8.1.2011 | 20:56
David Bowie 11. hluti
Hunky Dory
Næsta verk Bowie kom á markað 17. desember 1971 og kallaðist Hunky Dory er íslenska má sem Í góðu lagi. Þetta var fjórða sólóbreiðskífa hans en jafnframt sú fyrsta sem hann vann undir merkjum RCA útgáfunnar. Reyndar hafði Bowie hafið upptökur plötunnar í Trident hljóðverinu í London í apríl 1971. Eftir að fulltrúar RCA höfðu heyrt prufuupptökur af plötunni var undirritaður samningu í september eins og áður hefur komið fram.
Meðreiðarsveinar Bowie voru áfram þeir Mick Ronson og Woody Woodmansey en höfðu nú fengið til liðs við sig Trevor Bolder í stað Tony Visconti sem tók sér tímabundið leyfi. Ásamt Ken Scott hljóðmanni sem var upptökustjóri í stað Visconti. Honky Dory er öðrum þræði óður Bowie til New York borgar og er með einum eða öðrum hætti vísað til fjögurra fulltrúa nútíma listsköpunar: Frank Sinatra, Lou Reed, Andy Warhol og Bob Dylan en tveir þeir síðarnefndu eru bein viðfangsefni í textum plötunnar.
En Bowie gerir meira á þessari plötu en að líta um öxl á hetjur gærdagsins. Lagið Oh you Pretty Thinks er enn ein framtíðarsýn Bowie þar sem boðað er fall nútímamannsins. Enginn bölsýnistónn er þó í laginu, því það sem morgundagurinn ber í skauti sér er þvert á móti, nýr og betri heimur þar sem æska nútímans tekur höndum saman við framandi verur utan úr geimnum. Homo Sapiens víkur úr vegi fyrir Homo Superior eða Ofurmenninu.
Hunky Dory er stórum léttari en The Man Who Sold The World og kemur það til að laglínur eru auðgrípanlegri auk þess sem yfirbragð útsetninga er fágaðra. Þá fer ekki á milli mála að ferskleikinn er meiri en áður var. Enda var Bowie löngu kominn yfir það stig að vera endurómur áhrifavalda sinna og til dæmis er stæling hans í söngnum á Anthony Newley ekki lengur sú sem verið hafði. En Bowie hafði í upphafi ferilsins tekið stíl þess söngvara svo föstum tökum að vart mátti á milli manna heyra hvor þeirra væri að syngja.
Lagið Life On Mars, er einkennandi fyrir þessar breyttu áherslur á tónlist Bowie þar sem gítarleikur og strengjaútsetningar Mick Ronsons ásamt smekklegum píanóleik Rick Wakeman skapa hárrétta umgjörð frábærrar laglínu. Sögusviðið er glundroði stórborgarlífsins og örvænting söguhetjunnar er alger þegar hún reynir árangurslaust að flýja firrta tilveru sína, hún er jafnvel til í að ganga svo langt að setjast að á annarri plánetu ef því er að skipta.
Sá stíll sem notaður var við hönnun myndaalbúmsins á Hunky Dory er sóttir í myndabók um Marlene Dietrich. En sagan segir að Bowie hafi mætt með bókina í myndatökur fyrir plötualbúmið.
Platan Hunky Dory seldist fremur hægt í byrjun en hálfu ári eftir útkomu tók hún á rás upp breska vinsældalistann og hafnaði loks í þriðja sæti. Vinsæl lög eins og Changes og Life On Mars hafa haldið nafni skífunnar á lofti í gegnum árin Þá má finna á skífunni lag sem lítt hefur verið spilað á útvarpsstöðvum en engu að síður er þar eitt magnaðasta verk plötunnar, þetta er lagið The Bewlay Brother. Lagið olli sagnfræðingum miklum vangaveltum lengi vel því textinn þótti einn sá tornæmasti sem Bowie hafði samið. Sumir sögðu hann fjalla einfaldlega um samband Bowie og bróður hans Terry, aðrir töldu hann lýsa eiturlyfjaneyslu og enn aðrir þóttust sjá tilvísun í forn goð er einnig komu við sögu á The Man Who Sold The World. Sjálfur hafði Bowie lítið vilja upplýsa um merkingu textans og leyndardómur Bewlay bræðra er því enn í dag að mestu óupplýstur, þó svo söguskýrendur hafi verið að opinbera meiningar textans í riti og ræðum eru þær skýringar gerðar út frá eigin skynjun.
Bowie var nú að mestu búin að skapa sér heilsteypta ímynd öfgakennds afsprengris tölvualdar sem leit framtíð mannkyns heimspekilegum efasemdar augum. Órjúfanlegur hluti þessarar ímyndar var auk þess tvíræð afstaða Bowie til kynferðismála en í upphafi árs 1972 var kynhneigð Bowie mjög til umræðu í bresku popppressunni. Þessi umræða kom reyndar í kjölfar viðtals við Bowie við tímaritið Melody Maker 22. janúar 1972., þar sem hann henti þeirri fullyrðingu fram að hann væri tvíkynhneigður og hefði ávalt verið það. Síðar þótti sýnt og sannað að þessi framsetning hans hafði fyrst og fremst verið gerð í auglýsingarskyni, þó hún ætti sér nokkra stoð í raunveruleikanum. Í fullu samræmi við allt þetta allt voru sögupersónur í lögum Bowie jafnan ansi óvenjulegar, gjarnan ójarðnesk fyrirbæri, gestir í okkar skrýtnu veröld. Bowie var síðar spurður hvort hann væri niðursokkinn í fríkað fólk og furðuleg fyrirbæri.
David Bowie: Ég veit nú ekki hvort það er svo djúpstætt, en ég hef vissulega áhuga á fólki sem leggur eitthvað undir og sker sig úr fjöldanum. Ég held að þetta sé arfleið frá þeim tíma sem ég var að fást við myndlist. Ég málaði oftast fólk sem var ýmist á einhvern hátt spillt eða brenglað. Ég hef engan áhuga á að mála eða semja lög um venjulegt fólk, undir hversdagslegum kringumstæðum, það er til nóg af liði sem fæst við slíkt.
Platan Hunky Dory hefur alla tíð verið hampað sem einu af meistaraverkum Bowie, og reyndar talin meðal áhrifavalda í tónlistarsögunni sem slíkrar.
Til marks um það má nefna að tónlistatímaritið Q valdi Hunky Dory í 43. sæti yfir bestu plötur allra tíma árið 1988. Og árið 2000 gerði sama tímarit enn betur og valdi hana í 16 sæti yfir 100 bestu plötur Bretlands. Hunky Dory hefur hlotið ámóta kosningar fleirri tímarita og fagaðila í gegnum tíðina. Tónlistasérfræðingar hvort heldur er lærðir eða leikmenn hafa talið plötuna hafa haft áhrif á tónlistarsöguna.
Efnalegur hagur Bowie fór nú að vænkast og hann tók nú að narta í ávexti frægðarinnar. Gisti á lúxushótelum, svolgraði kampavín og ók um á glæsikerrum. En gljálífið var ekki markmiðið í sjálfu sér heldur hugmyndalegur grunnur að fæðingu næstu sögupersónu Bowie og jafnframt þeirrar frægustu Ziggy Stardust.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.