Bubbi fleiri konur - Því þessar fá allar 5 stjörnur

Þegar menn fara að gera plötur með skilyrðum þá eru meiri líkur en minni á að þeim mistakist að galdra fram gott verk. Tala nú ekki um þegar skilyrðin eru jafnvel orðin fleiri en eitt. Eins og til dæmis að umfjöllunarefnið sé um konur og meðspilararnir séu aðeins kvenkyns.

En ekki í tilfelli Bubba Morthens. Á plötunni 18 konur gengur conseptið fullkomlega upp. Kannski er ástæðan að Bubbi er ekkert óvanur að semja og syngja um konur, aðstæður þeirra og örlög. Það hefur hann gert allan sinn feril.
„Við vélina hefur hún staðið síðan í gær“ svona byrjar Bubbi sína fyrstu sólóplötu, já með því að syngja um fiskverkakonu og léleg laun hennar og svo bætist Sigga á borði 22 við sú sem hætti í Ísbirninum og síðan hafa konur verið eins og þráður munstraður í textaferil Bubba.

18 konur kallast á við þennan þráð og upp í hugann koma lög á borð við Tangó með Utangarðsmönnum (1980), Móðir (1982), Haustið á liti (1985), Aldrei aftur (1994), Hann elskar mig ekki (1997), Pollyana (1999) Mamma vinnur og vinnur (2003). Bara svo nokkur dæmi séu tekið. Því þau eru mikið fleiri í nær 600 laga pakka Bubba sem ferillinn spannar þar sem konur og örlög þeirra eru í sviðsljósinu.

Haldi menn að platan skipti engu þá er það misskilningur því þetta er söguleg plata. Þó ekki sé nema fyrir það að undirleikarar plötunnar eru kvenkyns. Kannski kemur sá dagur að kyn skiptir ekki máli hvort heldur er í hæstarétti eða innan tónlistarmanna. En því miður er sá tími ekki enn kominn og þangað til er plata Bubba þarft innlegg í umræðuna og einskonar glott framan í þá sem vilja viðhalda kynjahlutverkunum eins og þau voru um miðja síðustu öld. 18 Konur væri tilvalið verkefni það er að barnaskólar tækju efni þessarar plötu inn í skólakerfið og ræddu innihaldið við nemendur því þau eru kannski kynslóðin sem nær þeim áfanga sem okkur eldri mistókst – Það er jafnrétti fyrir bæði kynin í orði sem verki.

En svo við snúum okkur aftur að kostum og göllum plötunnar þá eru kostirnir svo margir allt frá söng til útsetninga, frá textum til umslags. Gott dæmi um þetta er elsta lag plötunnar Hægt andlát 14 ára stúlku sem mér fannst aldrei ganga fyllilega upp í sinni upphaflegu kassagítarútgáfu sem maður heyrði á tónleikum. Þar var Bubbi að þrengja textann að laginu og útsetningunni. En hér smellpassar hann og er orðinn fyrir mér alvörulag.
Helsti ókostur plötunnar er kannski hvað leið langt frá því hún kom út þar til hægt var að versla hana í föstu formi. Því hvað sem hver segir þá getur maður ekki eignast eitthvað sem maður aðeins heyrir.
Ég vil fá að halda á plötunni 18 konur og geta tekið þennan boðskap hennar með mér hvar sem ég fer. Platan 18 Konur er með fullt hús stiga og allar fimm stjörnurnar eru stórar

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir ritdóminn.

Það stingur svolítið í eyrun að heyra Bubba syngja um vonda ríka fólkið, þegar allir vita að hann braskaði með hlutabréf og tapaði og er núna aftur "eins og við hin".

En Bubbi hefur frá upphafi verið sakaður um óheilindi af þessu taki. Hlustaðu, til dæmis, á "Our Song" með vopnabróður hans Mike Pollock. Bubbi er að sumu leyti spegilmynd Íslendinga, svona "bara ef það hentar mér gæi." Til að meta tónlist hans verður maður bara að sætta sig við að hann er eins og hann er. Hann er performer af Guðs náð.

Wilhelm Emilsson, 8.12.2015 kl. 19:28

2 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Lagið sem ég er að tala um er fyrsta lag plötunnar, "Þarna flýgur ríka fólkið".

Wilhelm Emilsson, 8.12.2015 kl. 19:29

3 Smámynd: Bárður Örn Bárðarson

Fór nærri um það. Bubbi hefur sent pillur á þá efnameiri allann sinn feril. Líka á uppgangárunum í samfélagin. Ég sé ekki nein óheilindi á bak við það því Bubbi eignaðist aura sem hann fékk fyrir vinnu sína og með þá aura vissulega gamblaði í von um að eignast lífeyri til efri ára, Hann og tapaði aleigunni. Hann tapaði aldrei annara manna fé og enginn var svikinn af þeim viðskiptum nema hann og hann var sá eini sem beið fjárhagslegt tjón og það all rosalegt, kannski fyrir tilstuðlan þeirra sem eru að fljúga þarna á þirlunni. Hver veir. Þannig að ég blæs á slíka bullgagnríni. Ættum að snúa okkur að þeim sem gömbluðu með annara fé og sköðuðu samfélagið með því. En ekki heiðarlegt fólk sem tapaði aleigu sinni í þessu hruni

Bárður Örn Bárðarson, 8.12.2015 kl. 22:29

4 Smámynd: Bárður Örn Bárðarson

Fór nærri um það. Bubbi hefur sent pillur á þá efnameiri allann sinn feril. Líka á uppgangárunum í samfélagin. Ég sé ekki nein óheilindi á bak við það því Bubbi eignaðist aura sem hann fékk fyrir vinnu sína og með þá aura vissulega gamblaði hann í von um að eignast lífeyri til efri árana, Hann og tapaði aleigunni. Hann tapaði aldrei annara manna fé og enginn var svikinn af þeim viðskiptum nema hann og hann var sá eini sem beið fjárhagslegt tjón og það all rosalegt, kannski fyrir tilstuðlan þeirra sem eru að fljúga þarna á þyrlunni. Hver veit. Þannig að ég blæs á slíka bullgagnríni. Ættum að snúa okkur að þeim sem gömbluðu með annara fé og sköðuðu samfélagið með því. En ekki heiðarlegt fólk sem tapaði aleigu sinni í þessu hruni. 

Bárður Örn Bárðarson, 8.12.2015 kl. 22:32

5 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Svona bara að benda á að þegar ég hlustaði á Óla Palla og Bubba ræða um Plötuna í Rokklandi þá var lagið "Þarna flýgur ríka fólkið" Biggt á ummælum gamalsmanns sem var að tala við Illuga Jökulsson í heitu pottunum um leið og þyrla flýgur yfir og verður þá að orði "þarna flýgur ríka fólkið" Held að Bubbi noti einmitt texta sína eins og aðrir nota bloggið. Það er að hann er að tja sig um málefni líðandi stundar, sögur sem hann er að lesa og sagnfræði. Og hann gerir það betur en flestir. Og af meiri afköstum og ekkert hræddur við að breyta til. Eins og nú að nota algjörlega kvenntónlistamenn, um árið voru það hljóðfæraleikarar frá Kúbu. Nú um daginn voru það strákarnir í Dimmu. Hann hefur spilað með stórsveitinni. Hann hefur unnið með Enxími.  Og fleira og fleira. Bara snillingur.

Magnús Helgi Björgvinsson, 9.12.2015 kl. 00:19

6 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Bubbi er duglegur að gagnrýna aðra en sumir virðast vera ansi viðkvæmir fyrir gagnrýni á hann :)

Mér finnst hann merkilegur tónlistarmaður og með því að syngja á íslensku hefur hann gert meira fyrir íslenska menningu en margir sem fá fleiri prik fyrir framlög sín til íslenskrar menningar en hann.

Wilhelm Emilsson, 9.12.2015 kl. 03:36

7 Smámynd: Bárður Örn Bárðarson

Ég er ekkert viðkvæmur fyrir gagnrýni á Bubba frekar en aðra. Ef þú ert að íja að því. Gagnrýnin verður hinsvegar að vera réttlát og sanngjörn og byggð á einhverjum vitrænum rökum. Sem dæmi um gagnrýni á Bubba gaf ég síðustu plötu hans (Stormurinn) falleinkunn ólíkt flestu örðum. Ég er sammála þér í að hann teljist merkilegur tónlistarmaður og hefur auðgað íslenska menningu. og ég viðurkenni fúslega að hann er mest metni íslenki tónlistarmaðurinn í mínum huga Punktur

Bárður Örn Bárðarson, 10.12.2015 kl. 00:26

8 identicon

Þú fjallar ekki mikið um innihald plötunnar. Svo gefurðu Storminum falleinkunn en 18 konum fullt hús? Hvernig útskýrirðu það? Að mínu mati eru gæði þessara platna áþekk, og það sama má segja um Fjóra nagla, Ég trúi á þig, Þorpið, Æsku minnar jól, og annað útgefið efni síðan 2005 eða svo (Ást/Í sex skrefa fjarlægð... finnst mér einn af hápunktum ferilsins). 

Svo er athyglisvert að flestar þessara platna sem ég nefni fá fjórar eða fimm stjörnur í fjölmiðlum. Hins vegar er varla eitt einasta lag á þessum plötum sem fólk man eftir í dag, og mig grunar að það sama megi segja um 18 konur eftir nokkur ár. Efniviðurinn er til staðar, en hroðvirknislega unnir textar sem falla illa að laglínunum eru að gera mig brjálaðan. Lög eins og Þegar tíminn er liðinn, Ballaðan um bræðurna og mörg fleiri hefðu svo auðveldlega getað orðið risar. Svipuð dæmi af nýju plötunni eru Hefndarklám og Hægt andlát 14 ára stelpu. Hálfunnir textar með leiðinlegum agnúum sem standast ekki samanburð við til dæmis Það þarf að myndana og Ríkmannsþulu frá því Bubbi var að rokka um aldamótin. 

Að því sögðu þá er Bubbi minn uppáhaldstónlistarmaður og ég hef mjög gaman að nýju plötunni. Bara orðinn pínu þreyttur á að hugsa "hvað ef?"

Sveinn (IP-tala skráð) 10.12.2015 kl. 07:59

9 identicon

Reyndar ætla ég að vera sammála þér um það að 18 konur sé að mörgu leyti betri en síðustu plötur. Innihald athugasemdar minnar stendur þó óhaggað.

Sveinn (IP-tala skráð) 10.12.2015 kl. 08:08

10 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Bárður, voðalegur hroki er þetta í þér: "Gagnrýnin verður hinsvegar að vera réttlát og sanngjörn og byggð á einhverjum vitrænum rökum." 

Wilhelm Emilsson, 10.12.2015 kl. 08:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband