David Bowie 16. hluti

David Live 

david_bowie_LiveDiamond Dogs fékk hvarvetna feyki góða dóma og var reyndar líkt við meistaraverkin Hunky Dory og Ziggy Stardust. Almenningur lét heldur ekki sitt eftir liggja og þeytti skífunni hátt á lista víða um heim. Bowie veðraðist allur upp við þessar jákvæðu undirtektir og lét sem hljómleikayfirlýsingin hefði aldrei frá honum farið og áður en menn og málleysingar gátu áttað sig var hann rokinn af stað með fríðan flokk spilara og aðstoðarmanna í geysiviðamikla og kostnaðarsama hljómleikaferð um Bandaríkin og Evrópu.

Í þeirri ferð rættist að vissu marki draumurinn um sviðsetningu söngleiksins, svo íburðarmiklir voru tónleikar kappans. Í túrnum tók Bowie upp á því að koma fram í víðum jakkafötum og hvítmálaður í framan. Þannig var fæddur arftaki Ziggy Stardust sem Bowie reyndi svo þrálátlega að losna við á sínum tíma. Þessi nýi persónugervingur fékk fljótlega viðurnefnið The Thin White Duke sem reyndar var og tilvitnun í ritverk sem Bowie hafði unnið að skömmu áður.

KnockonwoodÁ einum af fyrstu hljómleikum ferðarinnar, nánar tiltekið í Philadelphiu í Bandaríkjunum var hljóðritað tvöfalt albúm sem út kom í október 1974 og kallaðist David Live. Innihald plötunnar er að stórum hluta tileinkað Diamond Dogs auk laga af Aladdine Sane, Ziggy Stardust, Hunky Dory og Man Who Sold The World. en af öðru efni má nefna lögin Knock on Wood eftir Eddy Floyd og All the Young Dudes sem Bowie samdi fyrir Moot the Hoople, en fyrrnefnda lagið var valið til útgáfu á smáskífu í tengslum við útgáfu plötunnar og kom út í nokkrum löndum með mismunandi umslagi (sjá mynd).

Með í þessari tónleikaferð voru kvikmyndatökumenn breska ríkissjónvarpsins en í þeirra höndum var gerð heimildarmyndar um herlegheitin og var hún sýnd í BBC seinna um veturinn undir heitinu Cracked Actor. Ræman fékk jákvæðar undirtektir bæði gagnrýnenda sem og almennings.

bowie74Þrátt fyrir rómaða tónleika David Bowie fékk platan sjálf heldur slaka dóma enda sjónarspilið líkast til of stór þáttur sýningarinnar til að hægt væri að slíta það úr samhengi við tónlistina. Sem dæmi má nefna að samtals sextán sinnum á hverjum tónleikum var skipt um sviðsmynd og sjálfur kom Bowie fram í alls 12 gerfum áður en yfir lauk og notaði 8 mismunandi míkrafóna við að skila söng sínum til áheyrenda. Allt átti þetta sína stóru þætti í að magna upp hughrif og stemmingu meðal áhorfenda, nokkuð sem ekki fékkst notið er skífunni var þeytt, nema síður væri. Sjálfur var Bowie hundóánægður með gripinn, segist aldrei hafa spilað plötuna eftir að hún kom út og á myndinni er prýðir umslagið segir hann sjálfan sig líkastan afturgöngu sem nýrisin sé upp úr votri gröf. Og enn síðar sagði hann í viðtali að með útgáfu plötunnar David Live hefði jarðaför Ziggy Stardust farið fram. En margir aðdáendurnir hafa þó telið ástfóstri við einstök lög plötunnar og telja hana ómissandi í safni sínu. 

Hljómleikaferðalagið og ekki síður umrædd mynd markaði fæðingu næstu sögupersónu Bowie; The Thin White Duke. En það viðurnefni átti efir að loða við persónu David Bowie næstu árin.
Síðla árs 1974 fluttist Bowie búferlum til Bandaríkjanna en þar hafði bóndi byggt sér snoturt heimili skammt undan Hollywood hæðum í Los Angeles borg. Kot karls innihélt auk venjulegra nauðþurfta risavaxið bókasafn þar sem Bowie fékk fullnægt lestrarfíkn er hann hafði á háu stigi, vinnustofu þar sem húsbóndinn gat mundað pensli að vild eða dundað sér við aðra listsköpun og í kjallaranum hafði hann komið sér upp þægilegu hljóðveri en í því samdi Bowie obba þeirra lagasmíða sem prýða áttu næstu plötu – Framundan var enn ein kúvendingin og verkið Young Americans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband