10.1.2011 | 02:45
David Bowie 13. hluti
Aladdine Sane
Forveri næstu sólóplötu Bowie var smáskífan The Jean Genie sem út kom 24. nóvember 1972. Það skaut sér inn á breska vinsældalistann 9. desember og náði þar 2. sæti listans en á þeim lista sat lagið samtals í heilar 13 vikur. Enda er þarna á ferð hinn besti popprokk smellur sem unnin er í anda þeirra Rolling Stones félaga Mick Jagger og Keith Ricgards. Lagið The Jean Genie hefur það alla tíð síðan verið talinn einn af eðalmolum breiðskífunnar.
Upprunalegur titill plötunnar Aladdine Sane var Love Aladdin Vein og síðar A Lad Insane sem á ástkæra ylhýra gæti útlagst sem klikkaður kauði. Bowie sjálfur hefur þó gefið út að fyrir sér sé heiti þessara plötu eiginlega "Ziggy goes to America". Þessi túlkun hans er skiljanleg því nær allar lagasmíðar Aladdine Sane voru samdar á áðurnefndum Bandaríkjatúr Ziggy Stardust og opinberar platan þær tilfinningar sem börðust í brjósti Bowie er hann leit Vesturheim augum í fyrsta sinn. Tilfinningarnar voru blendnar svo ekki sé fastar að orði kveðið.
David Bowie: Mín upplifun á Ameríku er að hvergi í veröldinni finnst fólk sem er í raun jafn einmanna og þar. Ég hef þá hræðilegu tilfinningu að meðal almennings ríki öryggisleysi og þörf fyrir mannlega hlýju því mikil, í sannleika sagt er þetta sorglegt, mjög sorglegt. Raunar er ástandið þar svo alvarlegt að margt fólk er hreinlega ómeðvitað um að það býr í Bandaríkjunum. Það heyrir aðeins um Bandaríkin. Það eru fáir Bandaríkjamenn sem gera sér það fyllilega ljós að þeir búi þar.
Á plötunni ber Bowie Bandaríkjamönnum ekki alltaf fallega söguna eins og lögin Cracked Actor og Watch That Man, bera með sér. Panic In Detroit sem telja verður í hópi betri laga plötunnar er samúðarsöngur Bowie. Tileinkaður John nokkrum Sincler, en sá afplánaði 10 ára fangelsi fyrir fíkniefnamisferli á árunum í kringum 1970. Hver þessi Sincler er verða menn að finna út sjálfir. Þess skal þó getið til glöggvunar að sá dularfulli náungi varð John Lennon líka hugleikinn á Some Time In New York City.
Heiti titillags plötunnar Aladdine Sane (1913-1938-197?) var sumum nokkur ráðgáta þó sér í lagi ártölin í nafni lagsins. En menn áttuðu sig þó fljótlega að hér er vísað til upphafsára tveggja heimsstyrjalda. og með þriðja ártalinu er sett spurning við hvenær sú þriðja muni svo hefjast.
Aladdine Sane var fyrsta platan sem Bowie gerði sem stórstjarna og sem dæmi um það lágu fyrir forpantanir í 100.000 eintök þegar platan kom út í 13. apríl 1973 en slíkt hafði ekki gerst í breskri útgáfusögu síðan The Beatles voru og hétu.
Segja má að nú hafi Bowie heldur betur fengið að kenna á álaginu sem stórstjörnutitlinum fylgdi. Gagnrýnendur, hljómplötufyrirtæki kappans og aðdáendahópurinn sem nú fór ört stækkandi, kröfðust hágæða skífu sem ætti helst að taka Hunky Dory og Ziggy Stardust fram í gæðum.
David Bowie: Aladdine Sane er ein af fáum plötum mínum þar sem ég reyndi markvisst að semja sölulega tónlist sem voru auðvitað mikil mistök og nokkuð sem ég vil alls ekki gera.
Frágangur Aladdin Sane þótti heldur hroðvirknislegur, lögin mörg hver hálfmixuð og textarnir yfir höfðuð slappari en á tveimur undangengnum skífum. Því verður þó ekki neitað að platan inniheldur nokkur snilldarverk og miðað við almennan hljómplötumarkað eru gæði skífunnar hátt yfir meðallagi. Í það minnsta kunni breskur almenningur vel við gripinn og sat hann í efsta sæti breska breiðskífulistans svo vikum skipti.
Á þessari plötu er til að mynda að finna lagið Lady Grinning Soul, er telja verður eitt fallegasta lag sem komið hefur úr smiðju David Bowie. Lagið ku vera samið sem lofsöngur um bandarísku blökkukonuna Claudia Lennear (sjá mynd), Sú hafði meðal annars unnið með Ike og Tinu Turner á sínum tíma, Þá hafði hún líka orðið Mick Jagger að yrkisefni í laginu Brown Sugar tveimur árum áður.
Tvö laga plötunnar voru gefin út á smáskífum, annarsvegar Drive In Saturday, sem fór í þriðja sæti breska vinsældalistans og hinsvegar Jean Gine, er hreppti annað sæti listans eins og áður segir en það var það besta sem nokkurt Bowie lag hafði gert á lista til þessa. Heiti lagsins Jean Genie, mun vera skrumskæling á nafni franska rithöfundarins Jean Genet, en fyrirmynd textans er að sögn Bowie, frumpönkarinn Iggy Popp, sem er einn fárra trúnaðarvina Bowie í hópi kollega.
Þann 3. júlí árið 1973 lauk hljómleikaferð Ziggy Stardust og The Spiders from Mars um hinn vestræna heim á hljómleikum í Hammersmith Odeon sem bæði voru hljóðritaðir og kvikmyndaðir.
Í lok hljómleikanna tilkynnti Bowie, áhorfendum til sárra vonbrigða að frá og með þessu kvöldi væri hann hættur öllu hljómleikahaldi og vildi þannig jarða félaga Ziggy Stardust í eitt skipti fyrir öll, enda sá góði gæi orðin skapara sínum óþægur ljár í þúfu.
Lagið sem fylgdi í kjölfar þessarar yfirlýsingar var Rock n Roll Suicide, lag sem boðaði fall hetjunnar Ziggy Stardust og í kjölfarið endalok árangursríks samstarfs hans og hljómsveitarinnar The Spiders From Mars.
David Bowie: Hvort sem þú trúir því eða ekki var það aldrei eiginleg ætlun mín að verða rokkstjarna. Ég hef haft hræðilega gaman af þessu og ástæðan að ég ákvað að fara í hljómleikaferð var sú að ég vildi flytja lögin í því andrúmslofti sem ég hafði samið þau í, sem mér fannst raunhæft fyrir þessi lög. Þetta var allt í lagi en svo kom að því að stoppa. Mér fannst ég ekki geta stígið á svið undir sömu formerkjum aftur, því ég er ekki hrifinn af því að endurtaka sjálfan mig.
Sjáum til, ég er búinn að fara til Ameríku tvisvar og ég hef ferðast um allt Bretland og Japan og ég kom að þeim tímapunkti að spyrja mig: Hver er tilgangurinn með að gera þetta allt aftur.?, Peningar?
Ég hef engar fjárhagsáhyggjur og ef ég er þreyttur á því sem ég er að gera yrði þess ekki langt að bíða að áhorfendur og heyrendur gerðu sér það ljóst einnig.
Næsta hluti verður byrtur 25. janúar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.