David Bowie 36. hluti

Heathen

HeathenÁrin 2000 og 2001 hafi Bowie hug á að taka upp á ný nokkur gömul, lítt þekkt lög af eigin ferli frá sjöunda áratugnum ásamt nýju efni og gefa út á plötu. Verkefnið gekk svo langt að hljóðritandir voru hafnar og gripnum hafði verið fundið heitið Toy. Ekkert varð þó af þessari fyrirætlun en nokkur af nýju lögunum enduðu á næstu sólóplötu sem fékk heitið Heathen og var sú fyrsta sem gefin var út á á nýju merki ISO sem Bowie hafði stofnað eftir að hann hafði slitið samstarfi sínu við EMI Virgin útgáfuna. Platan sem út kom 10. júní 2002 var gefin út í samstarfi við Bandarísku Columbia hljómplötuútgáfuna sem annaðist pressun og dreifingu.

Bowie_Slow_burnPlötuna hafði Bowie unnið í Allaire og Looking Glass hljóðverunum sem staðsett eru í New York borg, Til verksins hóaði hann í gamlan félaga Tony Visconti sem hafði unnið hafði með Bowie meðan frægðarsólin skein hvað skærast á áttunda áratugnum en rúm tuttugu ár voru þá liðin frá því þeir höfðu unnið saman í hljóðveri að einhverju ráði. Þessi endurkoma Viscontis þótti vitnisspurður um að nú væri leitað að sándinu sem einkennt hafði tónlist Bowie á því tímabili. Fleiri gamlir félagar birtast á þessari plötu. Pete Townshend gítarleikara Who sem leikið hafði í laginu Because You're Young á plötunni Scary Monsters (1980) var mættu og lék af einstakri lagni sinni í laginu Slow Burn, en það lag var valið á smáskífu sem undanfari plötunnar Heathen
Carlos AlomarEnn fleiri gamlir félagar kíkja í heimsókn á þessum gæðagrip til dæmis vekur gleði að heyra aftur gítartakta Carlos Alomar í laginu Everyone say Hi.
Þá vakti athygli Bowie fékk að Dave Grohl, fyrrum trommara Nirvana og forsprakka Foo Fighters, til að annast gítarleik í laginu I’ve Been Waiting For You en þar er á ferð gamall smellur frá meistara Neil Young en þetta lag hafði verið á tónleikaprógrammi Tin Machine sveitarinnar og þá í mun hægari útgáfu og oftast sungið af Reeves Gabrels.

Heathen eða Heiðinginn er bein skírskotun til innihaldsins, þó ekki í trúarlegum skilningi þess orðs, öllu heldur í samskiptalegum skilningi ef svo má segja. Þar sem inntak textanna er samskiptaleysi. Samskiptaleysi mannsskeppaunnar við umhverfið og ekki síður við sjálft sig. Sá sem ekki trúir, iðkar því engin trúarbrögð er sagður heiðingi. Sá sem aldrei skoðar eigin tilfinningar ræktar því ekki sjálfsvitund sína né tilfinningarsvið, hann þekkir því ekki tilfinningar sínar og er því heiðingi gagnvart sjálfum sér segir Bowie. Og til að undirstrika þessa merkingu skal bent á mynd þá er prýðir umslag plötunnar þar sem höfundurinn horfir fram en um leið er eins og hann gjói blindum augum sínum til himins.

“Ef þú óttast hvert við erum komin skaltu í ótta þínum leita friðar, í ótta þínum skaltu leita ástar” ráðleggur Bowie í opnunarlagi plötunnar Sunday. “Allt er breytt, ekkert hefur breyst” segir Bowie í öðrum texta og vill þar meina að breytingar séu undir mannskepnunni sjálfri komnar. Hún geti lifað í eyðimörk stöðnunar og aðgerðaleysis eða verið leitandi og tekið þær breytingar sem verði, henni til þroska og andlegrar örvunar. Þessar djúphugsandi þankagangur meistarans virtust ná nokkuð vel til samlanda hans því platan náði 5. sæti Breska vinsældalistans. Heathen markar einnig endurkomu Bowie á Bandaríska listann því platan á undan  Hours hafði fyrst platan Bowie frá Ziggy Stardust plötunni ekki náð inn á topp 40 þar í landi. Nú tóku Bandaríkjamenn hinsvegar við sér því platan náði 14. sæti sem var besti árangur Bowie frá því Tonigth hafði komið út 1984.
Heathen var einnig vel tekið af akademískum spegúleröntum því hún var meðal annars tilnefnd til Mercury verðlauna, verðlaun sem eru fyrst og fremst hugsuð fyrir upprennandi tónlistarmenn sem eru að færa fram nýja og ferska hluti. Það segir manni talsvert að Bowie sem verið hafði tónlistarmaður í tæp 50 ár skildi vera tilnefndur í hópi “upprennandi” tónlistarmanna.

Bowie og Tony í hljóðverinuEins og gjarnan þegar rokkari á borð við Bowie sendir frá sér nýja plötu leggja gagnrýnendur í skógargang með stök lög hennar eða gripin í heild, í leit að samsvörun, hvort heldur er við eldra efni kappans eða atvik úr ævi hans, með það fyrir augum að fá niðurstöðu um tilgang lags og texta og geta í kjölfarið sett sig í gáfulegar stellingar við að kryfja viðkomandi tónsmíð til mergjar og leggja það oftar en ekki fram sem sönnun þess hve vel þeir þekki sögu viðkomandi tónlistarmanns. Heathen var engin undantekning frá þessu undarlegu leit gagnrýnenda. Þannig fannst sumum upphafstónar fyrsta smáskífulagsins Slow burn minna á lagið Heroes og gítarleikur Pete Townshend líkjast því sem Robert Flipp hafði verið að gera á Scary Monsters plötunni árið 1980 og staðsettu því þetta lag með henni svo dæmi sé tekið. En aðdáendur Who voru fljótir til svara og sögðu réttilega Pete Townshend kominn marga mannsaldra fram úr þeirri stöðu að þurfa að líkjast öðrum gítarleiturum á einhvern hátt.

Heather fylgdu ótal smáskífur og ýmist hliðarefni eins og títt er orðið og má nefna meðal fylgifiska Heather nokkrar smáskífuútgáfur, t.d. Slow Burn sem út kom í tveim mismunandi útgáfum, Everyone Say Hi sem kom út í þrem mismunandi útgáfum og loks smáskífuna I’ve been waiting 4U. Þar fyrir utan kom frumútgáfa plötunnar út sem tvöföld plata í takmörkuðu upplagi þó, og innihélt aukaplatan fjögur lög. Þar mátti heyra nýjar hljóðritanir laganna Conversation Pice sem fyrst hafði komið út 1970 og Panick In Detroit frá árinu 1979, en auk þeirra voru á skífunni breyttar útgáfur tveggja laga af Heathen.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband