6.1.2011 | 00:30
David Bowie 4. hluti
The Manish Boys
Eftir skyndilega upplausn The King Bees í ágúst 1964 var David boðið söngvarasæti í hljómsveitinni The Manish Boys. Þessi sjö manna sveit sem ættuð var frá Maidstone í Englandi hafði getið sér nokkurs orðstírs undir heitinu The Band Seven og þar áður sem The Jazz Band en á fjögra ára starfsferli sínum í Maidstone er talið að hún hafði gengið í gegnum einar fimm nafnabreytingar og álíka oft skipt um tónlistarstefnu. Ástæður þess að David var boðið sæti í sveitinni á sér tvær meginskýringar. Í fyrsta lagi hafði sveitin nýlega gert útgáfusamning við Parlopone hljómplötuútgáfuna og vantaði söngvara til liðs við sig. Í öðru lagi, og þá síðast en ekki síst vegna þess að meðlimum The Manish Boys þótti honum svipa mjög í útliti til Brian Jones, eins af forsprökkum Rolling Stones. Þeir töldu það geta orðið þeim til framdráttar, því rétt eins og Rolling Stones nefndi sveitin sig eftir gömlu Muddy Waters lagi og starfaði undir sterkum áhrifum bandarískrar blústónlistar og hafði reyndar vakið nokkra athygli fyrir óvenjulega hljóðfæraskipan, þar sem alt, baratón og tenórsaxófónar plús trompet áttu hlut að máli.
Sveitin varð þó við inngöngu David, að breyta tónlistarstefnu sinni einu sinni enn og eftir innlimun Davids var hún skipuð: David Jones (söngur, sax), John Watson (söngur, bassi og rythma gítar), Mick White (trommur), Bob Solly (organ), Paul Rodriguez (tenor sax, trompet og bassi) og Wolf Byrne (bariton sax og harmonikka).
Í lok nóvember 1964, þrem mánuðum eftir að David gekk til liðs við sveitina var The Manish Boys ráðin af umboðsmanninum Arthur Howes til að koma fram á einum sex tónleikum sem upphitunarnúmer á tónleikaferð Gen Pitney-Garry & The Pacemakers. Með í þeirri för voru hljómsveitin The Kings og söngkonan Marianne Faithful. Ferðin hófst 1. desember 1964. Howes var nokkuð þekktur umboðsaðili á þessum tíma og hafði meðal annars kynnt hljómsveitina The Kinks, er hún hafði í ágúst þetta sama ár náð toppi Breska listans með laginu You Really Got My sem hljóðritað var undir stjórn upptökustjórans Shel Talmy.
Meðal þeirra sem komu og sáu sveitina spila var fjórtán ára gömul stúlka Dana Gillespie. Skemmst er frá að segja að leiðir hennar og David lágu saman eftir tónleikana sem síðar þróaðist í vináttusamband. Átti David síðar eftir að leggja henni lið við gerð sólóplötu.
Skömmu eftir að verkefni The Manish Boys lauk hélt sveitin sem leið lá í Regent hljóðverið til upptöku laga á væntanlega dvergskífu fyrir Decca útgáfuna, samkvæmt áðurnefndum samningi sveitarinnar. Undir stjórn upptökustjórans Mike Smith hljóðritaði sveitin að minnsta kosti tvö lög. Það fyrra var lag Barböru Lewis, Hello Stranger og hitt var lagið Love Is A Strange, sem síðar varð heimsþekkt í flutningi Everly Bræðra sem komu laginu á topplistann í október árið 1965. Ekki varð neitt af útgáfu skífunnar og liggja því þessar upptökur The Manish Boys enn einhversstaðar í geymslum ókunnar almenningi. Eftir að hafa lokið þessum upptökum komst sveitin í hljóðver á ný nú fyrir tilstilli Arthur Howes sem fékk áðurnefndan Shel Talmy til að hljóðrita efni á einu smáskífuna David Jones gerði með The Manish Boys. Sú kom út þann 5. mars 1965. Á fyrri hliðinni er hið áheyrilega lag I Pity The Fool. Við upptökur þess lags var fenginn utanaðkomandi gítarleikari og var þar á ferð enginn annar en Jimmy Page, sá hinn sami og síðar öðlaðist varanlega frægð með hljómsveitinni Led Zeppelin.
Um svipað leyti og I Pity The Fool var útgefið á merki Parlophone útgáfunnar, gafst The Manish Boys tækifæri til að koma fram í sjónvarpsþætti í BBC en slíkt þótti mikil viðurkenning og gífurleg auglýsing fyrir viðkomandi sveit. Þegar stjórnandi þáttarins, Barry Langford, sá hljómsveitarmeðlimi kom hins vegar alvarlegt babb í bátinn. Einn meðlima bandsins, að sjálfsögðu David Robert Jones var með liðað hár niður á axlir og þó Bítlarnir hefðu brotið ísinn hvað hársídd varðaði tveimur árum áður með því að láta hárið vaxa niður fyrir eyru, þótti á þessum tíma yfirgengilegt og meira en lítið óforskammað fyrir karlmann að hafa ljósa lokka niður á herðar.
Samningaviðræður voru því settar í gang en David stóð fastur á sínu og gaf sterklega í skin að fyrr mundi hann láta lífið en skerða hár sitt. Málalyktir urðu þær að The Manish Boys með David Jones innanborðs fékk að spila í áðurnefndum þætti en með því skilyrði þó að ef einhver kvörtun kæmi frá áhorfenda vegna hárprýði Davids myndu laun hljómsveitarinnar fyrir þáttinn renna til líknarmála.
Í þættinum flutti sveitin lagið I Pity The Fool og lag er sett hafði verið á b-hlið áður nefndrar dvergskífu sem nefndist Take My Tip en það var fyrsta lagasmíðin eftir David Jones sem þrykkt var á plast. En David var ekki ætlaður ævilangur staður innan raða The Manish boys, eftir rifrildi vegna ráðríkis Davids ákvað hann að yfirgefa bandið.
FRAMHALD SÍÐAR....
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.