6.1.2011 | 20:44
David Bowie 6. hluti
Fyrstu sólóplöturnar
Rúmum tveimur mánuðum eftir útgáfu lagsins Cant Help Thinking About Me kom fyrsta sólósmáskífa David Bowie á markað og innihélt hún lagið Do Anything You Say. Einfalur ástaóður og þótti mörgum meira til B-hliðar plötunnar koma þar sem getur að heyra lagið Good Morning Girl. Og þó þar sé sungið til stúlkunnar einnig virðist meira púður í textanum. Reyndar var Bowie viðriðinn sveit sem kallaði sig The Buzz, er kom að gerð skífunnar sem og þeirrar næstu á eftir, auk óþekktra sessionleikara. En þar sem Bowie hafði þá þegar undirritað samning við Pye útgáfuna sem sólóisti var skífan alfarið skrifuð á hann, án þess að nafn sveitarinnar kæmi þar fram.
Útgáfu hverrar smáskífu fylgdi mikið strögl og fórnir og ekki bætti úr skák að þau lög sem hann hafði sent frá sér til þessa höfðu öll farið fyrir ofan garð og neðan hjá almenningi. Bowie var hinsvegar trúr köllun sinni og um svipað leyti og fyrsta sólólag hans var markaðssett bjó hann nánast í yfirgefinni sjúkrabifreið skammt frá Marquee klúbbnum þar sem hann átti ekki í önnur hús að vernda. En bifreiðin var og nýtt í að flytja menn og tæki milli tónleikastaða þegar verkefni af því tagi buðust.
Lagið Do Anything You Say markar upphaf einhvern glæsilegasta sólóferil er breska rokksagan hefur að geyma. Reyndar hafa síðar birst á mörkuðum ólöglegar plötur með efni sem sagt að sé hljóðritun á hljómsveitinni Buzz með Bowie í broddi fylkingar, en aðrir vilja halda því fram að þetta efni hafi ekkert með Bowie að gera, hann komi þar hvergi nálægt.
Í ágúst 1966 kom út önnur sólósmáskífa Bowie með laginu I Dig Everything og var hún líkt og sú fyrsta gefin út á merki Pye útgáfunnar. Í desember hafði Bowie hinsvegar skipt yfir á Deram og fyrsta dvergskífan hans á því merki var undanfari hans fyrstu breiðskífu og innihélt lögin Rubber Band og London Boys. Síðarnefnda lagið, sem að vísu kom ekki út á breiðskífunni, þykir í dag eitt það besta sem Bowie gerði fram að Space Oddity.
Texti lagsins þykir firna góður en hann fellur vel inn í tíðarandann við upphaf hippatímans og öðlaðist raunar nýtt líf þegar pönkbylgjan reið yfir.
Söguhetjan er sautján ára gamall dreifbýlingur sem móttekur ferska strauma frá borgum og bæjum, strauma frjálsræðis og tilrauna til að brjótast úr viðjum ríkjandi hefða. Hann heillast af þessari uppreisn æskunnar þar sem barist er með blómum og tónum og andinn er auðgaður með hinum torkennilegustu lyfjum. Hann vill ólmur og uppvægur verða þátttakandi að þessu öllu, strýkur að heiman og setur stefnuna á London. Er þangað kemur sekkur hann sér í lifnaðinn sem virtist svo spennandi heima í sveitinni. En það fer með þessa byltingu eins og aðrar sem gerðar eru af góðum hug, hún étur upp börnin sín.
FRAMHALD SÍÐAR...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.