David Bowie 19. hluti

Station to Station

Station To StationBowie sem dvalið hafi í Mexico um stíma eftir að tökum á myndinni The Man Who Fell To Earth lauk hélt í október 1975 til Los Angeles. Þangað kom hann þeirra erinda að taka upp plötu að áeggjan RCA útgáfunnar. Upptökur fóru fram í Cherokee hljóðverinu í Hollywood. Sér til aðstoðar hafði Bowie þá Carlos Alomar, Earl Slick og Dennis Davis. Nýir í hópnum voru bassaleikarinn George Murry og hljómborðsleikarinn kunni Roy Bittan.

Meðan á upptökum stóð notaði Bowie kókaín og amfetamín sem óður væri og kom sú neysla einna verst við session liðið. Suma daga keyrði hann viðstöðulaust í þetta átján til tuttugu og tveggja klukkustunda lotum en þess á milli lét hann bíða eftir sér hálfu og heilu dagana, ef hann hafði þá fyrir því að mæta. Á endanum tókst þó að koma saman sex laga plötu og þvílíkur gripur! Gagnrýnendur voru orðlausir og vissu hreinlega ekki hvað á sig stóð veðrið. Fyrst hafði það verið Dylanismi þá kjarnmikið rokk, því næst plastic soul og svo Station to Station. Það verk hefur síðar verið túlkað sem myndhverf lýsing á því þegar Bowie uppgötvar sjálfan sig.

F_Fame_PS_F_rsPlatan Station To Station þykir marka merk tímamót á ferli David Bowie. Hann segir endanlega skilið við fortíðina, Ziggy er horfinn á vit feðranna, The Thin White Duge er kviksettur, plastic soul og kjarnorkurokkið heyra sögunni til. Í staðinn er kominn ruglingslegur en um leið heillandi bræðingur alls þess er Bowie hafði áður tekist á hendur. Yfirborðið er kalt, allt að því fráhrindandi en undir niðri er viðmótið hlýlegt og Bowie gefur hlustandanum meira af sjálfum sér en áður.

Gagnrýnendum reyndist erfitt að skilgreina tónlist plötunnar og voru fyrstu viðbrögðin því oft klóraður hvirfill og spurul augu. Eftir nánari kynni efuðust fæstir þeirra um gæði skífunnar, margir töldu hana bestu plötu ársins 1976. Aðrir bestu plötu Bowie til þessa og skríbent N.N. Week tók svo djúpt í árinni að segja Station To Station bestu plötu síðustu fimm ára. Lögin sem prýða þessa plötu eru auk titillagsins Golden Years, Word On A Wing, TVC15, Stay og Wild Is The Wind sem er titillag bíómyndar frá árinu 1957 og eina lag plötunnar sem ekki er eftir Bowie sjálfan, fimmta lag Station To Station er fallegur ástaróður sem kallast Stay en í laginu örlar á örlítilli bjartsýni en hún var sjaldséð fyrirbrigði í ruglingslegum textum plötunnar. Til marks um gæðin komu öll lög hennar út á smáskífum víðsvegar um heim

isolarÍ febrúarbyrjun 1976 var svo blásið í mikið tónleikaferðarlag undir heitinu ISOLAR sem hófst með tónleikum í Kanada, Nánar tiltekið í Vancover  2. febrúar og í kjölfarið yfirferð yfir Norður-Ameríku sem stóð allan febrúar og mars. Þá var Evrópa tekin með trompi en tónleikaferðinni lauk eftir 64 tónleika  þann 18. maí í París. Meginuppistaða laga komu frá Station to Station og Diamond Dogs plötunum auk annara vinsælla laga. Bowie sem áður hafði gefið út yfirlýsingar þess efnis að hann ætlaði að hætta öllu tónleikabrölti svaraði blaðamanni NME því til að hann væri alls ekki að endurtaka sig í þessari ferð, hún væri ekkert framhald fyrri ferða hans. Það hefur átt sér stað ákveðinn þroski sagði Bowie og hann mun koma vel fram á þessu ferðalagi. Þetta er gert á allt öðrum forsemdum en áður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband