30.1.2011 | 21:25
David Bowie 32. hluti
Buddha Of Suburbia
Platan Buddha Of Suburbia er í upphafi skilgreind sem soundtrack, plata sem í þessu tilfelli var gerð fyrir leikið sjónvarpsefni. Menn hafa einnig talið hana sem 19. sólóplötu Bowie. Og henni stillt upp á milli platnanna Black Tie White Noies og 1 Outside.
Tilvist hennar má rekja til þess er BBC2 ákvað að gera 4. þátta seríu er hlaut heitið Buddha Of Suburbia og byggð var á kvikmyndahandriti Hanif Kureishi í leikstjórn Rodger Mitchell. BBC óskaði eftir því við Bowie að hann legði fram tónlist sem nothæf væri fyrir þættina. Bowie brást vel við og fékk Erdal Kizilcay í lið með sér við að semja efnið, sem síðan var hljóðritað með David Richards við upptökutakkana. David hóaði líka í gamla hjálparhellu, píanópikkarann Mike Garson sem þó mætti ekki í Mountain hljóðverið í Sviss heldur bætti hann píanóleik sínum ofan í verkið heima í Californiu.
Það tók Bowie aðeins sex daga að semja og hljóðrita efni plötunnar. En aftur á móti heila fimmtán daga að mixa lögin, ástæður þess munu hafa verið tæknileg vandræði við þá vinnslu. Að sögn kunnugra skilaði Bowie BBC verkinu en í samningum milli aðila var tekið fram að platan yrði í upphafi gefið út sem Soundtrack tímabunið en rétturinn flyttist síðar alfarið til Bowie. Eftir að það gerðist var platan endurútgefin 2008 og þá undir hans eigin nafni eins og um sólóplötu væri að ræða. Er þar komin skýring á tvöfaldri skilgreiningu plötunnar.
Tvö laga Buddha Of Suburbia má flokka sem ambient instrumental verk sem minna nokkuð mikið á samvinnutímabil Bowie og Brian Eno á Berlínarárunum seint á áttunda áratugnum. Önnur lög plötunnar eru að mestu borin uppi af sterkri notkun saxófóna, rafmagns hljómborðs og píanóleiks. Aðeins titillagið var þó notað við gerð áðurnefndra þáttaröð BBC.
Upprunalega kom þessi plata út 8. nóvember 1993 og er í raun hið áheyrilegasta verk.
Í raun markar platan þáttaskil á ferli Bowie. Hann hefur nú sagt skilið við dansvæna takta Lets Dance og Tonight, gamla rokkfrasa Tin Machine svo eitthvað sé nefnt. Þess í stað leitar Bowie nú aftur til tilraunakenndrar listsköpunar og hljómar sáttari við sjálfan sig tónlistarlega en um nokkurn tíma. Sjálfur hefur Bowie nefnt þessa plötu sem eina að sínum uppáhaldsplötum á ferlinum og hefur látið í það skína í viðtölum að hún sé í raun stórlega vanmetin tónlistarlega. Ástæða þess sé kannski fyrst og fremst að hún hafi komið út sem tónlist við áðurnefnda sjónvarpsseríu en ekki hrein og klár sólóplata sem hún sé engu að síður.
Á þessari plötu getur líka að heyra hvað koma skyldi því lagið Stranger When We Meet, átt Bowie eftir að hljóðrita á nýjan leik fyrir næstu hljóðversplötu. Í lok plötunnar er titillagið leikið á ný og þar fær Bowie til liðs við sig Lenny Kravitz sem annast gítarleik af sinni alkunnu snilld. Því má svo bæta við að platan kom ekki út í Bandaríkjunum fyrr en eftir áramótin 1994.
Santa Monica 72
Hér kemur smá hliðarstökk. Þar sem við höfum fram til þessa gert tónleikaplötum Bowie skil rétt eins og hljóðversplötunum skulum við stinga hér inn einni slíkri. Svo þessu sé öllu haldið til haga í tímaröð. Þann 25. september 1994 kom út plata sem lengi hafði verið til í ólöglegum útgáfum. Þetta voru einir rómuðustu hljómleikar á ferli Bowie. Hljómleikar Ziggy Stardust and the Spiders From Mars, frá 20. október 1972. Upptökurnar voru gerðar af FM Radio og útvarpað á sínum tíma. Upptökur af þessari útvörpun höfðu þá gengið manna á milli í misgóðum gæðum meðal Bowie aðdáenda og því fannst mörgum þetta nokkur fengur. Þegar gripurinn svo loks barst almenningi í hendur gætti nokkurra vonbrigða með gripinn, því mörgum fannst að við hljóðvinnslu efnisins hafi átt sér stað of mikil hreinsun og sándið því ekki skila þeim hljóðum sem menn höfðu upplifað á tónleikunum sjálfum.
Því svo fór að gagnrýnendum, sumum hverjum að minnsta kosti, fannst nokkrar ólöglegu upptökurnar hafa upp á meiri gæði að bjóða og komast nær tónleikunum sjálfum en löglega platan. Einnig þóttu umbúðir plötunnar lítt unnar og allar upplýsingar og umfjallanir um efni plötunnar vanta. Þó svo ekki hafi verið nægilega vel gert hvað þessa útgáfu varðarði var efnið kærkomið í safnið.
Þess má svo geta svona til að halda söfnurunum við efnið að platan kom út með mismunandi mynd á framhlið eftir því hvar hún var gefin út og hvenær sem gerir það að verðugu verkefni fyrir aðdáendur að eignast allar útgáfurnar. Platan var fyrst gefin út í Evrópu, síðar Bandaríkjunum og síðar komust menn að gagnkvæmri niðurstöðu er varðaði umslagið þegar platan var endurútgefin af EMI árið 2008.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.