16.1.2011 | 17:11
David Bowie 24. hluti
Lodger
Bowie lét ekki deigan síga, Í september 1978 tóku Bowie og félagar sér frí frá tónleikahaldi og héldu í hljóðver þar sem unnin var næsta plata kappans sem til stóð að fengi heitið Planned Accidents síðar kom heitið Despite Lines til greina, áur en ákveðið var að hún fengi heitið Lodger. Þessi plata reyndist lokaverkefni Berlínartrílógíunnar sem þeir Bowie og Brian Eno unnu saman að sinni. Bowie til aðstoðar voru nánast þeir sömu og unnið höfðu með honum að Heroes plötunni og þá var gítarleikarinn Adrian Belew enn með í hópnum. Og svona til fróðleiks þá fæddist hann í Bandaríkjunum og heitir reyndar réttu nafni Robert Steven Belew.
Gripurinn komst svo í hendur almennings 18. maí 1979. Lodger eða Leigjandinn en það var nafn plötunnar eins og áður segir var nokkuð léttari áheyrnar og poppaðri en þær Low og Heroes. Þrátt fyrir að hin dulmögnuðu instrumental lög væru horfin er hún engu að síður tilraunakend og ólík því sem aðdáendur áttu að venjast frá honu,. Hér er Bowie farinn að fitla við Reggae og Afríkanska takta. Platan var þó ekki aðeins alþjóðleg tónlistarlega, því annað höfuð plötunnar var ferðalög í bókstaflegum sem og heimspekilegum skilningi þess orðs. Fantastic Voyage er lykilsöngur í þessu sambandi en ferðin sem getið er um í heiti lagsins er reyndar lífshlaup mannsins. Textinn er hvöss ádeila á ráðamenn heimsins boðbera kynþáttaaðskilnaðar og vígvæðingar, oddvitar kjarnorkuveldanna fá áminningu og Bowie bendir á að öll getum við jú misst stjórn á okkur endrum og sinnum en þegar herrarnir sem búa yfir gereyðingarmætti kjarnorkusprengjunnar missa stjórn á sér færi nú fyrst gamanið að kárna.
Kímnigáfa Bowie kemur vel fram á Lodger, ekki síst í þekktasta lagi plötunnar; Boys Keep Swinging. Bowie gerir þar grín að hefðbundnum kynhlutverkum en vissulega var nokkur ádeilubroddur í háðinu. Myndband lagsins vakti ekki síður verulega athygli, þar sem Bowie kom fram í miður þekkilegum gervum. Þess má geta að í laginu skiptu gamalreyndir hljóðfæraleikarar Bowie um hljóðfæri eins og ekkert væri. Gítarleikarinn Carlos Alomar settist við trommusettið og trommarinn Dennis Davis þreif bassann af Tony Visconti.
Þrátt fyrir að gæði plötunnar sé engum hulin stendur Lodger enn í dag líklega sem ein af vanmetnustu plötum Bowie á löngum ferli og örugglega sú sem minsta umdjöllun hefur fengið af þeim þrem plötum sem hann vann í Berlín með Brian Eno.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.