21.4.2008 | 02:34
Lagið sem fór að heiman
Ekki má nú Bubbi vinur minn mikið til að spekingar sparki. Nú birtist hver á fætur öðrum og tjáir sig um tökulag Bubba og Björns Jr. á laginu Ég er kominn heim sem Óðinn Valdimarsson söng inn á plötu 1960.
Það skrítna er að lagið hefur aldrei verið talið ýkja merkilegt, né notið vinsælda fyrr en nú þegar Björn Jr. flutti það í Bandinu hans Bubba og þeir félagar sungu það síðan saman inn á band í kjölfarið. Ég fullyrði því hér og nú að Björn Jr. og Bubbi hafa gert meira fyrir þetta lag en nokkur annar. Af hverju segi ég það? Lagið er vissulega gott og vel flutt af Óðni Valdimarssyni. Enn og aftur leifi ég mér að efast um vinsældirnar. Í fyrsta lagi var það valið á B-hlið smáskífunnar þegar það kom út árið 1960. Verum minnug þess að A-hliðin geymdi á þeim árum ALLTAF það lag sem talið var líklegra til vinsælda. Lagið var ekki endurútgefið á neinni plötu fyrr en Jónatan Garðason valdi það á fyrstu plötuna í útgáfuseríunni Óskalögin 1997 eða í 37 ár hafði lagið legið óhreyft. Næst birtist lagið á plötu sem innihélt yfirlit yfir feril Óðins árið 2004 eða 7. árum síðar.
Þegar hlustað er á lagið í flutningi Óðins fer ekkert á milli mála að þarna er lag sem tekið var upp við fátækleg skilyrði 1960. Það sem bjargar laginu eru fantagóðir hljóðfæraleikarar og silkimjúkur söngur Óðins. Björn og Bubbi útsetja lagið á allt annan hátt, það er hljóðritað með nútímatækni og menn vakna skyndilega af værum dofa og rjúka til að hlusta á Óðinn syngja lagið í þeim tilgangi að pota nú svolítið í þá Bubba og Björn. Engin sagði orð þegar Björgvin Halldórsson söng það inn á plötu, enginn sagði orð þegar Andri Bachman söng það inn á plötu. En þegar Bubbi Morthens opnar munninn fær menningarelítan sjokk og telur að nánast sé um helgispjöll að ræða. Mér finnst að þeir sem ætla að gagnrýna þá félaga fyrir þessa töku lagsins sem er allt önnur nálgun en hjá Óðni ættu kannski að kynna sér hvaðan lagið kom til Óðins og hvort sá flutningur er ekki gagnrýnisverður. Fyrir áhugasama er hér smá fróðleik um þetta lag.
Upprunalegur titill þess er Heut' nacht hab' ich geträumt von dir og er úr óperunni Das veilchen vom Montmartre eftir Kálman. Óðin Valdimarsson varð fyrstur til að hljóðrita lagið á íslensku við texta Jóns Sigurssonar sem einnig yfirfærði lagið í hljómsveitarbúning ásamt KK-Sextett. Hljóðritun var svo gerð í Ríkisútvarpinu í júní 1960 og sá Knútur Skeggjason um upptökur.
KK-sextettinn sá um undirleik og var þá skipuð þeim: Ellly Vilhjálms: Röddun, Jón Páll Bjarnason: Gítar, röddun ; Jón Sigurðsson: Kontrabassi, röddun ; Þórarinn Ólafsson: Píanó, röddun ; Guðmundur Steingrímsson: Trommur ; Kristján Kristjánsson: Röddun. Með öðrum orðum fanta góðir spilarar þá sem nú.
Niðurstaða mín er þessi Óðin flutti lag sem hafði verið fært úr óperubúningi í bigband útsetningu sem dægurlag. Bubbi og Björn syngja það við undileik rokksveitar. Ég veit ekki hvort stökkið er stærra. Það sem ég er að reyna að sega líka er að mér finnst stór munur á hvor menn taki svona lög og geri að sínum með sinni útsetningu, sinni rödd eða hvort menn fari að reyna að syngja það í líkingu við upprunalegu útsetninguna. Menn ættu þá að skreppa til plötu Björgvins og Andra Backman með gagnrýnisraddirnar. Eitt er að flytja lag eftir Megas og hitt er að reyna að fara að syngja það eins og Megas og þar finnst mér stór munur á svo ég tali sterkara dæmi.
Þessu til viðbótar má minna á orð á plötuumslagi Óðins um lagið:
"Gamalt Kláman lag í nýrri útgáfu og er ekki vafi á að lagið mun vekja athygli".
Líkega vissi Tage Ammendrup útgefandi ekki að þessi athygli kæmi fram árið 2008 en ekki 1960.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.