29.5.2012 | 14:33
Flugan sem flogið hefur í 60 ár
Flugum er ekki skammtaður langur líftími. Undantekning frá þessu er Litla flugan hans Fúsa. Sú litla fluga hefur verið sem eyrnakonfekt okkar Íslendinga í 60 ár.
Það var í ársbyrjun 1952 sem Sigfús kom fram í þætti Péturs Péturssonar Sitt af hvoru tagi í Ríkisútvarpinu og söng þar nýtt lag Litla flugan. Textinn við lag Sigfúsar var eftir Sigurð Elíasson. Og með þeim flutningi flaug Litla flugan af stað, því lagið varð fleygt á sömu stundu.
Svo vel var því tekið að um það var skrifað og skrafað næstu mánuði í dagblöðum landsmanna.
Í Morgunblaðinu 25. febrúar 1952 er skrifað :
Það var sannarlega ánæjulegt að heyra Sigfús Halldórsson í þætti Péturs Péturssonar Sitt af hvoru tagi. Nýja lagið hans Sigfúsar, Litla flugan er nú raulað víða á skemmtistöðum bæjarins. Það væri sannarlega gaman að heyra oftar í Sigfúsi....
Og meira úr sama blaði frá í mars 1952:
Í hverri götu suðar hún Litla flugan hans Sigfúsar Halldórssonar, þessi sem hann kom með að vestan í vetur.
Strákarnir blístra lagið undir berum himni, húsmæður raula það við eldhúsborðið, og barnfóstran syngur hvítvoðunginn í svefn.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi vinsæli dægurlagahöfundur vinnur hvers manns hug og hjarta. Þótti á sínum tíma mörgum keyra úr hófi dálætið á Tondeleyó, og enn lifir sumstaðar í þeim gömlu glæðum.
Líklega varð Björn R Einarsson fyrstur til að hljóðrita lagið er hann söng það fjórraddað inn á plötu hjá Ríkisútvarpinu fyrri hluta árs 1952. Þessi upptaka var spiluð í nokkur skipti en líftími slíkra platna hjá útvarpinu á þessum tíma var ekki langur.
Og til að hljóðfæraleikarar færu nú ekki að slá feilnótur var lagið gefið út á nótum og auglýsingarnar birtar í öllum dagblöðum 15. mars 1952
- Og það voru fleiri en Íslendingar sem heillast
6. maí var frumsýnd revían Sumareyjan í Sjálfstæðishúsinu á vegum Bláu Stjörnunni. Vegna þess verks komu hingað erlendir listamenn sem tóku þátt í þessari uppfærslu. Einn þeirra var Lulu Ziegler nokkuð þekkt dönsk revíuleikkona sem tók sig til, æfði lagið og söng það á Íslensku við undirleik Carl Billich þetta kvöld.
Sigfús sjálfur nýtti sér vinsældirnar og í samvinnu við Soffíu Karlsdóttur og leikarann Höskuld Skagfjörð ferðuðust þau saman um landið þvert og endilangt frá júlí og fram í október 1952 undir heitinu Litla flugan. Sigfús lék á píanóið og söng og Soffía söng einnig en Höskuldur las upp úr Sölku Völku, Halldós Laxness. Og þegar hópurinn loks kom til Reykjavíkur og kom fram þar voru 54 sýningar að baki á 40 stöðum á landinu.
- Flugan flýgur til útlanda
En þó vetur gengi í garð lifði flugan hans fúsa því Í desember brá Sigfús sér til Danmerkur og Noregs og ástæðan var að erlendir listamenn vildu hljóðrita Litlu fluguna og fleiri lög Sigfúsar og gerðu það. Sigfús lék lagið einnig inn fyrir danska útvarpið.
- Og svo flaug flugan á plast
En í árslok 1952 kom Litla flugan út á plötu í flutningi höfundar á merki Íslenskra tóna. Og að er staðreynd að ekkert lag naut jafnmikillar vinsælda árið 1952 og Litla flugan hans Fúsa þó menn gætu ekki eignast það á plötu fyrr en í árslok (og reyndar eru skiptar skoðanir á því hvort platan með lögunum hafi borist hingað fyrr en í ársbyrjun 1953.) Reyndar varð að panta annað upplag plötunnar strax í ársbyrjun því platan með Litlu flugunni hafði flogið út og var fullyrt að aldrei áður hafði ein hljómplata hér á landi selst svo hratt upp.
- Litla flugan
Lag eftir Sigfús Halldórsson / ljóð Sigurður Elíasson
Lækur tifar létt um máða steina.
Lítil fjóla grær við skriðu fót.
Bláskel liggur brotin milli hleina.
Í bænum hvílir íturvaxin snót.
Ef ég væri orðin lítil fluga,
ég inn um gluggann þreytti flugið mitt,
og þó ég ei til annars mætti duga
ég eflaust gæti kítlað nefið þitt.
..
Þessu varð hin íturvaxna snót að svara og það gerði hún um mitt ár.
- Til Fúsa
Ég legg mig oft og læt mig um þig dreyma
í litla bænum allt er kyrrt og hljótt.
Myndir af þér minningarnar geyma,
ég man þær, finn þær allar hverja nótt.
Ef ég ætla að sofna sætt á daginn,
er sífellt fluga að kítla nefið mitt.
Ég stekk á fætur, flý um allan bæinn,
en flugan syngur látlaust nafnið þitt
Fúsim Fúsi, Fúsi
íturvaxin snót.
Lagið mitt í ár verður Litla flugan
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.