13.1.2011 | 11:09
David Bowie 17. hluti
Young Americans var að megninu til hljóðrituð í Sigma Sound hljóðverinu í Philadelphia undir stjórn Tony Visconti á öndverðu árinu 1975 en hann hafði ekki starfað með Bowie sem upptökustjóri í hljóðveri frá því tökum plötunnar Man who sold the world, lauk. Meðal annara meðhjálpara Bowie voru gítarleikararnir Carlos Alomar, Earl Slick og John Lennon, bassaplokkararnir Emir Kassan og Willie Weeks auk trommaranna Dennis Davis og Andy Newmark, en allt voru þetta menn sem ekki höfðu starfað með David Bowie áður.
Þrátt fyrir að Lennon væri við upptökur á Young Americans er ekki þar með sagt að allir þeir er að plötunni komu hafi hitt hann í hljóðverinu. Earl Slick sem sem reyndar var skírður Frank Madeloni þegar hann fæddist á Steaten Island í New York, var gamall aðdáandi Lennons og átti síðar eftir að spila inn á sólóplötu Lennons Double Fantasy. Þegar hann var spurður hvort hann hefði ekki hitt Lennon fyrst við upptökur á þessari plötu Bowie svaraði hann.
Earl Slick: Nei hann kom á öðrum dögum inn í hljóðverið. Við lékum samt í sömu lögunum. Það fyndna við þetta er að þegar ég svo vann með Lennon að plötu hans Double Fantasy sór hann blint að hann þekkti mig frá Young American sessioninni. Sé minnið ekki að svíkja mig því meira vorum við aldrei í hljóðverinu á sama tíma við upptökur á Young Americans, ég held ég hefði ekki gleymt slíku.
Undirtónn plötunnar sem gefin var út hinn 7. mars 1975, er væg predikun Maóisma þar sem Bowie hvetur til róttækrar þjóðernisvakningar ungs fólks í Bandaríkjunum. Aðeins stöðugt byltingarástand heldur vörð gegn sinnuleysi og glappaskotum stjórnvalda segir Bowie, einskonar endurskoðunarstefna.
Í stórgóðu titillagi Young Americans vill Bowie ríkjandi stjórnkerfi burt, telur það rotið og nefnir sem dæmi þá nýafstaðið Watergatehneyksli. Í laginu töfrar Bowie horn og hala á fráfarandi forseta Bandaríkjanna, Richard Nixon og er hann gerður að persónugervingi lævísi og svika. Young Americans stendur sem ein grimmasta ádeiluplata Bowie á ferlinum, en hún er meira en það.
Tónlistarlega var Young Americans alger kúvending og gerólík öllu því sem Bowie hafði áður gert. Sjálfur lýsti hann tónlist plötunnar sem Plastic Soul. Platan opinberaði ólík stílbrögð soul tónlistarinnar, þar á meðal eitt fyrsta og að margra mati eitt besta diskólag poppsögunar; Fame. Bakraddasöngur sem hafði verið næsta fátíður á fyrri plötum Bowie er eitt að aðalsmerkjum Young Americans auk þess sem óvenju nosturlegur söngur meistarans setur sterkan svip á heildarmynd plötunnar.
Hrifning á sögu og menningu blökkumanna skín í gegn enda reyndist stór hluti tónlistarmanna er aðstoðuðu við gerð Young Americans vera blökkumenn.
Sem fyrr sagði mætast til samstarfs á skífunni tveir af jöfrum rokksins þeir John Lennon og David Bowie og naut sá síðarnefndi fulltingis Lennons í bítlalaginu Across The Universe auk þess sem þeir sömdu lagið Fame á aðeins 15 mínútum í stúdíóinu meðan á upptökum plötunnar stóð. Fame er eins og flestir vita sjálfsagt, einn feitasti smellur Bowie og er lagið fyrsta topplag hans í Bandaríkjunum.
Mánuði eftir frækilega göngu Fame í Bandaríkjunum var Space Oddity endurútgefið í Bretlandi og ekki var að spyrja að viðtökunum, lagið kleif vinsældalistann og linnti ekki látum fyrr en toppsætinu var náð.
Á einum mánuði hafði Bowie sem sagt eignast langþráð topplög á Englandi og í Bandaríkjunum, hans fyrstu á sjö ára ferli. Útgáfa topplaganna var þó ekki það eina sem úr smiðju kappans kom á seinni hluta ársins Tvöföld safnplata með bernskubrekum Bowie var útgefin og í nóvember kom lagið Golden Years í plötuverslanir en þar reyndist undanfari nýrrar LP plötu.
Afrekaskrá Bowie er síður en svo tæmd fyrir árið 1975 því í mars þetta ár kom kappinn fram í bandarískum sjónvarpsþætti ásamt söng- og leikkonunni Cher en saman sungu þau langa syrpu klassískra dægurlaga, syrpu sem innihélt meðal annarra Young Americans og Can You Hear Me en var að öðru leiti í hefðbundnum stíl með lögum eins og Do Run Run og fleirum. Mánuði eftir sjónvarpsævintýrið með Cher skelfdi Bowie aðdáendur sína með yfirlýsingu þess efnis að tónleikaferðir væru niðurdrepandi og skaðlegar allri tónlistarlegri listsköpun. Á öðrum stað tók hann dýpra í árinni og sagðist hreinlega hættur öllu tónlistarbrölti.
Hálfu ári síðar tilkynnti sami maður að í bígerð væri yfirgripsmesta hljómleikaferðalag hans til þessa.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.