21.9.2008 | 08:20
Auðvelt að verða ríkur
Í frjálsu falli hlutabréfa undanfarnar virku dettur mér í hug sá tími lífs míns þegar mér óvænt áskotnuðust svolitlir peningar. Ég sat og horfði hugsandi á þessa upphæð á innlegsnótunni og sagði við konuna mína að líklega væru bara tveir kostir í stöðunni. Nú hvaða kostir eru það spurði hún. Annað er að reyna að fjárfesta í einhverjum hlutabréfum og gera tilraun til að auka þessa upphæða á þann veg. (þögn) - Já og hinn kosturinn? spurði konan mín. Já hummm já hann er sá að bara gera það sem ég hef alltaf gert þegar ég hef eignast peninga umfram daglegt líf. Það er að eyða þeim t.d. gætum við skroppið í viku eða tíu daga til New York og lifað eins og greifar fyrir hluta af þessari upphæð. - Já sagði konan mín, þetta eru þínir peningar og ég læt þig alfarið taka ákvörðun um hvað þú vilt gera við þá. - Já, Takk fyrir það svaraði ég og glotti. Næsta dag fór ég og keypti ferð fyrir okkur til New York. Við eyddum þar saman 7 dögum. Tvö ein, út að borða við kertaljós og dýrum stöðum, versluðum það sem okkur datt í hug og einfaldlega áttum saman rómantíska viku sem þó fór að stórum hluta í göngutúra og spjall, hlátur og gleði. Í dag eru þessir dagar, kvöld og nætur í borg alsnægta enn lifandi í huga mínum. Geislandi augnráð konunnar minnar yfir frábærri máltíð miðsvæðis á Manhattan. Göngutúrar eftir strætum heimsboragrinnar og allur sá rómantíski pakki sem fólk getur upplifað í slíkri ferð ef viljinn er fyrir hendi.
Í dag þakka ég mínu sæla fyrir að hafa valið réttan kost í stöðunni. Því enn get ég lokað augunum og séð hamingjusvip konunnar minnar á þessum stundum sem við áttum í borginni. Og enn er þessara daga minnst okkar á milli. Hinn kostunni var eins og ég sagði áðan að kaupa hlutabréf sem væru hvar núna? Já líklega er þetta bara spurning um hvaða mat við leggjum á það að telja okkur rík. Ég veit núna að í þessu tilfelli var fjárfestingin rétt og hagnaðurinn er mér kristaltær alla daga.
Athugasemdir
Til hamingju með skynsamlega ákvörðun og gullvægar endurminningar.
Guðbjörn Jónsson, 21.9.2008 kl. 10:07
Já Guðbjörn það er nú ekki svo oft sem ég á skynsamlega ákvörðun að baki svo maður verður víst að reyna að halda sínum fáu fjöðrum til haga.
Bárður Örn Bárðarson, 24.9.2008 kl. 01:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.