David Bowie 30. hluti

Tin Machine II /  Live – Oy Vey Baby

Tin-machine2Eftir að Bowie hafði eytt nokkrum dögum með Iman kom að því að halda aftur til vinnu. Hann hafði undirritað að talið er þriggja plötu samning við EMI og Tin Machine hafði þegar skilað einni plötu fyrir þann samning og í ferðum sínum við tónleikahald hafði hún hljóðritað ein fimm lög í hljóðveri í Ástralíu.

EMI var hinsvegar ekki tilbúið að veðja á aðra Tin Machine plötu og lagði að Bowie að vinna frekar aðra plötu í anda Let’s Dance, en sú hafði gefið þeim vel í báðar hendur.
Bowie taldi það hinsvegar af og frá og fóru svo leikar að EMI losaði samning sinn við Bowie og félaga í Tinvélinni.
Sveitina hafði ákveðið að stefna á aðra plötu og hélt því í hljóðver í Los Angeles  og tók upp ein þrjú lög undir stjórn Hugh Padgham sem unnið hafði Tonight plötuna með Bowie nokkrum árum áður.
Bowie og félagar náðu samningum við Victor Music um útgáfu plötunnar sem einfaldlega fékk heitið Tin Machine II. Platan sem út kom 27. dag ágústmánaðar 1991 var fundinn staður í hillum verslana þó ekki allra eins og síðar kemur fram.

Á Þessari plötu virðist bandið þéttara og samspil þeirra fjórmenninga öruggara en á fyrri plötu sveitarinnar. En heildarútkoman þótti þó ekki eins heilsteypt og fyrri platan. Það sem helst greinir þessa plötu frá fyrri plötu sveitarinnar er að aðrir meðlimir Tin Machine, en Bowie kom meira við sögu hvað röddun varðar. Útkoman er sú að þetta telst plötunni til tekna og gefur henni aukin lit.

Meðal efnis má finna á Tin Machine II lagið If There Is Something, eftir Brian Ferry sem út kom á fyrstu plötu Roxy Music, en það var eina lagið á Tin Machine II sem ekki var eftir þá félaga í tinvélinni.

tinmachine2USAHvað tónlistarlegan stíl varðar er róið á sömu mið og á fyrri plötunni og því fátt nýtt undir sólinni hvað það varðar. Engu að síður vakti útgáfan talsverða athygli vestur í Bandaríkjunum. Ekki var það þó vegna tónlistarinnar heldur voru það umbúðirnar eða öllu heldur framhlið umslagsins sem olli nokkru írafári þegar ljóst varð að um það bil 60% plötuverslana í landi frjálsræðisins neituðu að stilla plötunni upp í gluggum verslana sinna. Ástæðan var að umslagið prýða fjórar forngrískar styttur af nöktum karlmönnum. Stytturnar hafa verið kenndar við Kouros í Grikklandi og þykja sýna fyrstu burði forngrískra listamanna til að greina á milli guða og manna í verkum sínum.
Með þessu neyddu verslanirnar útgefanda plötunnar til að breyta umslaginu og var að lokum var farin elsta leið mannsins við að hylja nekt sína, þá sömu og Adam og Eva notuð í aldingarðinum forðum, það er að nota laufblöð, en í þessu tilfelli, til að hylja nektina grísku listarinnar.

tinmachineDavid Bowie: Eftir því sem ég best veit er þetta í fyrsta skipti sem bandarískum almenningi er meinaður aðgangur að klassísku listaverki. Sú ákvörðun að hafna umslaginu minnir einna helst á verk rannsóknarréttarins til forna.

Til gamans má nefna að sama dag og Bowie fékk fréttirnar um að hið menningarlega umslag kæmi svo við blygðunarkennd bandarísks almennings að það yrði hugsanlega bannað birtist stór litmynd af Kouros styttunum framan á aukablaði New York Times. Það er víst ekki sama þar frekar en annarsstaðar hvort þú ert bara Jón eða séra Jón, hvort það er rokkplata eða virt dagblað.

Platan náði ekki þeirri sölu sem aðstandendur höfðu vænst en einstök lög hennar gerðu það þó þokkalegt að einstökum vinsældalistum. Velgengni Bowie í hringum Sound and Vision hafði vakið Bowie á ný og að klára þessa plötu með Tinvélinni var frekar skylduverefni af hálfu Bowie. En um líkt leiti og ljóst var að dagar sveitarinnar væru taldir var gefin út með litlum tilkostnaði plata með nokkrum tónleikaupptökum sveitarinnar

Tin-Machine-Live---Oy-Vey-Bab-228118Live – Oy Vey Baby var heiti hennar og kom hún út þann 22. júlí 1992. Platan hefur að geyma hljómleikaupptökur þekktra laga sveitarinnar sem hljóðrituð höfðu verið að mestu í Bandaríkjunum og Tokíó á tímabilinu 1991 til 1992. Þá var einnig  gefið út myndbandi. með sama nafni sem hafði að geyma svipað efni. Þrátt fyrir slaka dóma fagtímarita náði platan að setjast í 23. sæti breska listans er sást aðeins á þeim lista í þrjár vikur. Hún gerði það betur í Bandaríkjunum þar sem hún náði þriðja sæti. Segja má að með þessari plötu og myndbandinu hafi hljómsveitin Tin Machine sungið sinn svanasöng og við tók sólóferill Bowie á nýjan leik, ferskari en um langan tíma. Enda mál manna að Bowie hafi verið nokkuð langt frá því að vera ánægður með þá staðreynd að lúta vilja annara þegar að tónlistarsköpun kom.

PS: Þess skal geta að þeir sem eiga í fórum sínum plötuna Tin Machine III eru með svonefnda “Bootleg” plötu í höndunum sem er ólögleg útgáfa.
Þá má einnig taka það fram fyrir áhugasama að platan var gefin út í Indónesíju og á þeirri útgáfu syngur Bowie lagið Amlapura á Indónesísku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband