Hver vill byggja hvað?

Þjóðin er á haus því nú segja fjölmiðlar okkur svo frá að Landsbankinn vilji reisa sér nýjar höfuðstöðvar í miðborginni. Menn fussa og sveia.

Ég ætla að fullyrða hér og nú að Landsbankinn hefur ekkert með þetta að gera. Heldur þeir sem stjórna Landsbankanum. Hver stjórna Landsbankanum?

Líklega er það sá sem á bankann, eða hvað?

Er ekki kominn tími á að sá aðili sem stendur fyrir því að bankinn reisi sér höfuðstöðvar stígi fram í dagsljósið og skýri út ástæður þess að bankinn ætli að láta landsmenn greiða miljarði í nýjar höfuðstöðvar.


Samvinnufélagið mitt

Við sem eldri erum munum flest eftir kaupfélögunum allt í kringum landið, Samvinnufélögum eins og Sambandinu eða SÍS eins og það var kallað. Nú segja flesti; Já þetta form gekk ekki upp. Jú það gerði það og gerir enn. Meira að segja þeir sem segja að einstaklingsframtakið sé það form sem skipti mestu og eigi að hampa hvað mest eiga nú samt sinn hlut í stærsta samvinnufélagi landsins og eru jafnvel á launaskrá hjá þessu samvinnufélagi.  Já ég er auðvitað að tala um RÍKIÐ, Samvinnufélagið Ísland.

 

Já þetta er samvinnufélag sem við eigum öll jafnan hlut í. Stóra spurningin þín er hvort þú villt taka þátt í starfi þess, efla það og þannig stuðla að betri afkomu félagsins sem um leið hefur áhrif á alla hluthafana eða standa og tala niður hlutabréfið þitt í félaginu og reyna að skemma það með þeim afleiðingum að allir líði fyrir.

 

Mér finnst kominn tími á að við förum að sinna þessu félagi að heilindum sem heild En ekki eingöngu að efla þá deild sem við eru stödd í hverju sinni á kostnað annarra deila samvinnufélagsins. Við hættum að stela og ræna fjármunum úr sameiginlegum sjóðum félagsmanna og teljum það bara í lagi. 

Hættum að horfa á samvinnufélagið sem einhvern ímyndaðann óvin sem hrauna má yfir í tíma og ótíma og stöðugt tala niður, hvort heldur er á samfélagsmiðlum eða annars staðar.

Hugsum þetta út frá hvað sé best fyrir heildina og fjöldann. Þannig mun líka einstaklingurinn þrífast hvað best, þannig skapast betri skilyrði fyrir bættri afkomu allra hluthafanna. Við veljum okkur nýja stjórn þessa félags á fjögurra ára fresti. Henni er ætlað að stuðla að aukinni hagsæld félagsins alls en ekki eingöngu einstökum deildum eða hluthöfum.

 

Áfram ÍSLAND


Verður maður hrokafullur í öðru landi?

Ég hef tekið eftir að fólk sem tekið hefur þá ákvörðun að segja skilið við Ísland og reyna fyrir sér í öðru landi vegna hrunsins virðist sumt eiga afskaplega auðvelt með að sitja núna og gagnrýna landa sína sem eftir eru heima. Stadusar þeirra á facebook til að mynda hafa breyst frá því að vera að hnýta í stjórnvöld og lánastofnanir sem þeir skulduðu (í flestum tilfellum) í að nánast drulla yfir þá sem ennþá búa hér á Íslandi og eru að borga skuldir sínar. Í besta falli gera lítið úr því fólki sem enn býr hér og hefur jafnvel tekið meðvitaða ákvörðun um að hér vilji það búa. Þetta brottflutta fólk ber sér á brjóst og talar um að lífið í útlandinu sé svo mikið betra og eftir sitji hér heima aðeins aumingjar og hálfvitar sem hafi ekki vit á að hætta að greiða skuldir sínar og koma út í dásemdir útlandsins.

 

Í minni æsku þóttu það nú ekki fínir pappírar sem ekki greiddu skuldir sínar og enn síður þóttu þeir góðir sem létu aðra gera það.

 

En ég er afskaplega þakklátur þeim sem flúið hafa landið eftir að hafa hætt að greiða skuldir sínar. Því meðaltal þeirra sem takast á við vandann í stað þess að flýja af hólmi hefur batnað með brottför þessa fólks. Það hefur margur aulinn flúið þetta sker, sumir jafnvel skriðið heim aftur með skottið milli lappana.

 

Ég vil minna menn á að menn stækka ekkert þó þeir búi í öðru landi og talið niður til landa þinna.


Hver þarf á framhaldsþáttum sjónvarpsstöðvanna að halda?

Ég er farinn að hallast að því að sjónvarpsstöðvarnar séu komnar í mikla og harða samkeppni hvað sápuóperur og framhaldsþætti varðar. Samkeppnisaðilinn eru íslenskir fréttamiðlar.

Síðustu daga hafa landsmenn  fengið  uppfærðar fréttir frá einni mínútu til þeirrar næstu um málefni eins og það að veikur þingmaður hafi kastað upp í flugvél WOW air og það er orðið hápólitískt mál þar sem fólk á borð við Vilhjálm Bjarnason og Birgittu Jóns hafa dregist inn í atburðarásina, Sá fyrrnefndi var staðinn að því að vera tvísaga og sagðist aldrei ætla að tala aftur við DV, auk þess sem flugfreyja og farþegi sem í vélinni voru komu við sögu í málinu sem er langt í frá lokið, Neyðarfundur hjá WOW air vegna málsins, Yfirlýsingar um veikindi mannsins og ekki veikindi mannsins og þjóðin er öll ýmist á hvolfi yfir þessu eða ekki og líklega sundruð í fleiri en tvær fylkingar. Spurning um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna málsins. Ég hallast helst að því að maðurinn hafi verið veikur, hvort sem það var að völdum áfengis eða magabólgu. Spurning hvort heilbrigðiskerfið sé í stakk búið til að kveða upp úrskurð um það. Og ég vona að læknastéttin komi að málinu.

Nú það eru fleiri sápur í gangi. Halldór Braga tónlistarmaður er í aðal hlutverki í hörku spennandi löggureyfara þar sem lögga og ólöglegur eða löglegur en siðlaus rútuakstur er stórglæpamál sem síðar breyttist í hvort löggan á staðnum hafi framið glæp á Halldóri með að banna honum upptöku og gerst svo ósvífin að spyrja að nafni. Nú Yfirmenn hjá löggunni báðu svo Halldór afsökunar og þá urðu löggumennirnir alverg sjóðandi og nú er einhver búinn að hringja í persónuvernd. Líklega eru 3-4 þættir efir af þessari sápu.

Ég er að hugsa um að segja upp Stöð tvö og RÚV má leggja niður DV, Vísir og Pressan og allir hinir fjölmiðlarnir eru með þvílík SKÚBB að ég tek ekki eftir að það logi allt í verkföllum í landinu, eða byggt verði eiturverksmiðja við Hvalfjörð eða makríll kvóti gefinn. Þetta er svo spennandi


Er eitthvað nauðsynlegt að fara að lögum

Þegar Reykjavíkurborg fór í að  farga eftirlíkingum af Le Corbusier-húsgögnum sem hún hafði keypt í góðri trú um að væri ekta risu einhverir aðilar upp til að mótmæla.

Fannst þeim illa varið með verðmæti og fram kom með afgerandi hætti að Pýratar væri þessu mótfallnir. Alla vega kom þetta skýrt fram í fréttum annarri stóru sjónvarpsstöðvarinnar.

Þessi mótmæli Pýrata vöktu svo sem ekki upp neinar spurningar í mínum huga, en staðfestu það sem ég taldi mig vita. Það er að Pýratar styðji þjófnað.  Skiptir engu hvort það er tónlist á netinu ( og eru þá orða hnippingar Bubba og Pýrata þingmannsins en í minni) eða hönnun húsgagna.

Nú segja sumir Nei þetta voru bara heil húsgögn og alger sóun að farga þeim.

Mitt mat er: Að sjálfsögðu átti að farga þeim. Þetta var ólögleg framleiðsla, þjófnaður á hönnun og einkarétti, fyrir utan vörusvikin þegar Borgin keypti húsgögnin í þeirri trú að um ekta vöru og hönnun væri að ræða.

Nei kannski vilja einhverjir samt nota þessi húsgöng því það var jú búið að framleiða þau. Einhverjir komu fram í fjölmiðlum með hugmyndir á borð við að selja þetta efnaminna fólki og var t.d. Góði Hirðirinn nefndur á Stöð 2. í þessu sambandi.

 En hvað með manninn sem var tekinn með þennan fína landa  í síðustu viku. Merktur sem Smirinoff Vodka. 

Spurning hvort yfirvöld eigi nokkuð að vera að farga svona fínum vínanda, skella þessu bara í sölu í kolaportinu fyrir þá sem ekki hafa efni á alvöru Vodka.

Alla vega að leyfa einhverjum að njóta hans eða var það ekki inntaka með mótmælum á ólöglegu húsgögnunum.

Svo stel ég kannski líka eins og einu lagi af netinu í dag til að hlusta á meðan ég drekk landann úr kolaportinu í sófanum sem ég fékk í Góða Hirðinum að því að Pýratarnir vildu ekki henda ólöglegum húsgögnum frá Borginni. Með skilaboðin að lög séu óþarfi.

Ég er núna að skilja því Pýratar taka ekki þátt í atkvæðagreiðslum á þinginu. Þeir vilja ekki setja lög bara brjóta þau. Þetta er flokkurinn sem er að ná hvað mestu fylgi þessa daganna.

Ég veit ekki en mér finnst eitthvað rosalega rangt við þessa nálgun á málunum.

 


Bráðabyrðarskoðun

Ég held að flestir landsmenn vilji að hér sé fjölmenningarsamfélag, hér ríki algert trúfrelsi, hér fái hver að gera það sem hann vill svo fremi hann skaði ekki aðra, að öllum sé heimilt að tjá það sem þeim býr í brjósti. Skoðunum skal ekki troðið upp á menn. Virða skuli rétt til friðhelgi einkalífsins og svo skuli menn hafa jafnan aðgang að öllu og þá ekki síst að allir skuli jafnir fyrir lögum.

- Falleg veröld og fyrirmyndarríkið Ísland. Ég veit ekki um neinn sem vill þetta öðruvísi.

En því miður er ég að komast á þá skoðun að stór hluti landsanna séu svolitlir hræsnarar í eðli sínu, og tvöfaldir í roðinu svo ekki sé meira sagt. Greindarvísitalan er líklega eitthvað undir meðallagi hjá fleirum en ég taldi. Sumir hafa ekki bolmagn eða vitsmuni til að þegja þegar það á við. Á hverju byggi ég þessa skoðun mína? Jú, auðvitað á kommentakerfum fjölmiðlanna og samfélagsmiðlanna.

Nokkur stór hluti þeirra sem hafa þessar fallegu skoðanir sem þeir gjarnar eru nú ósparir á að lýsa yfir bæði beðnir og óbeðnir setjast svo við tölvuna sína og æla út úr sér óhróðrinum í garð náungans ef hann slysast til að vera annarrar skoðunar á einhverju. Í stórum hluta tilfella hafa þeir sem tjá skoðanir með orðum eins og „fáviti“, helvítis fífl“ og „aumingi“ aldrei skoðað nema eina hlið teningsins og eru oft á tíðum að afgreiða málin án þess að hafa hugmynd um hvað málið snýst. 

Öll fallegur fyrirheitin um opið og jákvætt samfélag er hent út um gluggann og menn jafnvel hóta líkamsmeiðingum vegna þess að einhver er ekki sammála þeim í dægurþrasinu.

Ég er svolítið uggandi um sálarástand viðkomandi manna. Það er eitthvað að í lífi þeirra að ég held.

Málefnaleg umræða er afar sjaldgæf á kommentakerfum fjölmiðlanna svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Ég er farinn að horfa á umsagnir  manna sem umsögn um þá sjálfa frekar en málefnið. Það er orðið óralangt síðan að athugasemd við frétt eða umfjöllun fékk mig til að skipta um skoðun á viðkomandi máli. Tel ég mig þó oft opinn fyrir því þar sem ég hef ekki alltaf lesið mér nægilega til um málefnið til að mynda mér einlæga skoðun á því, Má segja að ég sé oft með einskonar bráðabyrðarskoðun á málefninu. Svo koma athugasemdir svona eins og  „Fáviti“, „Fífl“ og „Ræfill“ Ekki hjálpa þau kommet mér mikið nema til að mynda mér skoðun nema þá helst á þeim sem skrifar ummælin.


Hvaða leið velur þú?

Það var á fyrstu árum mínum sem leigubílstjóri að ég ók nokkuð oft sömu konunni úr Vesturbæ Reykjavíkur upp í Sóltún. Í hver sinn sem gamla konan settist upp í bílinn hjá mér hófust samskipi okkar svona:

Ég: - Góðan daginn

Gamla konan: - Góðan daginn bílstjóri, Ég ætla að fara í Sóltún 2 og viltu vera svo vænn að aka meðfram sjónum.

Ég: - Já alveg sjálfsagt

Þegar þetta hafði átt sér stað í nokkur skipti áræddi ég einn daginn að spyrja hana því hún bæði mig ávalt að fara meðfram sjónum sem væri líklega örlítið lengri leið, þó ekki munaði það svo sem miklu.

Þá kom þetta yndislega svar sem mér finnst enn í dag ná langt út fyrir það að aka leigubíl

Þegar þú hefur um tvær svipaðar leiðir að velja í lífinu mundu þá að velja fallegri leiðina


Ein sjoppa, engin samkeppni

Plötuverslanir eru að hverfa og líkurnar á að CD útgáfuformið sé að líða undir lok aukast með degi hverjum.  Líklega ypptum við bara öxlum og segjum að þetta sé tæknin og þróun sem við fáum ekki stöðvað. Sem er svolítið skrítið því við (mannfólkið) bjuggum jú þessa tækni og þróun til. Erum við að segja að það sem við búum til taki svo bara völdin og ráði framhaldinu og við fáum ekkert við því gert?. Getur verið að við notum þetta sem afsökun fyrir sinnuleysinu?

Horfum á íslenskan plötumarkað sem er mér svolítið hugleikinn þessa daganna. Bubbi Morthens, sem er líklega einn afkasta mesti tónlistarmaður landsins þegar að útgáfu kemur er nánast stopp. Sumpart hafa vinsældir hans kannski dvínað en plötusala á CD er farin. Hann segir menn stela tónlist sinni. Aðrir tónlistarmenn hafa sagst fá lítið sem ekkert af rafrænni sölu sinnar tónlistar. Ég giska á að innan 5 ára verði menn nánast hættir að gefa út plötur á CD. Þá liggur fyrir að aðeins verður um stafræna útgáfu að ræða.

Hvar stöndum við þá, tónlistarmenn og neytendur, og hver sér um smásölu tónlistar?

Hvar er tónlist aðgengileg í stafrænu formi með löglegum hætti í dag? Það er bara ein sjoppa í táninu. Tónlist.is

Góðan daginn og takk fyrir sælir.

Ekki það að ég sé eitthvað á móti vefsvæðinu sem slíku en minnumst þess að eitt helsta útgáfufyrirtæki landsins á svæðið. Þetta þýðir og segir okkur að fyrr en síðar verða ALLIR íslenskir tónlistarmenn sem vilja fá tekjur af útgáfu sinni háðir þessu fyrirtæki og allir notendur íslenskrar tónlistar háðir þessu fyrirtæki.

Ein sjoppa - engin samkeppni

Þetta er umhugsunarefni.


Markaður í molum

Hljómplatan er dáin. Hljómtæki eru nánast fágæt tæki á heimilum. Ekki er lengur gert ráð fyrir CD í tölvum nútimans. Plötuverslanir eru að hverfa. allt er þetta á einhverri vegferð sem fæstir skilja og menn fárast yfir annan daginn en leifa þessu þó öllu að gerjast án þess að spyrna við fótum og menn gerast jafnvel meðvirkir

Bubbi hættur að taka upp til plötuútgáfu, "því menn stela bara tónlistinni minni" segir hann og ætlað svo að kjósa Pírata næst?

Hagræðing segja útgefendur sem ráku plötuverslanirnar þegar þær eru seldar. Og nýir eigendur segja að fólk sé hætt að kaupa geisladiska og plötur en tala þó í hinu orðinu um stóra aukningu á sölu vínylplatna sem þegar að er gáð aðeins um nokkra tugi manna að ræða sem kaupi enn það útgáfuform og svo loka kaupmenn búðunum til að stöðva tapreksturinn?

Kaupendur kvarta engar plötubúðir og finna ekki plöturnar með Bubba sem þeim lagar í nema þá helst á netinu og þá er betra að taka hana frítt af einhverri sjóræningjasíðu en versla hana löglega á einhverri veitunni og greiða stórfé fyrir, enda skilar það engu til tónlistarmannsins. segja þeir og samþykkja þó að tónlistin þeirra sé þarna inni því það er orðinn eini opni söluglugginn?

Útgáfufyrirtæki vilja þó áfram sinna smásölu og segjast bera hag tónlistarmanna fyrir brjósti og koma vörunni til neytenda. Til þess annast þeir  netsölusvæði sem gefur tónlistarmönnum ekkert í vasann. Milli þess sem þau undirrita samninga  við erlendar tónlistaveitur um sölu á íslenskri tónlist þar sem enginn fær neitt nema netsvæðið kannski í auglýsingartekjum?

Þessi veröld er ótrúlega skrítin. Manni finnst stundum að menn geri fátt annað en bíta í hvers manns skott og sagan af Litlu gulu hænunni hefur gengið í endurnýjun lífdaga er orðin epískri grátsögu hljómplötunnar sem er í raun dáin þó jarðarförin hafi ekki enn farið fram?

Unga kynslóðin elst upp við MP3 og heldur að það sé það flottasta sem völ er á svo lengi sem það er Apple?

Niðurstaðan er að tónlistin lifir!

Með tilkomu tölvunnar hefur geymsluformið jafnvel batnað!

Miðlunarformatið sem menn fundu til að skapa verðmæti og koma tónlistinni frá tónlistarmanninum til hlustandans þar sem tónlistarmaðurinn gat lifað á afurð sinni er aftur á móti komið á líknardeildina og spurning hvenær andlátið verður staðfest?

 

 


Íslenski plötulistinn 40 vika árs

Það sem af er þessu ári hafa 15 plötur náð því að setjast í 1. sæti Tónlistans. Eins og svo oft áður nýtur söluhæsta plata síðasta árs góðs af velgengni sinni og á flestar vikur ársins á eftir. Á þessu ári er það plata Ásgeirs Trausta - Dýrð í dauðaþögn sem setið hefur 11 vikur í 1. sæti listans það sem af er árinu 2013. Safnplatan This Is Icelandic Indie Music er í 2. sæti og líklega eru það erlendir ferðamenn sem náðu að halda henni í toppsætinu í heilar 7 vikur. Sigur Rós vermir þriðja sætið með 5 vikur en aðrar hafa aðeins náð einni til tveim vikum En listinn lítur svona út:

11  Dýrð í dauðaþögn - Ásgeir Trausti
7   This Is Icelandic Indie Music - Ýmsir
5   Kveikur - Sigur Rós
2   Söngvakeppnin 2013 - Ýmsir
2   Pale Green Ghosts - John Grant
2   Tíminn fýgur áfram - Ýmsir
2   Eurovision Song Contest 2013: Malmö - Ýmsir
2   Pottétt 60 - Ýmsir
2   Tookah - Emilíana Torrini
1   Retro Stefson - Retro Stefson
1   Flame And Wind - St.Petersburg Cello Ensemble
1   Stormurinn - Bubbi
1   Út á sjó - KK & Maggi Eiríks
1   Þorparinn - Pálmi Gunnarsson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband