David Bowie 7. hluti

David Bowie (1967)

Bowie-davidbowieÍ apríl 1967 var útgefin annar undanfari fyrstu breiðskífu David Bowie og var þar á ferðinni hin undarlega lagasmíð Laughing Gnome. Lagið sem frekar er í ætt við Harald og Skríplana en David Bowie fékk hræðilega útreið í dómum poppskríbenta. Þó virtist almenningi  falla það betur í geð þar sem söngurinn seldist það í 250.000 eintökum er skífan var endurútgefinn árið 1973 og komst þá í fjórða sæti breska vinsældalistans.
Lagið á B-hlið skífunnar var The Gospel According To Tony Day. Hvorugt þessara laga var þó að finna á breiðskífunni sjálfri er hún kom út 2. júní 1967. Og má þess geta í framhjáhlaupi að þann sama dag sendu Bítlarnir frá sér plötuna Sgt. Pepper’s Lonely Hearts Club Band.

Eitt af því sem telja verður sérstakt við þessa fyrstu sólóbreiðskífu Bowie er að með útgáfu hennar varð hann fyrstur breskra poppara til að fá útgefna breiðskífu án þess að hafa átt lag á topp 10 vinsældalistanum breska áður.
En slíkt var í þá daga talið frumskilyrði þess að fá útgefna LP plötu. Platan sem einfaldlega hét David Bowie innihélt tólf misjafnar lagasmíðar, allar eftir hann sjálfan og vekur athygli hve margar þeirra vísa beint til æskuára kappans.
Lög eins og When I Live My Dream, There Is A Happy Land og Come And Buy My Toys opinbera öll vissan söknuð eftir hamingjusamri barnsæsku sem hann aldrei fékk notið.

Á þessum árum urðu til nokkrar upptökur með Bowie sem ekki höfðu fengið inni á plötum, eins og oft vill verða. Ein fjögur slík lög voru síðar valin á safnplötuna The World of David Bowie sem kom út árið 1970. Tvö þessara laga þykja standa upp út; Let Me Sleep Beside You og Karma Man.  Fyrrnefnda lagið er um konu á miðjum aldri sem leitar í angist sinni ástar og tilbúin að þiggja hana hvaðan sem er. Síðara lagið opinberaði áhuga Bowie á Búddatrú. Skömmu eftir útkomu sóló breiðskífunnar var eins og Bowie yrði afhuga tónlistinni því næsta eina og hálfa árinu eyddi hann í ýmis áhugamál sem lítt tengdust tónlist.
Hann eyddi til að mynda nokkrum vikum í búddaklaustri í Skotlandi, hann málaði mikið og setti reyndar upp eigið listagallerí í Kent, þar sem hann hugðist blanda saman hinum ýmsu ólíku listformum, hann lék í ódýrum íspinnaauglýsingum og síðast en ekki síst lærði hann látbragðsleik og dans hjá hinum þekkta Lindsey Kemp.
Reyndar náði Bowie nokkurri færni í látbragðsleik og hélt hann sýningar í nokkrum stórborgum Englands.

FeathersFljótlega eftir að Bowie hóf að stunda látbragðsleik kynntist hann stúlku að nafni Hermione Farthingale og saman í félagi við John Hutchinson mynduðu þau fjöllistahópinn Feathers. Reyndar kallaði hópurinn sig í upphafi Turquoise og tók það nafn af verkinu Pierrot in Turquoise sem samið hafði verið af læriföðurnum Lindsey Kemp. Hópurinn skipti þó nafninu fljótlega út og nefndi sig Feathers eins og áður segir.

Síðla árs lék Bowie ásamt Feathers í kvikmynd Kenneth Pitt; Love You Till Tuesday, en fyrir þá mynd samdi hann einmitt meistaraverkið Space Oddity og var demo hljóðritun gerð fyrir myndina þann 2. febrúar 1969. Í þeirri útgáfu lagsins syngur John Hutchinson aðalrödd. Myndin var ætlað að sýna hæfileika Bowie á hinum ýmsu ólíku sviðum lista en ráðamenn BBC, sem annars leist vel á ræmuna, töldu af og frá að taka hana til sýningar þar sem aðalleikarinn væri svo til óþekktur. Þessi undarlega afstaða var þess valdandi að myndin lá ósýnd í rúm þrettán ár uns hún fékk uppreisn æru og var gefin út á myndbandi fyrir almennan markað.

Bowie sem gert hafði ákveðnar væntingar og áætlanir varðandi samstarf sitt við John Hutchinson varð fyrir miklum vonbrigðum þegar Hutchinson ákvað að yfirgefa hópinn aðeins fáum dögum eftir að tökum á myndinni lauk, enda lítil innkoma fyrir óþekktan fjöllistahóp sem varð að vinna alla forvinnu og berjast fyrir svo til hverri uppákomu sem þeir nældu í. Ekki verður hjá því komist að taka undir Bowie-miniþær kenningar sem virðast liggja ljósar fyrir að samband Bowie við Lindsey Kemp hafi átt stóran þátt í mótun stíls og hugmyndafræði sem síðar átti eftir að gera nafn Bowie ódauðlegt í sögu breskrar rokktónlistar.

Í febrúar 1969 hóf söngvarinn Mark Bolan og hljómsveit hans T-Rex hljómleikaferð um Bretland þar sem Bowie kom fram sem upphitunarnúmer. Ekki var hann þó mættur til að þenja raddböndin, framlag hans fólst í eins manns látbragðsleik, við dræmar undirtektir áhorfenda, er sagði torskylda sögu Budda munks nokkurs frá Tíbet.

FRAMHALD SÍÐAR....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband