8.1.2011 | 05:15
David Bowie 9. hluti
Man Of Word Man Of Music - Space Oddity
Þremur mánuðum eftir útkomu Space Oddity gaf Bowie út breiðskífu sem upphaflega kom út í Bandaríkjunum undir heitinu Man Of Words Man Of Music en í Bretlandi bar hún einfaldlega nafn flytjandans, en var síðar skírð eftir smellnum Space Oddity er hún var endurútgefin árið 1972.
Platan var nokkuð sundurlaus, einskonar bræðingur gamals og nýs tíma og jafnframt vitnisburður um leit Bowie að persónulegum stíl. Til marks um þetta er til að mynda annarsvegar lagið God Knows Im Good, sem minnir talsvert á fyrri verk hans og hinsvegar lag sem áður hafði komið út á bakhlið smáskífunnar Space Oddity, The Wild Eyed Boy From Freecloud, þar sem Bowie lætur þá skoðun sína í ljós að trygglyndi fái maður borgað. Texti lagsins segir í stuttu máli frá pilti nokkrum sem gerist sekur um það eitt að elska fjöllin fyrir ofan þorpið sitt. Íbúar þorpsins telja pilt svo bilaðan á geði að hann verði að aflífa með hengingu til að kom í veg fyrir útbreiðslu slíkra tilfinninga. En fjöllin vernda piltinn og eyða þorpinu.
Unwashed And Somewhat Slightly Dezed, sem þýða mætti á íslensku sem Gróf og svolítil smávægileg röskun, en Bowie segir innihald textans lýsingu á því hvernig sér hafi liðið í kjölfar þess að faðir hans, John Jones lést.
Þjóðalagakeimurinn er enn áberandi í nokkrum laga plötunnar og yfirbragðið er mjög hófstillt, ekki síst vegna silkimjúkra en lítt frumlegra útsetninga. Tvö lög standa þó upp úr auk Space Oddity. Annað þeirra er Cygnet Committee; saga um ofurmenni á niðurleið en þeim þema fylgdi Bowie næstu árin. Þriðja lagið var svo Memory Of Free Festival sem er hreinræktuð afurð hippatímans.
Woodstock hátíðin var nýlega yfirstaðin og margir töldu hana uppsprettu texta Bowie, en svo var þó ekki. Því lagið vísaði til tónlistarhátíðar er Bowie skipulagði í tengslum við Beckenham Arts Labs, fyrrnefnt listagallerí í Suður London sem Bowie hafði sett á stofn.
Bowie kom fram á tónleikum með hljómsveitunum Humple Pie, Hermann Hermits og Troogs í tengslum við útgáfu breiðskífunnar en þrátt fyrir það og vinsældir lagsins Space Oddity fékk platan slæmar viðtökur gagnrýnenda sem og hins almenna borgara. Bowie varð fyrir miklum vonbrigðum og hugðist um tíma snúa sér alfarið að starfsemi fyrrnefnds gallerís þar sem hann vann að samruna leiklistar og tónlistar. Eftir miklar fortölur tókst umboðsmönnum hans þó að telja í hann kjark til frekari fórna fyrir tónlistargyðjuna.
Þann 20. mars 1970 giftist Bowie bandarískri fyrirsætu, Mary Angelia Barnett sem hann hafði kynnst á fréttamannafundi árinu áður þar sem verið var að kynna hljómsveitina King Crimson. Hú hafði Rúmlega ári síðar fæddist þeim hjónum sonur og var hann af makalausri hugmyndaauðgi skýrður Duncan Zowie Haywood Jones.
En Angela átti eftir að eiga sinn þátt í mótun Bowie næstu árin, Þó ekki hvað sjálfa tónlistina sjálfa, heldur fyrst og fremst útlitslega séð. Þó má greina í nokkrum laga hans síðar að stormasamt hjónaband þeirra hafi á stundum reynt á þorlimæðina, enda öllum gildur hjónabandsins kastað fyrir borð í endalausum augnablikum við að upplifa það frelsi sem þessi tími bar með sér og ekki síst innan rokkheimsins. Þar var ekkert heilagt og tími tilrauna í eiturlyfjum og kynlífi á hraðferð augnabliksins þar sem ekkert var heilagt og öllum gildum fyrri kynslóða var kastað á eld fortíðarinnar. Enn og aftur sannaðist þar kenningin hvað best "að byltingin étur oftast börnin sín"
FRAMHALD SÍÐAR...
Tónlist | Breytt 10.1.2011 kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2011 | 05:41
David Bowie 8. hluti
Space Oddity
David Bowie hafði nú starfað í ein sex ár sem tónlistarmaður með hliðarsporum í kvikmynda og látbragðsleik, hann hafði starfað með einum sjö sveitum, og að baki lágu í bunkum 10 fáseldir smáskífutitlar auk einnar breiðskífu og útrunnir eða riftir útgáfusamningar við ein fjögur plötufyrirtæki. Með sinn annan umboðsmann á ferlinum gilti það einu hversu víða hann reyndi fyrir sér innan raða mannlegrar listsköpunar, viðtökurnar voru alltaf jafn fálátar.
Það sá þó fyrir endann á þessum mögru árum því þann 20. júní 1969 náði Bowie samningi við Mercury Philips útgáfuna og þann 11. júlí sama ár kom á markað smáskífa með því lagi sem kom David Bowie loks á framfæri - Space Oddity.
Saga þessa lags er um margt merkileg. Bowie sem var að undirbúa og velja efni á breiðskífu ætlaði laginu að fara inn en upptökustjórinn Tony Visconti líkaði ekki lagið.
Tony Visconti: Space Oddity hafði verið hljóðritað fyrir myndina Lover You Till Tuesday en ekki gefið út á þessum tíma. Ég man þegar ég heyrði lagið fyrst. Við vorum að setja saman plötu, blandaða af léttu rokki og trúbador. Þar á meðal lög eins og Janine, Unwashed And Slightly Dazed ásamt fleiri lögum. Nú, ég þekki David, hann er mjög sannfærandi, allar breytingar hans eru mjög ekta, eins melódíurnar. Space Oddity, lag um mann sem lendir á tunglinu. Sem ég, að ég held, hefði kvatt hann til að semja um, engin spurning um það. Here am I sitting in a tin can hljómar næstum eins og Simon And Garfunkel plata en rest lagsins eins og frá allt öðru. Í dag væri viðhorf mitt sennilega opnara og ég segði: Vel gert David. En í þá daga var mér sama, ég gerði einungis það sem mér fannst rétt. Gus Dudgeon sem unnið hafði með mér áður í nokkrum Deram upptökum hafði sagt að hann vildi vinna með David. Svo hér var tækifærið og ég kom þeim saman.
Gus Dudgeon: Ég sat á skrifstofunni minn þegar innanhússíminn hringdi. Það var Tony Visconti sem hafði skrifstofu ofar í húsinu: - Ég er hér með gamlan vin þinn hérna hjá mér, David Bowie, sagði hann, Við erum að tala um að gera albúm saman en hann er með lag sem mér líkar ekki, en þér gæti líkað það. Viltu heyra það.
- Auðvitað, svaraði ég. Bowie kom síðan niður og setti demóupptökuna í tækið mitt og lagið hreinlega feykti sokkunum af mér. Ég hringdi í Tony til baka og sagði: - Þér getur ekki verið alvara með að vilja ekki hljóðrita þetta lag. - Mér líkar það bara ekki, svaraði hann.
Því varð úr að Gus Dudgeon stjórnaði upptökum fyrsta lagsins sem gerði David Bowie ódauðlegan í Breskri rokksögu. Tony Visconti er hinsvegar enn sömu skoðunar varðandi þennan fyrsta smell David Bowie.
Lagið Space Oddity var samið undir sterkum áhrifum frá kvikmynd Stanley Kubrick, 2001 A Space Oddessey En innblástur handritsins hafði höfundur myndarinnar fengið eftir lestur bókar Arthur C. Clarke, The Sentinel. Lagið Space Oddity var reyndar síðar notað sem kynningarlag breska sjónvarpsins um þann sögulega atburð er maðurinn steig fyrst fæti á tunglið. En Space Oddity er fjarri því að vera óður til ævintýramennsku eða tækniþróunar mannskepnunnar.
Megininntak textans er firring í sinni tærustu mynd. Geimfarinn Major Tom lendir á tunglinu, en uppgötvar mitt í auðninni að hann hefur enga löngun til að snúa aftur til jarðar. Lagið vakti mikla athygli í Bretlandi og náði fimmta sæti vinsældalistans. Lagið er enn í dag eitt af merkustu verkum Bowie og langlífi þess má merkja af því að heilum sex árum eftir útkomu rauk það skyndilega upp breska listann og færði Bowie hans fyrsta topplag þar í landi.
David Bowie: Ég leit á Major Tom sem mann er hélt að hann væri ósköp venjulegur náungi en lenti í vægast sagt óvenjulegum kringumstæðum sem hann réði ekki fram úr og ollu því að hann ákvað að segja endanlega skilið við eigin plánetu. Þetta er innihald textans og frá mínum bæjardyrum séð var það hans eigin ákvörðun að snúa ekki aftur til jarðar, ekki einhver bilun í tækjabúnaði.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2011 | 00:37
David Bowie 7. hluti
David Bowie (1967)
Í apríl 1967 var útgefin annar undanfari fyrstu breiðskífu David Bowie og var þar á ferðinni hin undarlega lagasmíð Laughing Gnome. Lagið sem frekar er í ætt við Harald og Skríplana en David Bowie fékk hræðilega útreið í dómum poppskríbenta. Þó virtist almenningi falla það betur í geð þar sem söngurinn seldist það í 250.000 eintökum er skífan var endurútgefinn árið 1973 og komst þá í fjórða sæti breska vinsældalistans.
Lagið á B-hlið skífunnar var The Gospel According To Tony Day. Hvorugt þessara laga var þó að finna á breiðskífunni sjálfri er hún kom út 2. júní 1967. Og má þess geta í framhjáhlaupi að þann sama dag sendu Bítlarnir frá sér plötuna Sgt. Peppers Lonely Hearts Club Band.
Eitt af því sem telja verður sérstakt við þessa fyrstu sólóbreiðskífu Bowie er að með útgáfu hennar varð hann fyrstur breskra poppara til að fá útgefna breiðskífu án þess að hafa átt lag á topp 10 vinsældalistanum breska áður.
En slíkt var í þá daga talið frumskilyrði þess að fá útgefna LP plötu. Platan sem einfaldlega hét David Bowie innihélt tólf misjafnar lagasmíðar, allar eftir hann sjálfan og vekur athygli hve margar þeirra vísa beint til æskuára kappans.
Lög eins og When I Live My Dream, There Is A Happy Land og Come And Buy My Toys opinbera öll vissan söknuð eftir hamingjusamri barnsæsku sem hann aldrei fékk notið.
Á þessum árum urðu til nokkrar upptökur með Bowie sem ekki höfðu fengið inni á plötum, eins og oft vill verða. Ein fjögur slík lög voru síðar valin á safnplötuna The World of David Bowie sem kom út árið 1970. Tvö þessara laga þykja standa upp út; Let Me Sleep Beside You og Karma Man. Fyrrnefnda lagið er um konu á miðjum aldri sem leitar í angist sinni ástar og tilbúin að þiggja hana hvaðan sem er. Síðara lagið opinberaði áhuga Bowie á Búddatrú. Skömmu eftir útkomu sóló breiðskífunnar var eins og Bowie yrði afhuga tónlistinni því næsta eina og hálfa árinu eyddi hann í ýmis áhugamál sem lítt tengdust tónlist.
Hann eyddi til að mynda nokkrum vikum í búddaklaustri í Skotlandi, hann málaði mikið og setti reyndar upp eigið listagallerí í Kent, þar sem hann hugðist blanda saman hinum ýmsu ólíku listformum, hann lék í ódýrum íspinnaauglýsingum og síðast en ekki síst lærði hann látbragðsleik og dans hjá hinum þekkta Lindsey Kemp.
Reyndar náði Bowie nokkurri færni í látbragðsleik og hélt hann sýningar í nokkrum stórborgum Englands.
Fljótlega eftir að Bowie hóf að stunda látbragðsleik kynntist hann stúlku að nafni Hermione Farthingale og saman í félagi við John Hutchinson mynduðu þau fjöllistahópinn Feathers. Reyndar kallaði hópurinn sig í upphafi Turquoise og tók það nafn af verkinu Pierrot in Turquoise sem samið hafði verið af læriföðurnum Lindsey Kemp. Hópurinn skipti þó nafninu fljótlega út og nefndi sig Feathers eins og áður segir.
Síðla árs lék Bowie ásamt Feathers í kvikmynd Kenneth Pitt; Love You Till Tuesday, en fyrir þá mynd samdi hann einmitt meistaraverkið Space Oddity og var demo hljóðritun gerð fyrir myndina þann 2. febrúar 1969. Í þeirri útgáfu lagsins syngur John Hutchinson aðalrödd. Myndin var ætlað að sýna hæfileika Bowie á hinum ýmsu ólíku sviðum lista en ráðamenn BBC, sem annars leist vel á ræmuna, töldu af og frá að taka hana til sýningar þar sem aðalleikarinn væri svo til óþekktur. Þessi undarlega afstaða var þess valdandi að myndin lá ósýnd í rúm þrettán ár uns hún fékk uppreisn æru og var gefin út á myndbandi fyrir almennan markað.
Bowie sem gert hafði ákveðnar væntingar og áætlanir varðandi samstarf sitt við John Hutchinson varð fyrir miklum vonbrigðum þegar Hutchinson ákvað að yfirgefa hópinn aðeins fáum dögum eftir að tökum á myndinni lauk, enda lítil innkoma fyrir óþekktan fjöllistahóp sem varð að vinna alla forvinnu og berjast fyrir svo til hverri uppákomu sem þeir nældu í. Ekki verður hjá því komist að taka undir þær kenningar sem virðast liggja ljósar fyrir að samband Bowie við Lindsey Kemp hafi átt stóran þátt í mótun stíls og hugmyndafræði sem síðar átti eftir að gera nafn Bowie ódauðlegt í sögu breskrar rokktónlistar.
Í febrúar 1969 hóf söngvarinn Mark Bolan og hljómsveit hans T-Rex hljómleikaferð um Bretland þar sem Bowie kom fram sem upphitunarnúmer. Ekki var hann þó mættur til að þenja raddböndin, framlag hans fólst í eins manns látbragðsleik, við dræmar undirtektir áhorfenda, er sagði torskylda sögu Budda munks nokkurs frá Tíbet.
FRAMHALD SÍÐAR....
Tónlist | Breytt s.d. kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2011 | 20:44
David Bowie 6. hluti
Fyrstu sólóplöturnar
Rúmum tveimur mánuðum eftir útgáfu lagsins Cant Help Thinking About Me kom fyrsta sólósmáskífa David Bowie á markað og innihélt hún lagið Do Anything You Say. Einfalur ástaóður og þótti mörgum meira til B-hliðar plötunnar koma þar sem getur að heyra lagið Good Morning Girl. Og þó þar sé sungið til stúlkunnar einnig virðist meira púður í textanum. Reyndar var Bowie viðriðinn sveit sem kallaði sig The Buzz, er kom að gerð skífunnar sem og þeirrar næstu á eftir, auk óþekktra sessionleikara. En þar sem Bowie hafði þá þegar undirritað samning við Pye útgáfuna sem sólóisti var skífan alfarið skrifuð á hann, án þess að nafn sveitarinnar kæmi þar fram.
Útgáfu hverrar smáskífu fylgdi mikið strögl og fórnir og ekki bætti úr skák að þau lög sem hann hafði sent frá sér til þessa höfðu öll farið fyrir ofan garð og neðan hjá almenningi. Bowie var hinsvegar trúr köllun sinni og um svipað leyti og fyrsta sólólag hans var markaðssett bjó hann nánast í yfirgefinni sjúkrabifreið skammt frá Marquee klúbbnum þar sem hann átti ekki í önnur hús að vernda. En bifreiðin var og nýtt í að flytja menn og tæki milli tónleikastaða þegar verkefni af því tagi buðust.
Lagið Do Anything You Say markar upphaf einhvern glæsilegasta sólóferil er breska rokksagan hefur að geyma. Reyndar hafa síðar birst á mörkuðum ólöglegar plötur með efni sem sagt að sé hljóðritun á hljómsveitinni Buzz með Bowie í broddi fylkingar, en aðrir vilja halda því fram að þetta efni hafi ekkert með Bowie að gera, hann komi þar hvergi nálægt.
Í ágúst 1966 kom út önnur sólósmáskífa Bowie með laginu I Dig Everything og var hún líkt og sú fyrsta gefin út á merki Pye útgáfunnar. Í desember hafði Bowie hinsvegar skipt yfir á Deram og fyrsta dvergskífan hans á því merki var undanfari hans fyrstu breiðskífu og innihélt lögin Rubber Band og London Boys. Síðarnefnda lagið, sem að vísu kom ekki út á breiðskífunni, þykir í dag eitt það besta sem Bowie gerði fram að Space Oddity.
Texti lagsins þykir firna góður en hann fellur vel inn í tíðarandann við upphaf hippatímans og öðlaðist raunar nýtt líf þegar pönkbylgjan reið yfir.
Söguhetjan er sautján ára gamall dreifbýlingur sem móttekur ferska strauma frá borgum og bæjum, strauma frjálsræðis og tilrauna til að brjótast úr viðjum ríkjandi hefða. Hann heillast af þessari uppreisn æskunnar þar sem barist er með blómum og tónum og andinn er auðgaður með hinum torkennilegustu lyfjum. Hann vill ólmur og uppvægur verða þátttakandi að þessu öllu, strýkur að heiman og setur stefnuna á London. Er þangað kemur sekkur hann sér í lifnaðinn sem virtist svo spennandi heima í sveitinni. En það fer með þessa byltingu eins og aðrar sem gerðar eru af góðum hug, hún étur upp börnin sín.
FRAMHALD SÍÐAR...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2011 | 20:23
David Bowie 5. hluti
The Lower 3dr
Í mars 1965, þá nýlega orðin átján ára, hitti Bowie fyrir meðlimi næstu sveitar sem hann starfaði með; The Lower Third.
Fyrstu kynni hans af sveitinni fóru fram á Giocanda Coffee Bar í Danmark Street sem var vel þekktur staður meðal tónlistarmanna.
Fyrir inngöng David hafði sveitin reynt að auglýsa sig sem besta rythma og blúsband Suð-Austur Kent og komið fram sem danshljómsveit þar sem á efnisskránni voru ýmis tökulög í anda James Brown. Frægðin hafði hinsvegar látið á sér standa.
Í von um að forsöngvari myndi opna þeim nýjar leiðir í þá átt var ákveðið að leita að frambærilegum forsöngvara. Það sem mælti með David var annarsvegar útlitið sem þeim fannst minna á Keith Relf söngvara Yardbirds og svo hitt að Bowie hafði þegar sungið inn á tvær plötur. Nafnabreytingin var því auðsótt mál fyrir David og eftir inngöngu hans kom sveitin fram sem Davy Jones and the Lower Third og vildi David þannig undirstrika strax frá upphafi hver réði á þeim bænum.
Upprunalega skipan sveitarinnar var auk David, Dennis Tea-Cup Taylor á gítar, Graham Death Rivens á bassa og Les Mighall á trommur.
Með þessari liðsskipan taldi sveitin sig fljótlega reiðubúna til upptöku lagsins Born Of The Night og David þess fullviss að Sal Talmy myndi hljóðrita það. En hann var á þeirri stundu upptekin við að hljóðrita The Who auk þess sem honum líkaði lagið ekki og varð því ekkert af upptökunum á þeirri stundu.
Skömmu eftir að þessi áætlan sveitarinnar brást yfirgaf Les Mighall sveitina en í hans stað kom Phil Lancaster en sá hafði starfar sem session trommari og unnið meðal annars í hljóðveri með hljómsveitinni Dave Clark Five. En að því kom að upptökustjórinn átti tíma fyrir sveitina og fyrsta smáskífa þeirra var hljóðrituð.
Á a-hlið þessarar smáskífu sem út kom 20. ágúst 1965 er að finna lagið You Got A Habit Of Leaving sem óneitanlega er í anda þess sem The Who var að gera. En á hinni hlið skífunnar var lag sem þótti minna á Herman Hermits; Baby Loves That Way, en þessi lög voru þau síðustu sem Sal Talmy tók upp með David og þau eru einni þau síðustu sem David samdi og hljóðritaði undir sínu upprunalegu nafni.
Því tæpum mánuði síðar kastaði hann síðara nafni sínu fyrir róða og tók þess í stað upp nafnið Bowie eftir ævintýramanninum Jim Bowie frá Texas en sá mun hafa verið snillingur í meðferð hnífa.
Önnur og öllu langsóttari skýring hefur komið fram í nokkrum ritum um þessa nafnabreytingu. Það að Bowie hafi haft um það hugmyndir að hann yrði einskona tenging minni tveggja stærstu nafna breska poppsins, það er The Beatles og Rolling Stones. Nafnið yrði að byrja á bókstafnum B eins og Beatles og í viðtali við Mike Jagger skömmu fyrir nafnaskiptin hafi Jagger minnst á að nafn sitt þýddi hnífur á fornensku. Þessi langsótta skýring á sér þó litla stoð í raunveruleikanum og segir sagan að þegar þetta hafi verið borið undir Bowie sjálfan í viðtali 1974 hafi hann hreinlega misst sig af hlátri, og látið þau orð falla að ekkert væri fjær sanni.
Ástæðan fyrir nafnbreytingunni var hans sögn sú að Bowie vildi forðast rugling við söngvara The Monkees sem einnig hét David Jones sem og nafna þeirra sem var bandarískur soul söngvari en allir voru þeir tíðir tónleikagestir í Marquee klúbbnum á sama tímabili og nafnaruglingur því algengur.
Bowie nafnið birtist fyrst á seinni smáskífunni hen hann hljóðritaði með The Lower Third í árslok 1965. Platan kom svo á markað í janúar 1966. Á A-hlið hennar getur að heyra lagið Cant Help Thinking About Me sem er einfaldlega tíunda melodrama og í engu frábrugðin öðru sem var að gerast í meðalmennskupoppi beggja vegna Atlandshafsins á þessum tíma.
Engu að síður náði lagið inn á lista tímaritsins Melody Maker er það settist í 45. sæti hans 12. Febrúar 1966 og var það fyrsta með Bowie sem sást á vinsældalista. Á B-hlið plötunnar getur að finna lagið And I Say To Myself sem var að nokkru leyti sama marki brennt hvað gæði varðar.
Þó má heyra á báðum þessum lögum að melódían er til staðarUmboðsmaður Bowie á þessum tíma var Rap Horton. Til bókar hefur líftími svetiarinnar vrið skráður sex mánuðir eða frá júlí 1965 fram í janúar 1966
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2011 | 00:30
David Bowie 4. hluti
The Manish Boys
Eftir skyndilega upplausn The King Bees í ágúst 1964 var David boðið söngvarasæti í hljómsveitinni The Manish Boys. Þessi sjö manna sveit sem ættuð var frá Maidstone í Englandi hafði getið sér nokkurs orðstírs undir heitinu The Band Seven og þar áður sem The Jazz Band en á fjögra ára starfsferli sínum í Maidstone er talið að hún hafði gengið í gegnum einar fimm nafnabreytingar og álíka oft skipt um tónlistarstefnu. Ástæður þess að David var boðið sæti í sveitinni á sér tvær meginskýringar. Í fyrsta lagi hafði sveitin nýlega gert útgáfusamning við Parlopone hljómplötuútgáfuna og vantaði söngvara til liðs við sig. Í öðru lagi, og þá síðast en ekki síst vegna þess að meðlimum The Manish Boys þótti honum svipa mjög í útliti til Brian Jones, eins af forsprökkum Rolling Stones. Þeir töldu það geta orðið þeim til framdráttar, því rétt eins og Rolling Stones nefndi sveitin sig eftir gömlu Muddy Waters lagi og starfaði undir sterkum áhrifum bandarískrar blústónlistar og hafði reyndar vakið nokkra athygli fyrir óvenjulega hljóðfæraskipan, þar sem alt, baratón og tenórsaxófónar plús trompet áttu hlut að máli.
Sveitin varð þó við inngöngu David, að breyta tónlistarstefnu sinni einu sinni enn og eftir innlimun Davids var hún skipuð: David Jones (söngur, sax), John Watson (söngur, bassi og rythma gítar), Mick White (trommur), Bob Solly (organ), Paul Rodriguez (tenor sax, trompet og bassi) og Wolf Byrne (bariton sax og harmonikka).
Í lok nóvember 1964, þrem mánuðum eftir að David gekk til liðs við sveitina var The Manish Boys ráðin af umboðsmanninum Arthur Howes til að koma fram á einum sex tónleikum sem upphitunarnúmer á tónleikaferð Gen Pitney-Garry & The Pacemakers. Með í þeirri för voru hljómsveitin The Kings og söngkonan Marianne Faithful. Ferðin hófst 1. desember 1964. Howes var nokkuð þekktur umboðsaðili á þessum tíma og hafði meðal annars kynnt hljómsveitina The Kinks, er hún hafði í ágúst þetta sama ár náð toppi Breska listans með laginu You Really Got My sem hljóðritað var undir stjórn upptökustjórans Shel Talmy.
Meðal þeirra sem komu og sáu sveitina spila var fjórtán ára gömul stúlka Dana Gillespie. Skemmst er frá að segja að leiðir hennar og David lágu saman eftir tónleikana sem síðar þróaðist í vináttusamband. Átti David síðar eftir að leggja henni lið við gerð sólóplötu.
Skömmu eftir að verkefni The Manish Boys lauk hélt sveitin sem leið lá í Regent hljóðverið til upptöku laga á væntanlega dvergskífu fyrir Decca útgáfuna, samkvæmt áðurnefndum samningi sveitarinnar. Undir stjórn upptökustjórans Mike Smith hljóðritaði sveitin að minnsta kosti tvö lög. Það fyrra var lag Barböru Lewis, Hello Stranger og hitt var lagið Love Is A Strange, sem síðar varð heimsþekkt í flutningi Everly Bræðra sem komu laginu á topplistann í október árið 1965. Ekki varð neitt af útgáfu skífunnar og liggja því þessar upptökur The Manish Boys enn einhversstaðar í geymslum ókunnar almenningi. Eftir að hafa lokið þessum upptökum komst sveitin í hljóðver á ný nú fyrir tilstilli Arthur Howes sem fékk áðurnefndan Shel Talmy til að hljóðrita efni á einu smáskífuna David Jones gerði með The Manish Boys. Sú kom út þann 5. mars 1965. Á fyrri hliðinni er hið áheyrilega lag I Pity The Fool. Við upptökur þess lags var fenginn utanaðkomandi gítarleikari og var þar á ferð enginn annar en Jimmy Page, sá hinn sami og síðar öðlaðist varanlega frægð með hljómsveitinni Led Zeppelin.
Um svipað leyti og I Pity The Fool var útgefið á merki Parlophone útgáfunnar, gafst The Manish Boys tækifæri til að koma fram í sjónvarpsþætti í BBC en slíkt þótti mikil viðurkenning og gífurleg auglýsing fyrir viðkomandi sveit. Þegar stjórnandi þáttarins, Barry Langford, sá hljómsveitarmeðlimi kom hins vegar alvarlegt babb í bátinn. Einn meðlima bandsins, að sjálfsögðu David Robert Jones var með liðað hár niður á axlir og þó Bítlarnir hefðu brotið ísinn hvað hársídd varðaði tveimur árum áður með því að láta hárið vaxa niður fyrir eyru, þótti á þessum tíma yfirgengilegt og meira en lítið óforskammað fyrir karlmann að hafa ljósa lokka niður á herðar.
Samningaviðræður voru því settar í gang en David stóð fastur á sínu og gaf sterklega í skin að fyrr mundi hann láta lífið en skerða hár sitt. Málalyktir urðu þær að The Manish Boys með David Jones innanborðs fékk að spila í áðurnefndum þætti en með því skilyrði þó að ef einhver kvörtun kæmi frá áhorfenda vegna hárprýði Davids myndu laun hljómsveitarinnar fyrir þáttinn renna til líknarmála.
Í þættinum flutti sveitin lagið I Pity The Fool og lag er sett hafði verið á b-hlið áður nefndrar dvergskífu sem nefndist Take My Tip en það var fyrsta lagasmíðin eftir David Jones sem þrykkt var á plast. En David var ekki ætlaður ævilangur staður innan raða The Manish boys, eftir rifrildi vegna ráðríkis Davids ákvað hann að yfirgefa bandið.
FRAMHALD SÍÐAR....
Tónlist | Breytt 5.1.2011 kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2011 | 21:21
David Bowie 3. hluti
THE KING BEES
Árið 1964 bættust þeim David og Underwood liðsauki er þeir gengu til samstarfs við þrjá pilta, þá Roger Bluck gítarleikara, Dave Howard er lék á bassa og trommarann Bob Allan. Saman nefndu þeir sig The King Bees.
En nafngiftin var fengin frá lagi Slim Harpo, blússöngvara frá Louisiana, I´m A King Bee. Fáum sögum fer af sveitinni The King Bees utan spilamennsku og æfinga fram til apríl 1964 en þá taldi hún sig þurfa ný og betri hljóðfæri.
Til að fjármagna slík kaup notað David sömu aðferðina og við ameríska sendiráðið og forðum, hann skrifaði bréf.
Í þetta sinn til John nokkurs Blom, kaupsýslumanns sem þekktur varð af því að hafa byrjað með tvær hendur tómar en náð nokkuð langt í viðskiptalífi Lundúnaborgar með dirfsku sinni og hugviti við verslun á þvottavélum.
Í bréfi Davids var að því látið liggja að John Blom gæti orðið næsti Brian Epstein með The King Bees sem sína Bítla. John Blom, sem líkaði dirfska bréfsins, taldi sig hinsvegar ekkert vit hafa á popptónlistarbransanum að því einu undanskyldu að þekkja lítillega Leslie Conn sem verið hafði um tíma framkvæmdar stjóri Doris Day umboðsskrifstofunnar og sendi hann bréfið áfram til hans.
Eftir að Les Conn, eins og hann var alla jafnan nefndur, hafði heyrt sveitina spila í Marqee klúbbnum, ákvað að hann taka The King Bees upp á sína arma.
Fyrsta verkefnið sem Conn útvegaði sveitinni var að leika í brúðkaupsafmæli John Blom. Vægt til orða tekið hefur þetta ekki verið hans besta hugmynd, því sveitin náði ekki að flytja nema tvö lög áður en gestgjafinn stöðvaði leik hennar og réttast væri að segja að hann hafi ekki þolað hráa útfærslu á þeim frægu standurtum Got My Mojo Working og Hoochin Coochin Man.
Les Conn reyndi að gera gott úr uppákomunni og sagði að John Blom líkaði aldrei það sem unga fólkið væri að fást við. Hann sjálfur væri hinsvegar umboðsmaður sveitarinnar og fyrir sinn tilstuðlan yrði David stjarna í heimi popptónlistarinnar.
Fyrir hans tilstilli og slembilukku komst sveitin á samning hjá litlu dótturfyrirtæki Decca útgáfunnar, Vocalion Label þar sem sveitin hljóðritaði tvö lög og þann 5. júní 1964 komu út 3.500 eintök af smáskífu sem skráð var á Davie Jones with the King Bees og innihélt lögin Liza Jane og Loui Loui Go Home.
Fyrrnefnda lagið sem skráð er á umboðsmann sveitarinnar er í raun gamall negrasálmur. En ritstíll lagsins þykir minna mjög á það sem Rolling Stones var að gera á þessum tíma, flutt undir áhrifum Yardbyrds með kraftmiklum blásturshljóðfæra og gítarleik.
Síðara lagið á þessari skífu, Louie Louie Go Home, hafði náð talsverðum vinsældum ári áður í Bandaríkjunum, þá í flutningi Paul Revere And The Raiders.
Conn átti útgáfurétt þess í Bretlandi eftir að hafa keypt hann fyrir smápeninga. Lagið er ekki ýkja árangursríkt en engu að síður áhugavert þó ekki sé nema fyrir þær sakir einar að þar reynir David, með litlum árangri þó, að líkja eftir rödd John Lennon.
Frami sveitarinnar varð hálf endaslepptur því þrátt fyrir nokkra kynningu vakti áðurnefnd smáskífa litla athygli og örvæntingin sem greip meðlimi vegna þess reið sveitinni að fullu. Líftími hljómsveitarinnar er skráður frá nóvember 1963 fram til ágúst 1964.
FRAMHALD SÍÐAR ....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2011 | 16:58
David Bowie 2. hluti
Sú hét Kon-Rats og var skipuð auk Bowie, sem reyndar kom fram með sveitinni undir nafninu Dave Jay, þeim Neville Willis og Allan Dodds er sáu um gítarleik og Dave Crooks er sló trommur. Hljómsveitin Kon-Rats hafði það markmið eitt að æfa upp vinsælustu lögin hverju sinni, til að halda standart sem fersk danshljómsveit. Í ágústlok komst sveitin í áheyrnarpróf hjá Decca útgáfuni sem einfaldlega hafnaði sveitinni. Eftir þá uppákomu fór metnaðarleysi hljómsveitarmeðlima að fara í taugarnar á David. Hann vildi hljómsveitina úr hinum hallærislegu hljómsveitarbúningum, þá vildi hann nýtt og eggjandi nafn á sveitina og síðast en ekki síst vildi hann spila frumsamda rokk og blús tónlist. En þessar byltingarkenndu hugmyndir fengu heldur daprar viðtökur innan sveitarinnar og er David sá hvað verða vildi yfirgaf hann ládeyðuna. Enda tók hann tónlistina alvarlega og hafði reyndar hafið nám í saxófónsleik skömmu áður. Til áréttingar má bæta því við að sveitin var stofnuð í janúar 1962 og starfaði Bowie með sveitinni frá þeim tíma. Hann og Alan Dodds léku með sveitinni í síðasta sinn í Justin Hall í West Wickham 31.desember 1963. Sveitin starfaði eftir það fram að 1969 í breyttri mynd og gaf út eina smáskífu.
David Bowie: Einn uppáhalds saxófónleikarinn minn á þessum tíma var Ronny Ross. Þar sem ég taldi mig þurfa á leiðsögn að halda fletti ég honum upp í símaskránni, hringdi og spurði hvort hann vildi taka mig í tíma. Mér til mikillar furðu svaraði hann játandi og ég fór. Fyrsta tímanum eyddi hann svo í að tuðast á hvað ég væri hræðilega lélegur og að ég þyrfti að byrja að læra upp á nýtt frá grunni, en þó var ég búinn að spila á saxófón í þrjú ár og þóttist nokkuð góður.
Eftir að hafa slitið samstarfi við Kon-Rats hóf Bowie að kom fram ásamt félaga sínum George Underwood, sem reyndar hafi um tíma leikið með honum í Kon-Rats, og trommara er nefndur var Viv undir nafninu The Hokker Brothers, þá komu þeir og fram sem Daves Reds and Blues. Jafnframt hóf Bowie störf sem auglýsingateiknari um líkt leiti, en gegndi því starfi stutt.
FRAMHALD SÍÐAR....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2011 | 16:27
Saga David Bowie - 1. hluti
Fyrir löngu vann ég ritsmíð um sögu David Bowie út frá plötum hans. Þessi saga var að hluta byggist að hluta á útvarpsþáttum sem voru á Rás 2 fyrir meir en áratug. En um það verður fjallað í niðurlaginu. Hér förum við af stað í fyrsta hluta af ótrúlega mörgum.
David Robert Jones
Hann fæddist klukkan 9:00 á áttunda degi janúarmánaðar 1947, í húsi númer 40 við Stansfield Road í Brixtonhverfi Lundunaborgar. Fáeinum dögum síðar var piltur vatni ausinn að kristinna manna sið og nefndur David Robert Jones. Faðir hans Haywood Stenton Jones, sem að öllu jöfnu og reyndar af óskiljanlegum ástæðum gekk undir nafninu John Johns, var þá að skilja við fyrri konu sína Hildi Lois Sullevan, sem hann hafði gifst árið 1933. Hann gekk síðar að eiga móðir þess nýfædda, konu á besta aldri er Margaret Mary Burns hét, kölluð Peggy af fjölskyldu og vinum. David átti þrjú eldri hálfsystkini, systur Annettu Jones sem faðir hans hafði eignast í fyrra hjónabandi og bróður Terry Burns er móðir hans hafði átt í lausaleik 1937. Meðan á síðari styrjöldinni stóð eignaðist Peggy stúlku með giftum manni er skírð var Myra Ann. Henni var komið í fórstu aðeins þriggja mánaða gamalli, en hún giftist síðar ung til Egyptalands og hefur engum sögum af henni farið sem tengjast David á nokkurn hátt. Móðir Davids, Mary Burns á hinsvegar ljúfar minningar frá fyrstu uppvaxtarárum sonarins.
Margret Jones
Hann hefur verið um það bil þriggja ára gamall þegar hann málaði sig í fyrst sinn. Við vorum með leigjendur á efri hæðinni í húsinu og einn daginn vorum við eitthvað að sýsla heima við og urðum þess ekki vör að hann hvarf upp stigann, þar sem hann fann poka með augnmaska, varalit og andlitspúðri. Þar komst hann að þeirri merku niðurstöðu að góð hugmynd væri að mála á sér andlitið með þessu. Þegar ég svo loksins fann hann nokkru síðar, leit drengurinn út eins og trúður. Þegar ég sagði honum að hann mætti ekki að nota make-up svaraði hann um hæl En mamma þú gerir það. Ég gat ekki annað en samsinnt því en benti honum jafnframt á að þetta væri bara ekki fyrir litla drengi.
Þrátt fyrir ljúfar minningar Peggyar vistist þessi sundurleiti hópur sem kallast átti fjölskylda, eiga fremur fátt sameiginlegt annað en að búa undir sama þaki. David var í augljósu uppáhaldi foreldrana sem létu hálfsysskyni hans að mestu afskipt og reyndu raunar eftir megni að stía þeim bræðrum í sundur sem annars voru ágætir vinir. Þrúgandi andrúmsloft einkenndi heimilið sem oftar en ekki var vígvelli líkast þar sem fjölskyldumeðlimir tókust á í harðri rimmu. Áhrifa þessa bágborna heimilisástands gætti síðar í kveðskap David Jones þar sem hann með söknuði horfir aftur til æskuárana sem hann aldrei fékk notið.
Á miðjum sjötta áratugnum flutti fjölskyldan úr hinu alræmda Brixton hverfi og settist að í Bromley þar sem öllu skárra þótti að búa.
Í kjölfar þess settist David á skólabekk í Burnt Ach Primary School þar sem hann kynntist meðal annarra George Underwood, en sá piltur varð einn nánasti vinur Davids næstu árin.
George Underwood: Ég man vel hvernig við eyddum laugardögunum, hangandi í búðinni hjá Vic Furlongs og hlustuðum á plötur, við keyptum aldrei neitt og þó það var í þeirri búð sem David sá sinn fyrsta saxófón. Hann kunni ekkert að spila á þessum tíma en hann gaf frá sér frábæran hávaða. þegar hann sá saxófóninn, hann sagði síðan föður sínum frá saxófóninum sem bauðst til að borga helminginn á móti David hefði hann áhuga á að eignast gripinn.
Á þessum unglingsárum kom bersýnilega í ljós sjálfstæði David og áræði, það að þora að feta aðrar leiðir, sem dæmi um þetta voru áhugamál jafnaldra hans í músíkinni; Buddy Holly. Auk fótboltans átti krikket íþróttin nokkrum vinsældum að fagna. En þá eyddi David frítíma sínum í að hlusta á American Network og en fremur fylgdist hann grant með Ameríska fótboltanum. Hann gekk meira að segja svo langt að skrifa bréf til ameríska sendiráðsins, sem bauð þessum áhugasama pilti í heimsókn þar sem hann eyddi heilum degi í að skoða sendiráðið og fræðast um Amerískan fótbolta.
Að aflokinni skólaskyldu lá leið Davids í verkmenntaskóla þar sem hann meðal annarra sat í bekk með Peter Framton sem síðar varð frægur með hljómsveitinni Humple Pie, þess má og geta að faðir Frampton var kennari við skólann og sótti Bowie tíma hjá honum á sínu þriðja ári innan veggja skólans. En námið sóttist pilti seint og 16 ára að aldri flosnaði hann úr skóla, enda þegar orðinn meðlimur í sinni fyrstu hljómsveit.
FRAMHALD SÍÐAR
Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2010 | 20:50
Já þetta vissi ég ekki
Uppsagnir og rúmum fækkað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)