8.1.2011 | 05:15
David Bowie 9. hluti
Man Of Word Man Of Music - Space Oddity
Þremur mánuðum eftir útkomu Space Oddity gaf Bowie út breiðskífu sem upphaflega kom út í Bandaríkjunum undir heitinu Man Of Words Man Of Music en í Bretlandi bar hún einfaldlega nafn flytjandans, en var síðar skírð eftir smellnum Space Oddity er hún var endurútgefin árið 1972.
Platan var nokkuð sundurlaus, einskonar bræðingur gamals og nýs tíma og jafnframt vitnisburður um leit Bowie að persónulegum stíl. Til marks um þetta er til að mynda annarsvegar lagið God Knows Im Good, sem minnir talsvert á fyrri verk hans og hinsvegar lag sem áður hafði komið út á bakhlið smáskífunnar Space Oddity, The Wild Eyed Boy From Freecloud, þar sem Bowie lætur þá skoðun sína í ljós að trygglyndi fái maður borgað. Texti lagsins segir í stuttu máli frá pilti nokkrum sem gerist sekur um það eitt að elska fjöllin fyrir ofan þorpið sitt. Íbúar þorpsins telja pilt svo bilaðan á geði að hann verði að aflífa með hengingu til að kom í veg fyrir útbreiðslu slíkra tilfinninga. En fjöllin vernda piltinn og eyða þorpinu.
Unwashed And Somewhat Slightly Dezed, sem þýða mætti á íslensku sem Gróf og svolítil smávægileg röskun, en Bowie segir innihald textans lýsingu á því hvernig sér hafi liðið í kjölfar þess að faðir hans, John Jones lést.
Þjóðalagakeimurinn er enn áberandi í nokkrum laga plötunnar og yfirbragðið er mjög hófstillt, ekki síst vegna silkimjúkra en lítt frumlegra útsetninga. Tvö lög standa þó upp úr auk Space Oddity. Annað þeirra er Cygnet Committee; saga um ofurmenni á niðurleið en þeim þema fylgdi Bowie næstu árin. Þriðja lagið var svo Memory Of Free Festival sem er hreinræktuð afurð hippatímans.
Woodstock hátíðin var nýlega yfirstaðin og margir töldu hana uppsprettu texta Bowie, en svo var þó ekki. Því lagið vísaði til tónlistarhátíðar er Bowie skipulagði í tengslum við Beckenham Arts Labs, fyrrnefnt listagallerí í Suður London sem Bowie hafði sett á stofn.
Bowie kom fram á tónleikum með hljómsveitunum Humple Pie, Hermann Hermits og Troogs í tengslum við útgáfu breiðskífunnar en þrátt fyrir það og vinsældir lagsins Space Oddity fékk platan slæmar viðtökur gagnrýnenda sem og hins almenna borgara. Bowie varð fyrir miklum vonbrigðum og hugðist um tíma snúa sér alfarið að starfsemi fyrrnefnds gallerís þar sem hann vann að samruna leiklistar og tónlistar. Eftir miklar fortölur tókst umboðsmönnum hans þó að telja í hann kjark til frekari fórna fyrir tónlistargyðjuna.
Þann 20. mars 1970 giftist Bowie bandarískri fyrirsætu, Mary Angelia Barnett sem hann hafði kynnst á fréttamannafundi árinu áður þar sem verið var að kynna hljómsveitina King Crimson. Hú hafði Rúmlega ári síðar fæddist þeim hjónum sonur og var hann af makalausri hugmyndaauðgi skýrður Duncan Zowie Haywood Jones.
En Angela átti eftir að eiga sinn þátt í mótun Bowie næstu árin, Þó ekki hvað sjálfa tónlistina sjálfa, heldur fyrst og fremst útlitslega séð. Þó má greina í nokkrum laga hans síðar að stormasamt hjónaband þeirra hafi á stundum reynt á þorlimæðina, enda öllum gildur hjónabandsins kastað fyrir borð í endalausum augnablikum við að upplifa það frelsi sem þessi tími bar með sér og ekki síst innan rokkheimsins. Þar var ekkert heilagt og tími tilrauna í eiturlyfjum og kynlífi á hraðferð augnabliksins þar sem ekkert var heilagt og öllum gildum fyrri kynslóða var kastað á eld fortíðarinnar. Enn og aftur sannaðist þar kenningin hvað best "að byltingin étur oftast börnin sín"
FRAMHALD SÍÐAR...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.