sinnuleysi og glappaskotum stjórnvalda segir Bowie, einskonar endurskoðunarstefna.
Í stórgóðu titillagi Young Americans vill Bowie ríkjandi stjórnkerfi burt, telur það rotið og nefnir sem dæmi þá nýafstaðið Watergatehneyksli. Í laginu töfrar Bowie horn og hala á fráfarandi forseta Bandaríkjanna, Richard Nixon og er hann gerður að persónugervingi lævísi og svika. Young Americans stendur sem ein grimmasta ádeiluplata Bowie á ferlinum, en hún er meira en það.
Tónlistarlega var Young Americans alger kúvending og gerólík öllu því sem Bowie hafði áður gert. Sjálfur lýsti hann tónlist plötunnar sem Plastic Soul. Platan opinberaði ólík stílbrögð soul tónlistarinnar, þar á meðal eitt fyrsta og að margra mati eitt besta diskólag poppsögunar; Fame. Bakraddasöngur sem hafði verið næsta fátíður á fyrri plötum Bowie er eitt að aðalsmerkjum Young Americans auk þess sem óvenju nosturlegur söngur meistarans setur sterkan svip á heildarmynd plötunnar.
Hrifning á sögu og menningu blökkumanna skín í gegn enda reyndist stór hluti tónlistarmanna er aðstoðuðu við gerð Young Americans vera blökkumenn.
Sem fyrr sagði mætast til samstarfs á skífunni tveir af jöfrum rokksins þeir John Lennon og David Bowie og naut sá síðarnefndi fulltingis Lennons í bítlalaginu Across The Universe auk þess sem þeir sömdu lagið Fame á aðeins 15 mínútum í stúdíóinu meðan á upptökum plötunnar stóð. Fame er eins og flestir vita sjálfsagt, einn feitasti smellur Bowie og er lagið fyrsta topplag hans í Bandaríkjunum.
Mánuði eftir frækilega göngu Fame í Bandaríkjunum var Space Oddity endurútgefið í Bretlandi og ekki var að spyrja að viðtökunum, lagið kleif vinsældalistann og linnti ekki látum fyrr en toppsætinu var náð.
Á einum mánuði hafði Bowie sem sagt eignast langþráð topplög á Englandi og í Bandaríkjunum, hans fyrstu á sjö ára ferli. Útgáfa topplaganna var þó ekki það eina sem úr smiðju kappans kom á seinni hluta ársins Tvöföld safnplata með bernskubrekum Bowie var útgefin og í nóvember kom lagið Golden Years í plötuverslanir en þar reyndist undanfari nýrrar LP plötu.
Afrekaskrá Bowie er síður en svo tæmd fyrir árið 1975 því í mars þetta ár kom kappinn fram í bandarískum sjónvarpsþætti ásamt söng- og leikkonunni Cher en saman sungu þau langa syrpu klassískra dægurlaga, syrpu sem innihélt meðal annarra Young Americans og Can You Hear Me en var að öðru leiti í hefðbundnum stíl með lögum eins og Do Run Run og fleirum. Mánuði eftir sjónvarpsævintýrið með Cher skelfdi Bowie aðdáendur sína með yfirlýsingu þess efnis að tónleikaferðir væru niðurdrepandi og skaðlegar allri tónlistarlegri listsköpun. Á öðrum stað tók hann dýpra í árinni og sagðist hreinlega hættur öllu tónlistarbrölti.
Hálfu ári síðar tilkynnti sami maður að í bígerð væri yfirgripsmesta hljómleikaferðalag hans til þessa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2011 | 20:44
David Bowie 6. hluti
Fyrstu sólóplöturnar
Rúmum tveimur mánuðum eftir útgáfu lagsins Cant Help Thinking About Me kom fyrsta sólósmáskífa David Bowie á markað og innihélt hún lagið Do Anything You Say. Einfalur ástaóður og þótti mörgum meira til B-hliðar plötunnar koma þar sem getur að heyra lagið Good Morning Girl. Og þó þar sé sungið til stúlkunnar einnig virðist meira púður í textanum. Reyndar var Bowie viðriðinn sveit sem kallaði sig The Buzz, er kom að gerð skífunnar sem og þeirrar næstu á eftir, auk óþekktra sessionleikara. En þar sem Bowie hafði þá þegar undirritað samning við Pye útgáfuna sem sólóisti var skífan alfarið skrifuð á hann, án þess að nafn sveitarinnar kæmi þar fram.
Útgáfu hverrar smáskífu fylgdi mikið strögl og fórnir og ekki bætti úr skák að þau lög sem hann hafði sent frá sér til þessa höfðu öll farið fyrir ofan garð og neðan hjá almenningi. Bowie var hinsvegar trúr köllun sinni og um svipað leyti og fyrsta sólólag hans var markaðssett bjó hann nánast í yfirgefinni sjúkrabifreið skammt frá Marquee klúbbnum þar sem hann átti ekki í önnur hús að vernda. En bifreiðin var og nýtt í að flytja menn og tæki milli tónleikastaða þegar verkefni af því tagi buðust.
Lagið Do Anything You Say markar upphaf einhvern glæsilegasta sólóferil er breska rokksagan hefur að geyma. Reyndar hafa síðar birst á mörkuðum ólöglegar plötur með efni sem sagt að sé hljóðritun á hljómsveitinni Buzz með Bowie í broddi fylkingar, en aðrir vilja halda því fram að þetta efni hafi ekkert með Bowie að gera, hann komi þar hvergi nálægt.
Í ágúst 1966 kom út önnur sólósmáskífa Bowie með laginu I Dig Everything og var hún líkt og sú fyrsta gefin út á merki Pye útgáfunnar. Í desember hafði Bowie hinsvegar skipt yfir á Deram og fyrsta dvergskífan hans á því merki var undanfari hans fyrstu breiðskífu og innihélt lögin Rubber Band og London Boys. Síðarnefnda lagið, sem að vísu kom ekki út á breiðskífunni, þykir í dag eitt það besta sem Bowie gerði fram að Space Oddity.
Texti lagsins þykir firna góður en hann fellur vel inn í tíðarandann við upphaf hippatímans og öðlaðist raunar nýtt líf þegar pönkbylgjan reið yfir.
Söguhetjan er sautján ára gamall dreifbýlingur sem móttekur ferska strauma frá borgum og bæjum, strauma frjálsræðis og tilrauna til að brjótast úr viðjum ríkjandi hefða. Hann heillast af þessari uppreisn æskunnar þar sem barist er með blómum og tónum og andinn er auðgaður með hinum torkennilegustu lyfjum. Hann vill ólmur og uppvægur verða þátttakandi að þessu öllu, strýkur að heiman og setur stefnuna á London. Er þangað kemur sekkur hann sér í lifnaðinn sem virtist svo spennandi heima í sveitinni. En það fer með þessa byltingu eins og aðrar sem gerðar eru af góðum hug, hún étur upp börnin sín.
FRAMHALD SÍÐAR...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2011 | 21:21
David Bowie 3. hluti
THE KING BEES
Árið 1964 bættust þeim David og Underwood liðsauki er þeir gengu til samstarfs við þrjá pilta, þá Roger Bluck gítarleikara, Dave Howard er lék á bassa og trommarann Bob Allan. Saman nefndu þeir sig The King Bees.
En nafngiftin var fengin frá lagi Slim Harpo, blússöngvara frá Louisiana, I´m A King Bee. Fáum sögum fer af sveitinni The King Bees utan spilamennsku og æfinga fram til apríl 1964 en þá taldi hún sig þurfa ný og betri hljóðfæri.
Til að fjármagna slík kaup notað David sömu aðferðina og við ameríska sendiráðið og forðum, hann skrifaði bréf.
Í þetta sinn til John nokkurs Blom, kaupsýslumanns sem þekktur varð af því að hafa byrjað með tvær hendur tómar en náð nokkuð langt í viðskiptalífi Lundúnaborgar með dirfsku sinni og hugviti við verslun á þvottavélum.
Í bréfi Davids var að því látið liggja að John Blom gæti orðið næsti Brian Epstein með The King Bees sem sína Bítla. John Blom, sem líkaði dirfska bréfsins, taldi sig hinsvegar ekkert vit hafa á popptónlistarbransanum að því einu undanskyldu að þekkja lítillega Leslie Conn sem verið hafði um tíma framkvæmdar stjóri Doris Day umboðsskrifstofunnar og sendi hann bréfið áfram til hans.
Eftir að Les Conn, eins og hann var alla jafnan nefndur, hafði heyrt sveitina spila í Marqee klúbbnum, ákvað að hann taka The King Bees upp á sína arma.
Fyrsta verkefnið sem Conn útvegaði sveitinni var að leika í brúðkaupsafmæli John Blom. Vægt til orða tekið hefur þetta ekki verið hans besta hugmynd, því sveitin náði ekki að flytja nema tvö lög áður en gestgjafinn stöðvaði leik hennar og réttast væri að segja að hann hafi ekki þolað hráa útfærslu á þeim frægu standurtum Got My Mojo Working og Hoochin Coochin Man.
Les Conn reyndi að gera gott úr uppákomunni og sagði að John Blom líkaði aldrei það sem unga fólkið væri að fást við. Hann sjálfur væri hinsvegar umboðsmaður sveitarinnar og fyrir sinn tilstuðlan yrði David stjarna í heimi popptónlistarinnar.
Fyrir hans tilstilli og slembilukku komst sveitin á samning hjá litlu dótturfyrirtæki Decca útgáfunnar, Vocalion Label þar sem sveitin hljóðritaði tvö lög og þann 5. júní 1964 komu út 3.500 eintök af smáskífu sem skráð var á Davie Jones with the King Bees og innihélt lögin Liza Jane og Loui Loui Go Home.
Fyrrnefnda lagið sem skráð er á umboðsmann sveitarinnar er í raun gamall negrasálmur. En ritstíll lagsins þykir minna mjög á það sem Rolling Stones var að gera á þessum tíma, flutt undir áhrifum Yardbyrds með kraftmiklum blásturshljóðfæra og gítarleik.
Síðara lagið á þessari skífu, Louie Louie Go Home, hafði náð talsverðum vinsældum ári áður í Bandaríkjunum, þá í flutningi Paul Revere And The Raiders.
Conn átti útgáfurétt þess í Bretlandi eftir að hafa keypt hann fyrir smápeninga. Lagið er ekki ýkja árangursríkt en engu að síður áhugavert þó ekki sé nema fyrir þær sakir einar að þar reynir David, með litlum árangri þó, að líkja eftir rödd John Lennon.
Frami sveitarinnar varð hálf endaslepptur því þrátt fyrir nokkra kynningu vakti áðurnefnd smáskífa litla athygli og örvæntingin sem greip meðlimi vegna þess reið sveitinni að fullu. Líftími hljómsveitarinnar er skráður frá nóvember 1963 fram til ágúst 1964.
FRAMHALD SÍÐAR ....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2011 | 16:58
David Bowie 2. hluti
Sú hét Kon-Rats og var skipuð auk Bowie, sem reyndar kom fram með sveitinni undir nafninu Dave Jay, þeim Neville Willis og Allan Dodds er sáu um gítarleik og Dave Crooks er sló trommur. Hljómsveitin Kon-Rats hafði það markmið eitt að æfa upp vinsælustu lögin hverju sinni, til að halda standart sem fersk danshljómsveit. Í ágústlok komst sveitin í áheyrnarpróf hjá Decca útgáfuni sem einfaldlega hafnaði sveitinni. Eftir þá uppákomu fór metnaðarleysi hljómsveitarmeðlima að fara í taugarnar á David. Hann vildi hljómsveitina úr hinum hallærislegu hljómsveitarbúningum, þá vildi hann nýtt og eggjandi nafn á sveitina og síðast en ekki síst vildi hann spila frumsamda rokk og blús tónlist. En þessar byltingarkenndu hugmyndir fengu heldur daprar viðtökur innan sveitarinnar og er David sá hvað verða vildi yfirgaf hann ládeyðuna. Enda tók hann tónlistina alvarlega og hafði reyndar hafið nám í saxófónsleik skömmu áður. Til áréttingar má bæta því við að sveitin var stofnuð í janúar 1962 og starfaði Bowie með sveitinni frá þeim tíma. Hann og Alan Dodds léku með sveitinni í síðasta sinn í Justin Hall í West Wickham 31.desember 1963. Sveitin starfaði eftir það fram að 1969 í breyttri mynd og gaf út eina smáskífu.
David Bowie: Einn uppáhalds saxófónleikarinn minn á þessum tíma var Ronny Ross. Þar sem ég taldi mig þurfa á leiðsögn að halda fletti ég honum upp í símaskránni, hringdi og spurði hvort hann vildi taka mig í tíma. Mér til mikillar furðu svaraði hann játandi og ég fór. Fyrsta tímanum eyddi hann svo í að tuðast á hvað ég væri hræðilega lélegur og að ég þyrfti að byrja að læra upp á nýtt frá grunni, en þó var ég búinn að spila á saxófón í þrjú ár og þóttist nokkuð góður.
Eftir að hafa slitið samstarfi við Kon-Rats hóf Bowie að kom fram ásamt félaga sínum George Underwood, sem reyndar hafi um tíma leikið með honum í Kon-Rats, og trommara er nefndur var Viv undir nafninu The Hokker Brothers, þá komu þeir og fram sem Daves Reds and Blues. Jafnframt hóf Bowie störf sem auglýsingateiknari um líkt leiti, en gegndi því starfi stutt.
FRAMHALD SÍÐAR....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2010 | 20:50
Já þetta vissi ég ekki
Uppsagnir og rúmum fækkað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)