15.1.2011 | 00:30
David Bowie 21. hluti
LOW
Eftir að Bowie hafði unnið með Iggy Popp að plötu hans The Idiot snéri Bowie aftur til Frakklands ásamt sínum mönnum og þar hófust upptökur fyrstu plötunnar af þrem sem hann átti eftir að vinna með Brian Eno sem upptökustjóra.
Fyrsta plata í þessari mögnuðu þrenningu var sköpuð með herkjum á útmánuðum 1976 en útgáfudagur hennar er skráður þann 14. janúar 1977. Platan ber heitið Low sem að einhverju leiti var tilvísun í sálarkreppu Bowie á þessum tíma en hún stafaði annarsvegar af hjónabandserfiðleikum en hinsvegar lýjandi málaferlum við fyrrverandi umboðsmann Bowie.
Low er gerólík fyrri verkum Bowie. Tónlistin sem samin var undir vægum áhrifum frá þýsku hljómsveitunum Kraftverk og Tangeren Dream Tónlistin var nýungagjörn rafeindartónlist, þrungin dulúð og seiðmögnuðum krafti en að sama skapi óaðgengileg þeim sem vanir voru léttum laglínum frá Bowie. Low var einnig bylting að því leiti að textarnir nú voru einhverjir þeir persónulegustu sem Bowie hafði samið. Þar sem hann áður hafði boðað fall nútíma siðmenningar í verkum sínum sýndi hann fram á hrörnun eigin persónuleika vegna of náinna kynna af ávanabindandi eiturlyfjum og bandarísku samfélagi.
Bowie sagði sjálfur um Low að fyrri hlið plötunnar fjallaði eingöngu um eigið sálarástand, en seinni hliðin sem var að mestu ósungin væri nokkurs konar túlkun á áhrifum sem austurblokkin hefði haft á hann, áhrif sem Bowie gat ekki tjáð með orðum. Megin þema plötunnar var hinsvegar einmannaleiki og einangrun sem meðal annars má sjá á texta lagsins Sound And Vision. Í textanum kemur sterklega fram nagandi ótti Bowie við að glata sköpunargáfunni en léttleikandi laglínan hefur líklega dulið fyrir mörgum raunverulegt innihald textans, enda fór svo að Sound And Vision fór í þriðja sæti breska vinsældalistans.
Þó Sound And Vision nyti vinsælda voru viðtökur gagnrýnenda gagnvart Low ekki par vinsamlegar. Þegar litið er á þessa dóma kemur þó í ljós hvað margir eru litaðir af andstöðu við Bowie vegna ummæla hans nokkru áður um Adolf Hitler en þau voru ranglega túlkuð sem stuðningur við fasisma.
Tony Visconti:Þegar við byrjuðum að vinna Low vorum við viðbúnir því að eyða í það heilum mánuði enda var hún að mestu sköpuð í hljóðverinu í Frakklandi. Við áætluðum að við yrðum líklega með helling af drasli. Sem við að öllum líkindum myndum henda en kannski yrði síðar helmingur af því sem eftir stæði sem nýttist á plötuna. En skyndilega varð okkur ljóst að við vorum komnir með eitthvað í hendurnar sem var alveg ótrúlega spennandi. Við gátum varla beðið eftir að gefa plötuna út. Viðbrögð gagnrýnenda og aðdáenda voru kannski undarleg í upphafi En Það sem hefti þessa plötu mest á sínum tíma, jafn ótrúlega og það hljómar, var útgáfufyrirtækið. Þeir hötuðu hana. Þeir vildu aðra Young Americans plötu. Svo var allavega á þeim að heyra.
Low hefur þrátt fyrir misjafna gagnrýni öðlast virðingu og kannski má segja að hún hafi einfaldlega verið á undan sinni samtíð. Tónsmiðir og tónlistarmenn sem til að mynda hafa verið að fást við ambient og eletróníska tónlist hafa litið til þessarar plötu. Það hafa klassískir tónlistarmenn og útsetjarar einnig gert eins og Phil Glass sem tók Low traustataki og með aðstoð og velvilja Bowie útsetti plötuna nánast í heild sem synfóníuverk árið 1996.
Í mars 1977 hóf Iggy Popp nokkra vikna hljómleikaferð um England og Bandaríkin og vakti heljar athygli að hljómborðsleikarinn hans sem hélt sig aftarlega á sviðinu, fjarri sviðsljósinu var enginn annar en David Bowie. Hann lét lítið á sér bera og veitti aðeins viðtöl ef blaðamenn féllust á að tala eingöngu um Iggy Popp og tónlist hans. Þessi hlédræga afstaða fylgdi Bowie öll Berlínar árin. Að lokinni þessari tónleikaferð héldu svo þeir félagar inn í hljóðver á ný og tóku upp plötu Iggy Popp er hlaut titilinn Lust For Life. En Berlínartímabil Bowie var rétt að hefjast. Með Low hafði hann afgreitt ákveðna hluti í sínu persónulega lífi. Það var komið að öðrum kafla í þessum þríleik.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.