David Bowie 20. hluti

Berlínartímablið hefst - Frá Iggy til Eno

iggyIggy Popp, gamli vinur Bowie hafði lent í erfiðleikum og munaði minnstu að hann væri lagður inn á geðveikrahæli þegar Bowie ákvað að koma honum til hjálpar eftir að tónleikaferðalagi hans um Evrópu lauk um mitt ár 1976. 
Hann ákvað að koma Iggy út á tónlistarbrautina á ný og tók hann með sér inn í hljóðver í Frakklandi. Bowie var þar sjálfur upptökustjóri og samdi vel flest lögin í félagi við Iggy. Upptökur gengu hinsvegar stirðlega og Bowie sem taldi að rétt væri að skipta um umhverfi selflutti allt heila liðið yfir í Hansa stúdíóið í Berlín þar sem platan The Idiot var fullgerð.

Bowie & Iggy Popp 1977Bowie sem fengið hafði sig fullsaddan á verunni í Bandaríkjunum hreyfst svo af Berlín að hann ákvað að setjast þar að. Dró sig að mestu út úr skarkala poppheimsins en vann að tónlistarsköpun í Berlín út áratuginn. Í kjölfar þessara búferlaflutninga fylgdu aðrar breytingar, Bowie sagði skilið við Soul tónlistina og persónuna The Thin White Duke en tók þess í stað upp samstarf við hinn fjölhæfa listamann Brian Peter George St. John le Baptiste de la Salle Eno, Líklega þekkist hann betur undir styttingu nafnsins Brian Eno.

Það er ekki úr vegi að fjalla örlítið um Eno hér enda á hann stóran hlut í næstu verkum okkar manns. Eno fæddist 15. Maí 1948. Eftir hefðbundna skólagöngu fór hann í listnám þar sem hann lagði stund á málun og áhugasviðið var einhverskonar  minimalismi. Hann hafði þó sama og enga tónlistarlega reynslu eða þekkingu þegar hann gekk til liðs við hljómsveitina Roxy Music snemma árs 1970.

BowieEno77_2Hljómborðsleikurinn heillaði og þau tæki og tól sem hægt var að vinna með hljóð eignuðust fljótlega hug hans allan. Roxy Music skaust upp til metorða í vinsældum Glam-Rokksins upp úr 1970 og óhætt að segja að sú sveit eigi okkar manni David Bowie þar talsvert að þakka. Erfiðleikar Eno í samstarfi við söngvara sveitarinnar Brian Ferry og hin stöðugu tónleikaferðalög urðu til þess að Eno ákvað að yfirgefa sveitina skömmu eftir útgáfu plötunnar For Your Pleasure árið 1973.

Eno hóf þá sólóferil með Art-Rokk plötum sínum Here Come the Warm Jets og Taking Tiger Mountain (By Strategy) en báðar plöturnar komu út árið 1974. Eno hafði skapað sér nafn á sviði tilraunakendrar tónlistar og 1972 vann hann m.a. plötu með Robert Flipp sem verið hafði í King Crimson.

Árið 1973 hafði Eno byrjað að taka að sér að stjórna upptökum og útsetja með sín galdratæki og tól og hafði unnið fyrir þó nokkra aðila eins og t.d. Genesis áður en hann tók upp samstarfið við Bowie. Fyrsti hluti þessa samstarfs entist út næstu þrjár plötur sem í dag ganga undir nafninu Berlínatrílógían þrátt fyrir að hluti platnanna væri hljóðritaður í Frakklandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband