David Bowie 26. hluti

Let's Dance 

Let's Dance 1983Bowie hafði nú uppfyllt þær kröfur í samningi sínum við RCA er hljóðaði upp á tólf breiðskífur og 27. janúar 1983 undirritaði hann fimm ára samning við EMI sem færði honum litlar 17 milljónir dollara í aðra hönd við undirritun, auk hagnaðar sem síðar kæmi, yrði hann einhver. Nokkrum dögum síðar hófst Bowie svo handa við gerð næstu plötu og sinnar fyrstu fyrir EMI. Til leiks mætti hann með diskóboltann Nile Rodgers í hlutverki upptökustjóra og hinn frækna gítargarp Stevie Ray Vaughn. Platan Let’s Dance sem út kom í apríl 1983 var langléttasta plata Bowie til þessa og augljóst var á öllu að honum var ekki mikið niðri fyrir, hvorki í tónlist né textum. Af átta lögum plötunnar voru þar aðeins fimm alný lög. Tónlistin var fágað en áheyrilegt popp og textarnir flestir einfaldur ástarkveðskapur.

Bowie 1983David Bowie:Í upphafi áttunda áratugarins einkenndist diskóstemmingin í Bandaríkjunum af frumleika og eldmóði og var töluverðan sköpunarkraft að finna í þessum nýja sprota tónlistarinnar, en í seinni tíð hefur þetta þróast í hálf óhugnalega þráhyggju fólks að þurfa að tolla sem best í tískunni. Þetta skrýtna andrúmsloft reyndi ég að túlka í Fashion.

Hinir nýju útgefendur máttu vel við una því Let’s Dance seldist hraðar en nokkur plata á vegum EMI allt frá útkomu Bítlaperlunar St. Peppers árið 1967. Toppsætið á breska breiðskífulistanum var auðfengið og titillagið var fyrsta og eina lag Bowie sem náði toppsætinu beggja vegna Atlansála á sama tíma. Skömmu eftir útgáfuna tilkynnti EMI að rúmri viku eftir útgáfuna hefði fyrirtækið náð til baka sinni sautján milljóna dollara greiðslu til Bowie í formi hagnaðar af plötunni.
Þrjú laga Let’s Dance eru gömul lög í nýjum búningi og eitt þeirra er China Girl, lag sem Bowie og Iggy Popp höfðu samið fyrir plötu þess síðarnefnda The Idiot, árið 1977. Bowie færði þetta lag í aðgengilegri búning og flestum bar saman um að það væri einna eftirminnilegast af öllum lögum Let’s Dance. Lagið náði öðru sæti breska listans í júní 1983.

Lets Dance tónleikarBowie tilkynnti nú um sína fyrstu hljómleikaferð í fimm ár og bar þeysireiðin hina skáldlegu yfirskrift The Serious Moonlight Tour. Á meðal þeirra sem lögðu hönd á plóg við undirbúning herlegheitanna var listamaðurinn Mark Ravitz en í hans höndum var gerð risavaxinnar sviðsmyndar en Ravitz þessi var einmitt maðurinn á bak við sextán stórfenglegar sviðsmyndir á Diamond Dogs för Bowie rúmum átta árum áður.

Aðeins viku áður en fyrstu tónleikar ferðarinnar áttu að hefjast í Brussel vorið 1983 rak Bowie aðal gítarleikara sinn Stevie Ray Vaughn þar sem honum þóttu kaupkröfur karls vera í hærra lagi. Nú voru góð ráð dýr! Hvar átti að hafa upp á færum gítarleikara sem gæti á einni viku æft upp tuttugu laga prógramm. Umboðsmaður Bowie vissi hvar leita skyldi hófana, lagði hönd á skífu og hringdi í Earl Slick en hann hafði verið náinn samstarfsmaður Bowie á áttunda áratugnum. Frá árinu 1976, eða í sjö ár höfðu þeir þó ekki talast við eftir rifrildi og opinbert skítkast í fjölmiðlum. Það var því með semingi að Slick samþykkti að vera með og eftir fyrsta fund þeirra Bowie í Brussel var stríðsöxin grafin og ástæða sjö ára ósættis sögð vera misskilningur einn, sem magnast hefði vegna barnaskapar hlutaðeigandi. Og viti menn, í fimm daga, frá morgni til kvölds sat Slick boginn yfir gítargarmi sínum og sveittur í lófunum fór hann yfir lagaprógramm tónleikana. Ekki brást Slick þegar á hólminn var komið og þótti reyndar standa sig einna best af aðstoðarmönnum Bowie í öllum túrnum sem varð hin mesta sigurför. Uppselt á yfir sjötíu tónleika og gagnrýnendur sammála um að þvílík hágæða sýning hefði sjaldan sést.

Að ferðinni lokinni var litið yfir ósköpin og komu þá ýmsar tölur í ljós, aðeins skal hér stiklað á nokkrum þeirra: Að baki voru 96 tónleikar í 59 borgum Evrópu, Norður Ameríku og Asíu, áður en yfir lauk. Þetta reyndust vera 12.270 mínútur af tónlist í 2.208 lögum sem leikin höfðu verið fyrir 2.601.196 áhorfenda í 15 löndum. Stærsta sýningin hafði verið í Aukland, í Nýja Sjálandi þar sem mætt höfðu 80.000 manns en sú minnsta var í heimalandi kappans á Hammersmith Odeon í London þar sem aðeins mættu 2.120 manns. Hluti ferðarinnar var festur á filmu sem síðar sem síðar átti einnig eftir að skila dágóðum hagnaði til viðbótar.

Með þessari plötu hafði Bowie endurnýjað aðdáendahóp sinn og náð til yngri aldurshópa. Eldri áðdáendur kappans glöddust innst inni en töldu af og frá að taka of mikinn þátt í fagnaðarlátunum vegna plötunnar Let's Dance. Dróu þess í stað fram gömul verk eins og Diamond Dogs og Ziggy Stardust og tilkynntu hinum nýja og unga aðdáendahópi að þarna væri hinn raunverulegi meistari. Poppið á Let's Dance hefði ekkert með snilli Bowie að gera. Margir líta enn svo á að með þessari plötu hafi Bowie glatað ákveðnum ljóma sem framsækinn og leitandi tónlistarmaður en um leið gengið markaðsöflunum á hendur með smíði vinsældapopps að ódýrari gerðinni. Svo voru aðrir sem betu réttilega á að Bowie hefði áður daðrað við diskótónlistina t.d. með laginu Fame. Munurinn á Bowie og öðrum sem tekið hefðu þátt í þessum dansi væri sá að Bowie gerði það betur en flestir aðrir.

The hungerÁrið 1983 voru frumsýndar þrjár kvikmyndir þar sem Bowie átti hlut að máli. Fyrsta skal nefna vampírumyndina The Hunger en söguþráður þeirrar myndar þótti með eindæmum kjánalegur. Gekk út á það eitt að sýna vampírupar eitt, leikið af David Bowie og frönsku fegurðardísinni Catherine Deneuve súpa á blóði fórnarlamba sinna og varðveita þannig eigin fegurð og ungdóm. Myndin sem sýnir Bowie eldast um 170 ár þykir einkar falleg fyrir augað og ekki skemmdi öflug tónlist fyrir en hún var flutt af hljómsveitinni Bauhouse.

mr_lawrenceÖnnur kvikmyndin sem sýndi Bowie í höfuðhlutverki árið 1983 var Merry Christmas Mr. Lawrence, sem unnin var í samvinnu Breta og Japana. Í myndinni fer Bowie með hlutverk dáta frá Nýja Sjálandi sem lendir í höndum Japana í heimsstyrjöldinni síðari og segir myndin frá pínlegri dvöl hans í fangabúðum þeirra gulu og kvalarfyllum aðskilnaði hans við ættingja og vini. Aðskilnaður söguhetjunnar í Merry Christmas Mr. Lawrence þykir minna á fortíð David Bowie en í hans tilfelli var það ekki styrjöld sem sleit hann úr tengslum við fjölskylduna heldur tónlistin. Gagnrýnendur voru sammála um að sjaldan hefði Bowie tekist jafnvel upp fyrir framan myndavélarnar og var viðkvæði sumra þeirra að hann hefði einfaldlega verið að leika sjálfan sig með þetta góðum árangri.
Meðal annarra leikara myndarinnar voru Tom Conti og japanski tónlistarmaðurinn Riuichi Sakamoto en auk þess að leika stórt hlutverk átti hann allan heiðurinn af tónlist myndarinnar.

Þriðja myndin þar sem Bowie kom við sögu var misheppnuð sjóræningja grínmynd sem Monthy Pylton gengið átti vafasaman heiður að. En Wello Bird eða Gulskeggur kallaðist hún. Sjálfur var Bowie í fríi á svipuðum slóðum og myndin var tekin er hann var gripinn, glóðarsteiktur í sólbaði og það var ekki af sökum að spyrja; hann var dreginn nauðugur, viljugur í tökur. Reyndar var hlutverk Bowie með léttvægasta móti. Hann lék hákarl og sást aðeins í um það bil 20 sekúndur á tjaldinu.

Tónleikaplatan ZiggyÍ október 1983 kom svo loks á markað tvöföld hljómleikaplata frá tónleikum Bowie er haldnir höfðu verið Hammersmith Odeon í London 3. júlí 1973 sem áður hefur verið minnst á. Gripurinn var gömlum Bowie aðdáendum kærkominn í safnið enda getur þar að heyra hina frægu yfirlýsingu Bowie er markaði andlát félaga Ziggy Stardust og endalok sveitarinnar Spiders From Mars. Platan hafði og að geyma magnaðan flutning Bowie á verki Jacques Brel, My Death ásamt lögum eins og The Wild Eyed Boy From Freecloud, All The Young Dudes, Oh You Pretty Thing að ógleymdum svanasöng Ziggy Stardust, Rock ‘n’ Roll Suicide. Þessi gripur er enn í miklum metum meðal aðdáenda og er að mörgum þeirra tail ein besta tónleikaplata sem út hefur komið frá ferli kappans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessa pissla

gaman að þessu

Makki (IP-tala skráð) 19.1.2011 kl. 12:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband