27.1.2011 | 15:02
David Bowie 28. hluti
Never Let Me Down
Til að hljóðrita næstu plötu í Mountain hljóðverinu í Sviss fékk Bowie til liðs við sig meðal annarra Carlos Alomar auk hljómborðs, trommu og bassaleikarann Erdal Kizilcay, þá mætti til leiks gamall skólabróðir sem var enginn annar en gítargúrúinn Peter Framton.
Megin innihald plötunnar Never Let Me Down sem út kom 27. apríl 1987 er enn ein stórborgarsýn höfundar. Sögusviðin eru skuggahverfi New York borgar þar sem Bowie dregur sem fyrr upp dökkar myndir af harðneskjulegu lífi stórborgarinnar, nú eru það fátækrahverfanna sem eru honum hugleikin og þeim frumskógarlögmálum sem þar ríkja.
Lífi undirmálsmanneskjunnar sem á sér ekki viðreisnarvon er lýst á afar myndrænan hátt í upphaflaginu Day-In Day-Out, reyndar svo myndrænu að stjórnvöld í Bandaríkjunum sá ástæðu til að banna myndræmu sem gerð var við lagið til sýningar í sjónvarpi, nema það væri klippt verulega.
Á endanum verða þó slík skilyrði sjaldnast til annars en að vera góð auglýsing fyrir viðkomandi myndbrot.
Á öðrum stað plötunnar telur Bowie að þessa hnignun megi að stórum hluta rekja til sinnuleysis stjórnvalda og muni aðeins geta endað á einn veg á nýrri öld og síðasti byggilegi staðurinn verði fjarri þeirri jörð sem mannskepnan nú búi á.
En Bowie gerir fleira á Never Let Me Down en draga upp eymd fátæktarhverfana, því titillag Never Let Me Down er þakklætisóður hans til handa einni dyggustu aðstoðarmanneskju sinn gegnum árin Corrine "Coco" Schwab en sú hafði starfað fyrir Bowie allt frá dögum Main Man útgáfunnar í upphafi áttunda áratugsins, og segir sagan að þau hafi verið elskendur af og til allan þann tíma. Platan Never Let Me Down er vart hægt að skilgreina tónlistarlega öðruvísi en sem rokkplötu í léttari kantinum, einhverja undarlegt blöndu rokk / popp með dansvænu ívafi. Þar sem trommutaktur og synthesizer liggja framarlega í hljóðblöndunin.
Almennt fékk Never Let Me Down ekki góða dóma gagnrýnenda né harðra Bowie aðdáenda.
Sjálfur varð Bowie eftir á hundfúll út í sjálfan sig fyrir þessa plötu, sagði að hann hefði ekki einu sinni átt að íhuga að fara inn í hljóðver til að taka plötuna upp, hvað meira. Sú harða samfélagsgagnrýni sem er að finna á plötunni hefur enga þýðingu fyrir mig, hvorki nú né þá. Ég var mjög ósáttur við allt það sem ég var að gera á þessum tíma og það kristallast vel í tónlistinni, sagði Bowie síðar í viðtali og heldur áfram. - Lets Dance var frábær plata sem átti vel við á þeim tímapunkti sem hún var gerð, en næstu tvær plötur voru afleitar og þá sérstaklega Never Let me Down sagði Bowie um plötuna síðar.
Hinn almenni plötukaupandi tók gripnum þó mun betur sem gerði það að verkum að platan komst í 6. sæti sölulistans í Bretlandi skömmu eftir útgáfudag. Í kjölfarið var efnt til hljómleikaferðar er bar yfirskriftina Glass Spider. Enn og aftur sannaði Bowie hæfni sína í sjónrænum uppákomum. Því tæknilega séð var þetta lang viðamesta hljómleikaferð hans til þessa sem í árslok var talin í öðru sæti yfir íburðarmestu og flottustu hljómleika ársins, á eftir Pink Floyd og túr þeirra The Wall. Sem dæmi var notuð 600.000 watta ljósastöð við að keyra það rafmagn sem þurfti, meðal annars ljósumprýdda risakónguló sem var einskona himinn yfir sviðinu. Samtals störfuðu um 150 manns að því einu að halda ferðinni úti og til að flytja búnað milli staða óku 43 risatrukkar um þjóðvegi Bandaríkjanna með búnað sem notaður var við hljómleikahaldið.
Aðeins er vitað um eitt leiðindaatvik sem varpaði skugga á annars frábæra hljómleikaferð en það var ákæra hinnar 30 ára gömlu Wanda Nicholls á hendur Bowie fyrir meinta nauðgun sem hún sagði að átt hefði sér stað á hótelsvítu söngvarans. Þegar svo að því kom að rétta ætti í málinu var ákæran dregin til baka og sú skýring opinberuð að ákærandi hafi gert þetta til þess eins að vekja athygli á sjálfri sér. Að þessum atviki undanskyldum gat Bowie lítið annað en verið ánægður með útkomu þessara tónleika sem um 3 milljónir manna sáu og sló þar út miðasölu á Lets Dance tónleikunum en talið var að rúm tvær og hálf milljón manna hafi keypt miða á þá tónleika.
Það fór ekki mikið fyrir Bowie fyrri hluta árs 1988. Þó mætti hann á hljómleika í London þar sem hann lék nokkur lög ásamt gítarleikaranum Reeves Gabrels og tilkynnti í kjölfarið stofnun nýrrar rokksveitar. Þá var sólóferillinn lagður á hilluna í billi að minnstakosti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.