David Bowie 12. hluti

Rise and fall of Ziggy Stardust And the Spiders from Mars

ziggystardustalbumÞann 6 júní 1972 kom út sú plata sem skaut nafni David Bowie hæst á alþjóðlegan stjörnuhiminn rokktónlistarinnar. Sá gripur heitir fullu nafni Rise And Fall Of Ziggy Stardust And The Spiders From Mars sem í daglegu tali er kölluð Ziggy Stardust.
Guðinn var fæddur og Guðinn var Ziggy og Ziggy var Bowie var fyrirsögn blaðagreinar sem birti frétt um útgáfuna um þetta leiti. Þessi fyrirsögn var kannski ekki svo fjarri lagi, því platan Ziggy Stardust var hálfgildings rokkópera. Þar sem lög hennar tengjast í eina heildarsögu sem var nútímaleg hliðstæða dæmisögunar um Krist.
Ziggy Stardust er vera frá annarri plánetu sem kemur til jarðar í þeim tilgangi að frelsa mannkynið á örlagastundu. En í stað þess að flytja fjall-ræður og fremja kraftaverk velur Ziggy sér áhrifaríkasta miðil nútímans: rokkið, við að koma boðskap sínum til skila.
Saga Ziggy er rakin, leið hans til heimsfrægðar með hljómsveit sinni; Kóngulærnar Frá Mars, og hnignun hans er endar með mynd af söguhetjunni þar sem hún situr, niðurbrotin, svipt ljómanum í félagsskap síðasta aðdáendans.

En platan hafði annan boðskap til að bera. Því hún var einnig mögnuð lýsing Bowie á því listformi sem hann hafði valið sér, kostum en ekki síður þeirri spillingu sem þrífst innan rokkheimsins.
Ziggy Stardust er persónugervingur alls þess sem Bowie heillaðist af í rokktónlist og þó ekki sé hægt að benda á einhlíta fyrirmynd er ljóst að menn eins og Marc Bolan og Jim Hendrix eiga sinn hlut í persónunni.
Hitt er svo annað mál að Bowie varð Ziggy Stardust í hugum margra, ekki síst þeirra sem neituðu að viðurkenna fall hetjunnar.

Platan seldist í um 8000 eintökum strax fyrstu vikuna eftir að hún kom út og þá þegar ljóst að dæmið gengi. Þrátt fyrir að platan næði ekki nema fimmta sæti breska listans greip um sig hálfgert Ziggy Stardust æði eftir útkomu hennar og tónleikar þar sem verkið var flutt voru einhverjir þeir rómuðustu í sögu rokksins. Bowie kom þar fram í glitrandi gervi íklæddur hinum skrautlegustu búningum með skrautlegan andlitsfarða og æpandi oranslitað hár. Æskulýður Englands gerði sér far um að líkjast honum sem mest í útliti og tvífarar Ziggy Stardust urðu æ tíðari á götum Lundúnaborgar. En hvernig tilfinning ætli það hafi verið að hrinda af stað slíkri tískubylgju?

db72totpyouDavid Bowie: Í fyrstu var þetta nú bara til að auka sjálfstraustið, en svo fór gamanið að kárna og það varð hálf skelfilegt að lifa við þennan sæg af litlum eftirmyndum af sjálfum sér. Því þetta var orðið svo nálægt manni. Þetta fólk gróf upp heimilisfangið mitt og settist bara að í garðinum hjá mér. Þannig að garðurinn var orðinn hálffullur af fólki sem leit út eins og ég og þá varð mér nóg um. En ég hugsaði með mér að ég ætti nú nokkra sök á þessu sjálfur. Ég bjó jú til þessa bölvuðu ímynd og mátti því búast við þessum afleiðingum.

Aðeins verður að minnast á umslag þessarar sögufrægu plötu. Myndirnar sem prýða umslagið voru teknar í janúar 1972 á kaldri, rakri nóttu af ljósmyndaranum Brian Ward. Sem hafði stúdíó í Heddon Street  í London, en myndirnar voru teknar í þeirri götu. Við tökurnar var notuð Royal-X-Pan svart-hvít filma. Hönnun umslagsins og litsetning var síðar unnin af Terry Pastor sem þá starfaði fyrir fyrirtækið Main Artery, en það fyrirtækin var í eigu æskufélaga  Bowie; George Underwod, sem áður hefur verið minnst á .  Teknar voru samtals sautján myndir. Sjö þeirra þar sem Bowie var fyrir framan hús númer 23 á Heddon stræti (frá mismunandi sjónarhornum).  Fjórar myndir voru teknar af Bowie ýmsir inn í eða við símaklefa sem stóð við sömu götu (og var ein þeirra notuð á bakhlið umslagsins og sex myndir teknar annarstaðar í götunnni.

En aftur að gripnum sjálfum. Platan er talin til meistaraverk tónlistarsögunnar og sem dæmi um áhrif þessarar plötu hafa sérfróðir gjarnan bent á að söguþráður verðlaunamyndarinnar Close en Conting Of the Third Kind sé grunsamlega líkur texta lagsins Starman.

louandmottÞrátt fyrir að allt gengi nú á hinn besta veg og annir væru miklar við upptökur á Ziggy Stardust og tónleikaferðir í kjölfar þess gaf Bowie sér tíma til að rétta kollegum sínum gullislegna hjálparhönd. Hann tók að sér að stjórna upptökum á annarri sólóplötu átrúnaðargoðsins Lou Reed – Transformer sem varð langvinsælasta verk hans og inniheldur meðal annarra lögin Walkin On The Wild Side og Perfect Day. En bæði þessi lög teljast í dag til sígildra verka rokksögunnar.
Um sumarið (1973) reisti hann hljómsveitina Mott The Hoople upp frá dauðum og samdi fyrir hana lagið All The Young Dude sem varð ódauðlegt í flutningi sveitarinnar og er ennþá leikið í útvarpsstöðvum víða um heim.

Margir hafa í gegnum tíðina litið á fæðingu Ziggy Stardust sem upphaf þess að Bowie teldist fullskapaður tónlistarmaður. Þó verður það strax ljóst ef árin á undan eru skoðuð í kjölinn að það gerðist fyrr, jafnvel áður en Space Oddity kom út. Ekki þarf nema að skoða texta laganna á fyrstu LP plötunni til að skynja hve leitandi Bowie var og tilbúinn að fetja óhefðbundnar leiðir í þeim efnum. 
Texta og hugmyndafræðilega var Bowie fullmótaður, svo vel að tilurð Ziggy Stardust smellpassaði við hans fyrri verk.

tonydefraceSú dæmalausa velgengni sem Bowie átti að fagna á árinu 1972 gaf honum og samstarfsfólki hans tilefni til aukinnar bjartsýni, en aðeins eitt skyggði á. Það var samstarfsbrestur á milli Bowie og umboðsmannsins hans Tony Defrees er verið hafði umboðsmaður Bowie frá 1969. Tony þessi makaði krókinn hvað hann gat á kostnað Bowie sem varð að sjá á eftir háum fjárfúlgum í vasa þessa ótrygglynda félaga. Að aflokinni þeysireið Bowie og sveitar hans um stórborgir Bandaríkjanna var Defrees sparkað en síðasta kveðja til handa skunkinum gat kannski að líta í nafni næstu LP plötu: Aladdine Sane. En samningar þeirra á milli voru Bowie áhyggjuefni og fjárhagsleg byrði allt fram til ársins 1983.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband