15.1.2011 | 20:37
David Bowie 22. hluti
Heroes
Hansa hljóðverið í Berlín var fasta samastaður Bowie sumarið 1977 því eftir að hafa lokið upptökum á plötu Iggy Popp hófst Bowie handa við gerð sinnar þrettándu breiðskífu. Brian Eno mætti á svæðið með sín töfratæki og tól, gömlu félagarnir Tony Visconti og Carlos Alomar voru með í för ásamt fleiri fastagestum á plötum Bowie. Enn einn góður gestur kom við sögu, gítarleikarinn Robert Fripp,sem margir kannast við úr sveitinni King Crimson, en eins og áður hefur verið minnst á höfðu þeir Flipp og Eno unnið saman plötu 1972.
Nú bar svo við að Bowie var í hörku formi enda voru nær öll lög plötunnar hljóðrituð strax í fyrstu töku sem er mjög óvenjulegt. Eno sem vanur var að bardúsa við sínar plötur svo mánuðum skipti, gapti yfir krafti Bowie og stundi upp: Fjandinn sjálfur, þetta getur ekki verið svona auðvelt.
Afrakstur þessara hljóðritana var breiðskífan Heroes, útgefin 14. október 1977. Uppbygging plötunnar var hliðstæð Low, nærfellt önnur hliðin instrumental verk Bowie og Eno en árangurinn var allur markvissari, lagasmíðarnar mun kröftugari og textarnir ekki eins þrungnir vonleysi og raunin varð með Low.
Skuggahliðar lífsins voru að vísu enn áberandi, en umfjöllunin var raunsærri að flestra mati. Black Out var og er reyndar enn eitt af sterkari lögum plötunnar með ógnvænlegu yfirbragði glundroða og skelfingar. Tvær túlkanir eru á uppsprettu textans; Sumir telja hann vísa til rafmagnsleysis í New York í júlí 1977 en aðrir benda á atburð er átti sér stað í Berlín nokkru áður er Bowie og kona hans Angela lentu í rifrildi er leiddi til skilnaðar þeirra og minniháttar taugaáfalls Bowie.
Á plötum sínum frá þessum árum notar Bowie nokkuð sérstaka aðferð í textagerðinni sem kennd er við rithöfundinn Williams Burros. Þessi aðferð er nefnd cut-up á enskri tungu. Aðspurður um textagerðina svara Bowie
David Bowie:Williams Burros á allan heiður að þessari aðferð en líklega var þó Louis Carrol upphafsmaðurinn. Svo ég sýni hvernig þetta virkar þá getum við tekið til dæmis Berlínarmúrinn sem dæmi. Hugsum okkur að einhver sé að reyna að komast yfir múrinn. Þá skrifa ég nokkrar málsgreinar út frá sjónarhóli hans, síðan túlka ég sjónarmið áhorfenda sem er öðru megin við múrinn og því næst áhorfenda hinu megin múrsins. Þá er ég með í höndunum þrjú ólík sjónarhorn af sama atburði sem ég síðan meðhöndla og annaðhvort set saman eins og þau koma fyrir eða jafnvel bý til fjórða sjónarhornið úr þeim sem fyrir eru. Þetta er hins vegar bara viðmiðun, aðferð til að gera texta en alls ekki föst regla.
- En hvað með hraðann við að semja verkin?
David Bowie: Já, ég sem yfirleitt mjög hratt, venjulega fullvinn ég lag á 20 mínútum þegar ég er á annað borð kominn af stað. Hinsvegar get ég verið í tvo, þrjá daga að velta fyrir mér hvernig ég eigi að taka á viðfangsefninu. Forvinnan tekur mun lengri tíma en verkið sjálft.
Titillagið á Heroes er eitt af meistaraverkum David Bowie. Hér er sögusviðið einmitt umræddur Berlínarmúrinn, þetta táknræna fyrirbæri sem aðskilur tvo heima sem báðir voru þó byggðir hugsandi verum. Bowie dregur upp magnaða andstæðu í textanum, annarsvegar þetta kalda tákn sundrungar en hins vegar eldheita ástríðu tveggja ungmenna sem hittast daglega við múrinn og sameinast í fullvissunni um að sameinuð fái þau fullnægt dýpstu löngunum. Lagið var táknrænt fyrir hina nýju áherslur Bowie og er enn í dag talið í hópi meistaraverka hans. Þessi listamaður sem öðlast hafði frægð fyrir sköpun hálf fjarstæðukenndra hetjupersóna komst hér að þeirri niðurstöðu að hin raunverulega hetja væri maður hversdagsins sem öðlast þrótt í gegnum trúna á sjálfan sig.
Í þetta sinn urðu gagnrýnendur að viðurkenna að Bowie hafði skapað meistaraverk og blaðamenn Meoldy Maker voru ekki í vafa: Heroes var besta plata ársins 1977. Því má svo bæta við að titillagið; Heroes var flutt á þrem tungumálum; ensku, frönsku og þýsku. Þá var þessum útgáfum og blandað saman, sér í lagi þeirri ensku og þýsku á smáskífuútgáfum sem fylgdu í kjölfar plötunnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.