7.1.2011 | 05:41
David Bowie 8. hluti
Space Oddity
David Bowie hafði nú starfað í ein sex ár sem tónlistarmaður með hliðarsporum í kvikmynda og látbragðsleik, hann hafði starfað með einum sjö sveitum, og að baki lágu í bunkum 10 fáseldir smáskífutitlar auk einnar breiðskífu og útrunnir eða riftir útgáfusamningar við ein fjögur plötufyrirtæki. Með sinn annan umboðsmann á ferlinum gilti það einu hversu víða hann reyndi fyrir sér innan raða mannlegrar listsköpunar, viðtökurnar voru alltaf jafn fálátar.
Það sá þó fyrir endann á þessum mögru árum því þann 20. júní 1969 náði Bowie samningi við Mercury Philips útgáfuna og þann 11. júlí sama ár kom á markað smáskífa með því lagi sem kom David Bowie loks á framfæri - Space Oddity.
Saga þessa lags er um margt merkileg. Bowie sem var að undirbúa og velja efni á breiðskífu ætlaði laginu að fara inn en upptökustjórinn Tony Visconti líkaði ekki lagið.
Tony Visconti: Space Oddity hafði verið hljóðritað fyrir myndina Lover You Till Tuesday en ekki gefið út á þessum tíma. Ég man þegar ég heyrði lagið fyrst. Við vorum að setja saman plötu, blandaða af léttu rokki og trúbador. Þar á meðal lög eins og Janine, Unwashed And Slightly Dazed ásamt fleiri lögum. Nú, ég þekki David, hann er mjög sannfærandi, allar breytingar hans eru mjög ekta, eins melódíurnar. Space Oddity, lag um mann sem lendir á tunglinu. Sem ég, að ég held, hefði kvatt hann til að semja um, engin spurning um það. Here am I sitting in a tin can hljómar næstum eins og Simon And Garfunkel plata en rest lagsins eins og frá allt öðru. Í dag væri viðhorf mitt sennilega opnara og ég segði: Vel gert David. En í þá daga var mér sama, ég gerði einungis það sem mér fannst rétt. Gus Dudgeon sem unnið hafði með mér áður í nokkrum Deram upptökum hafði sagt að hann vildi vinna með David. Svo hér var tækifærið og ég kom þeim saman.
Gus Dudgeon: Ég sat á skrifstofunni minn þegar innanhússíminn hringdi. Það var Tony Visconti sem hafði skrifstofu ofar í húsinu: - Ég er hér með gamlan vin þinn hérna hjá mér, David Bowie, sagði hann, Við erum að tala um að gera albúm saman en hann er með lag sem mér líkar ekki, en þér gæti líkað það. Viltu heyra það.
- Auðvitað, svaraði ég. Bowie kom síðan niður og setti demóupptökuna í tækið mitt og lagið hreinlega feykti sokkunum af mér. Ég hringdi í Tony til baka og sagði: - Þér getur ekki verið alvara með að vilja ekki hljóðrita þetta lag. - Mér líkar það bara ekki, svaraði hann.
Því varð úr að Gus Dudgeon stjórnaði upptökum fyrsta lagsins sem gerði David Bowie ódauðlegan í Breskri rokksögu. Tony Visconti er hinsvegar enn sömu skoðunar varðandi þennan fyrsta smell David Bowie.
Lagið Space Oddity var samið undir sterkum áhrifum frá kvikmynd Stanley Kubrick, 2001 A Space Oddessey En innblástur handritsins hafði höfundur myndarinnar fengið eftir lestur bókar Arthur C. Clarke, The Sentinel. Lagið Space Oddity var reyndar síðar notað sem kynningarlag breska sjónvarpsins um þann sögulega atburð er maðurinn steig fyrst fæti á tunglið. En Space Oddity er fjarri því að vera óður til ævintýramennsku eða tækniþróunar mannskepnunnar.
Megininntak textans er firring í sinni tærustu mynd. Geimfarinn Major Tom lendir á tunglinu, en uppgötvar mitt í auðninni að hann hefur enga löngun til að snúa aftur til jarðar. Lagið vakti mikla athygli í Bretlandi og náði fimmta sæti vinsældalistans. Lagið er enn í dag eitt af merkustu verkum Bowie og langlífi þess má merkja af því að heilum sex árum eftir útkomu rauk það skyndilega upp breska listann og færði Bowie hans fyrsta topplag þar í landi.
David Bowie: Ég leit á Major Tom sem mann er hélt að hann væri ósköp venjulegur náungi en lenti í vægast sagt óvenjulegum kringumstæðum sem hann réði ekki fram úr og ollu því að hann ákvað að segja endanlega skilið við eigin plánetu. Þetta er innihald textans og frá mínum bæjardyrum séð var það hans eigin ákvörðun að snúa ekki aftur til jarðar, ekki einhver bilun í tækjabúnaði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.