24.1.2011 | 18:52
David Bowie 27. hluti
Tonight
Eftir miklar annir við eftirfylgni plötunnar Lets Dance og hvern leiksigurinn eftir annan hefði vel mátt ætla að okkar manni gæfist kostur á hvíld. En svo var nú aldeilis ekki. Haustið 1984 skundaði hann ásamt fríðu föruneyti inn í hljóðver í Kanada þar sem hans 19 breiðskífa Tonight var tekin upp á þremur vikum. Sjálfur hefur Bowie viðurkennt að um svokallaða samnings plötu hafi verið að ræða, það er að hún hafi ekki verið gerð af listrænum metnaði höfundar. Mikið fremur fyrir tilverknað samnings sem Bowie þurfti að standa við, enda fór svo að platan var dæmd sem hans slakasta á ferlinum. Þrátt fyrir að platan næði fyrsta sæti breiðskífulistans í Bretlandi og sæti á þeim lista í heilar 19 vikur. Platan gerði það líka gott sölulega í Bandaríkjunum þar sem hún kleif í 11 sæti og sat jafnmargar vikur á lista.
Það vekur athygli að aðeins tvö af níu lögum plötunnar eru fullkomin eign Bowie sjálfs. Önnur eru annað hvort samin af Bowie og Iggy Popp eða þá fengin að léni frá öðrum listamönnum. Á Tonight rær Bowie á önnur mið í tónlistinni en aðdáendur hans áttu að venjast. Áhrif frá Vestur-Indíum og Suður Ameríku eru áberandi eins og lögin Dont Look Down, Tumble And Twirl og titillagið Tonight bera glöggt vitni. Í síðast nefnda laginu naut Bowie fulltingis Tinu Turner við raddsetning og er útkoman dágóður dúett og varð smellur þessarar plötu hvað almenna útvarpsspilun varðarði.
Eitt áheyrilegasta lag plötunnar þótti bein og auðsæ skírskotun í Scary Monsters plötuna frá 1980. Í titillagi þeirrar plötu lýsir Bowie skrímslinu ógurlega sem heldur honum í helgreipum óttans. Skrímslinu sem við nánari athugun reynist vera persónugervingur eiturlyfja. Í laginu Loving The Alien heldur predikunin áfram og engu áhrifaminni en fyrr. Hér lýsir Bowie af eigin reynslu þeirri sjálfsblekkingu sem einkennir allt líf þeirra sem nota eiturlyf. Hann líkir neytandanum við ofsatrúarmann sem blótar guð sinn í blindni, afneitar staðreyndum og felur líf sitt í hendur heilögum anda, líkt og krossfarinn fer eiturlyfjaneytandinn eins langt og hann kemst, jafnvel lengra í trúnni á guð sinn almáttugan; eiturlyfjunum.
Samhliða útgáfu plötunnar gerði Bowie myndskreytingu við fyrrnefnda lagasmíð auk þess sem ráðist var í gerð 22 mínútna langrar myndar við lagið Blue Jean. Leikstjórn var í höndum hins kunna Julian Temple en sjálfur fór Bowie með tvö helstu hlutverk myndbandsins. Í myndinni sem kallast Jazzin For Blue Jean gerir Bowie sér mat úr persónudýrkun almennings, nokkuð sem hann þekkti vel af eigin raun enda var útkoman stórskemmtilegt ádeilumyndband sem ætti í raun að vera skylduáhorf fyrir hvern þann sem óvænt slær í gegn. Reynar verða flestir Bowieaðdáendur að viðurkenna að platan hefur elst vel og mörg laga hennar eru vel útvarpsvæn enda hafa þau lifað þar ágætu lífi.
Í byrjun ársins 1985 ljáði Bowie bandaríska kvikmyndafyrirtækinu Universal krafta sína er hann fór með hlutverk kaldrifjaðs morðingja í annars flokks sakamálareifara sem bar titilinn In To The Night.
Að frumsýningu myndarinnar undanskilinni hafði Bowie sig lítið í frammi fyrri hluta árs 1985. Á því gerði hann þó bragabót 13. dag júlí mánaðar þegar hann tróð upp ásamt hljómsveit á einhverjum frægustu tónleikum sögunar Live Aid sem efnt var til á Wembley. Bowie mætti eins og sönnum séntilmanni sæmir í jakkafötum með bindi og á tæpum hálftíma töfraði hann hálft mannkyn með stórkostlegum leik. Á efnisskrá kappans voru fjögur lög TVC15, Rebel Rebel, Modern Love en hápunkturinn var magnaður flutningur Bowie á hinu frábæra lagi Heroes.
Samhliða tónleikunum var útgefið á smáskífu topplagið Dancing In The Street sem Bowie söng í félagi við annan rokkjöfur Mick Jagger. Almennt glöddust menn yfir að þessir vinir og samstarfsfélagar tæku sama lag en voru þó hálfgramir yfir því að þar væri ekki um frumsamið efni að ræða.
Á því eina og hálfa ári sem næst leið lék Bowie í tveimur kvikmyndum. Absolute Beginners sem Julian Temple stýrði og síðan Ævintýramyndinni Labyrinth sem brúðupabbarnir Jim Hanson og Terry Jones gerðu í sameiningu. Bowie á lög í báðum þessum myndum og reyndar einni að auki, The Falcon And The Snowman. Þar sem hann kyrjar lagið This Is Not America við undirleik djassistans Pat Metheny sem sá um aðra tónlist myndarinnar. Og þykir lagi en í dag ein af perlum Bowie.
Bowie þótti skyla hlutverkum sínum með miklum sóma og fram kom í viðtölum við þá sem störfuðu að þessum myndum að Bowie væri vel fær sem leikari og hefði án efa slegið í gegn á því sviði hefði hann valið sér þann starfsvettvang.
Árið 1986 hitti Bowie fornvin sinn Iggy Popp í hljóðverinu á ný þar sem þeir í sameiningu sköpuðu nýja og stórgóða sólóskífu þess síðarnefnda er ber heitið Bla bla bla. Saman semja vinirnir obbann af lagasmíðum plötunnar, auk þess sem útsetningar eru alfarið í höndum Bowie en sá góði maður á útgáfuréttinn á plötunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.