28.1.2011 | 01:41
David Bowie 29. hluti
Tin Machine
Hljómsveitin Tin Machine var vettvangur tónlistarsköpunar David Bowie á hans 24. starfsári, en hann hafði ekki starfað með hljómsveit síðan á 7. áratugnum. Tin Machine var kvartett. Auk Bowie var gítarleikarinn Reeves Gabrels einn af tin vélinni og á trommur og bassa léku þeir bræður Hunt og Tony Sales en þeir höfðu áður starfað með Bowie 1977, þá við upptökum á plötu Iggy Popp í Berlín.
Fyrir sína fyrstu afurð hljóðritaði Tin Machine ein 35 lög í Montreux hljóðverinu í Sviss seinni hluta árs 1988 með hléum þó, því Bowie sinnti einnig leiklistagyðjunni meðan á upptökum plötunnar stóð. Er hann brá sér fram fyrir kvikmyndavélarnar í hlutverki Pontiusar Piladusar í myndinni um síðustu daga Krists.
Myndin sem nefndist á frummálinu The Last Temptation of Christ, fékk almennt ekki góðar viðtökur enda efnið kannski þess eðlis að eðlilegt væri að hún færi að mestu fyrir ofan garð og neðan hjá kvikmyndahúsagestum.
Plata Tin Machine var þrykkt í plast og ekið til verslana í maímánuði 1989 og bar einfaldlega nafn sveitarinnar. Áhrif hennar voru sótt aftur til árana 1966 til 1979 eða þess tíma sem frægðarsól Bowie hafði skinið hvað skærast. Þrátt fyrir það var tónlistin í flestu ólík öllu því sem frá Bowie hafði komið áður.
Aðall plötunnar er kröftugur gítarleikur sem stundum vegur salt á milli bárujárnsrokks og pönks. Áhrif frá Hendix voru augljós og jafnvel má finna tilvitnanir í spámenn á borð við Keith Richards í nokkrum lagana. Það gladdi eyru margra að Bowie var hér aftur farinn að fást við gítarleik eftir þó nokkurt hlé.
Textar plötunnar voru margir hverjir hinir ágætustu, Bowie spyr þar áleitinna spurninga og lýsir skuggahliðum mannlegrar tilveru auk tilhlýðilegra ástarhugleiðinga. Lög og textar sem Flest eru lögin skrifuð á meðlimi sveitarinnar að einu undanskyldu sem telja verður með betri lögum hennar en það er verkamannaóður Johns Lennons A Working Class Hero.
Fyrir aðdáendur má taka fram að Bowie tók síðar eitt laga plötunnar; I can't Read og hljóðritaði það á ný fyrir myndina Storm og var lagið gefið út á smáskífu sem alfarið var skráð á Bowie.
Segja má að maður kannist við þennan Bowie, krafturinn og ferskleikinn virðist kominn heim á ný að einhverju leiti. Með tilkomu Tin Machine gátu gamlir Bowie aðdáendur komið úr felum og tekið gleði sína á ný. Allavega gladdist margur plötukaupandinn því fyrsta breiðskífa sveitarinnar náði 3. sæti breska breiðskífulistans. Það var ekki aðeins tónlistarlegur útgangspunktur að snúa aftur til upphafsins heldur var farið alla leið því í kringum útgáfu plötunnar héldu meðlimir Tin Machine í stutta hljómleikaferð seinni hluta júní mánaðar og gáfu út þá yfirlýsingu að aðeins væri ætlunin að spila á minni stöðum, þá helst börum og veitingarhúsum, líkt og ungar sveitir höfðu gert á árum áður, og gera sumar enn.
Bowie gerði það líka gott hvað varðaði eldra efni sitt, RCA sem gefið hafði flestar plötur hans út hafi að vísu endurútgefið stóran hluta sólóplatna hans 1983-84 á CD, en varð að hætta útgáfu þeirra vegna galla í samningum, þar sem oftar en ekki var talað um í hvaða formi útgáfurétturinn næði til. Talsverð eftirspurn hafði því myndast á markaði eftir efni hans á CD plötum. Þegar menn svo settust niður til að greiða úr málum varð það ofan á að Bowie ætti rétt sjálfur á talsverðum fjölda platna á CD plötum og ákvað Bowie í ljósi þess að nánast bjóða verkin út. Það var Bandarískt sjálfstætt smáfyrirtæki Rykodisc sem hneppti hnossið. Þetta fyrirtæki hafði sérhæft sig vönduðum endurútgáfum, meðal annara listamanna sem fyrirtækið hafði séð um að endurútgefa má nefna Frank Zappa og var mál manna að þær endurútgáfur hefðu heppnast ákaflega vel.
Rykodisc tók sér því að annast útgáfu 18 eldri platna Bowie fyrir Bandaríkjamarkað og komu velflestar plöturnar út með aukaefni. EMI fékk hinsvegar samninginn hvað Bretland og evrópu varðaði. Kóróna þessarar útgáfu var þriggja platna safnkassi með lögum af eldri plötum í bland við fágætt efni og annað áður óútgefið. Safninu var ekki aðeins vel tekið af aðdáendum því útlit og frágangur á gripnum þótti til mikillar fyrirmyndar og vann reyndar til Grammy verðlauna þetta ár sem besta endurútgáfa ársins. Þess má einnig geta að nokkrum árum síðar var safnið uppfært og endurútgefið í örlítið breyttri mynd. Meðreiðarsveinn þessa safns var safnplatan ChangesBowie. Í kjölfar velgengni endurútgáfunnar ákvað Bowie að hvíla sveitina Tin Machine og koma það fáum á óvart. Því menn höfðu fundið vel fyrir þeim listrænu efasemdum sem hreiðrað höfðu um sig í hverri taug tónlistarmannsins David Bowie eftir útkomu annarra plötu þeirrar sveitar og höfðu margir spurt sig hvort listrænum metnaði hefði nú enn og aftur verið fleygt fyrir borð, en svo var ekki. Það var tilkynnt þann 23. janúar 1990 að framundan væri sex mánaðar hljómleikaferðarlag, sem innihéldi 110 hljómleika í 15 löndum. Yfirskriftin ferðarinnar kom ekki á óvart, Sound And Vision Tour. Fjárhagsáætlanir ferðarinnar gerðu ráð fyrir að hagnaður Bowie, að kostnaði greiddum, yrði ekki undir 20 milljónum punda. Ferðin hófst í Kanada 4. mars 1990 og stóð fram í septemberlok sama ár með hljómleikum í Chile.
Skömmu eftir að ferðinni lauk fann Bowie ástina á ný. Sú hét Iman og hafði starfað sem súpermótel, ættuð frá Sómalíu en hafði starfað um skeið í Bandaríkjunum. En Bowie gerði meira á árinu 1990 en gera stóra samninga um endurútgáfur, skreppa í sex mánaðar tónleikaferð og finna sér nýja konu. Hann kláraði árið á að leika í myndinni The Linguini Incident ásamt Rosanna Arquette en saman fóru þau með aðalhlutverk myndarinnar, sem ekki fór hátt þrátt fyrir ágætis tilþrif. En hvíldardaginn tók kappinn því næst heilagan sem voru næstu sex mánuði sem Bowie eyddi í Sviss og sagan segir að þar hafi hann leikið á alsoddi ástfanginn upp fyrir haus.
PS:Fyrir áhugasama og safnara má taka það fram að mismunandi uppröðun var á hljómsveitarmeðlimum framan á umslögum LP plötunnar, CD plötunnar og kassettunnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.